Bloggfærslur mánaðarins, október 2025

Tvær slæmar hugmyndir í einni framkvæmd

Gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar verður ekki breytt til fyrra horfs þótt búið sé að taka í notkun göngubrú yfir Sæbraut. Fyrir lá að breytingar á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls myndu valda auknum umferðartöfum þegar Reykjavíkurborg ákvað að ráðast í framkvæmdirnar. Íbúar í Smárahverfi hafa áhyggjur af þrengingum á gatnamótum og fækkun akreina á Fífuhvammsvegi og víðar við Smáralind. 

Það virðist eins og borgar- og bæjarfulltrúar víða hafi fengið tvær slæmar hugmyndir á sama tíma:

  • Að þrengingar á gatnamótum og fækkun akreina auki umferðaröryggi og öryggi gangandi vegfarenda frekar en að færa bara umferð frá stofnæðum og inn í íbúahverfi með öllum sínum skólum og leikskólum
  • Að takmörkuðu fé eyrnamerkt innviðaframkvæmdum eigi að eyða í að fjarlægja innviði frekar en bæta við þá

Þegar þessar tvær hugmyndir koma saman þá fær fólk að finna fyrir því. Fyrst þarf að þrengja og takmarka á meðan á framkvæmdum stendur og eftir framkvæmdir þarf að eiga við umferðarteppur og tafir, að eilífu, eða þar til stór hluti umferðarinnar hefur fundið sér nýja farvegi.

Ekkert af þessu kemur mér á óvart og auðvitað er til margt verra en umferðarteppur og manngerðar tafir. Frekar en að dvelja á því einu og sér er betra að líta á heildarmyndina og komast að þeirri rökréttu niðurstöðu að ef sveitarfélög geta ekki einu sinni eytt framkvæmdafé í framkvæmdir (eitthvað nýtt byggt sem bætir við það sem fyrir var) að þá sé þeim varla treystandi fyrir öðrum og mikilvægari hlutum, svo sem menntun barna eða úthlutun lóða. 

Því það er víðar að sveitastjórnarfulltrúar taka margar slæmar hugmyndir og sameina í eina. 

Svo sem að telja kristna trú vera innrætingu og þar með skólaheimsóknir barna sem kosta lítið sem ekkert og eru ákveðin upplifun sem minnir á rætur okkar og sögu og gildi og trú og borga þess í stað rándýrum verktökum til að þusa yfir þeim um kyn og kynjavitund og hvað veit ég. Svo dæmi sé tekið.

Ég hef alla tíð talið það vera gott yfirvald sem gerir sem minnst en geri það vel. Yfirvald sem hefur á sinni könnu fá og vel skilgreind verkefni sem eru vel fjármögnuð, unnin af fagfólki og undir miklu og heilbrigðu aðhaldi, og þá gjarnan aðhaldi kjósenda frekar en möppudýra.

Með öðrum orðum: Andstæðan við rekstur Reykjavíkurborgar, þökk sé kjósendum hennar.


mbl.is Gatnamótunum verður ekki breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband