Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2025
Fimmtudagur, 9. janúar 2025
Viltu launahækkun? Færðu lögheimilið!
Allir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, þ.e. Suðurkjördæmis, Norðausturkjördæmis og Norðvesturkjördæmis, fá greiddar 185.500 krónur á mánuði í húsnæðis- og dvalarkostnað skv. reglum Alþingis um þingfararkostnað.
Þetta er óháð því hvort viðkomandi sé eingöngu búsettur á höfuðborgarsvæðinu og reki heimili í göngufæri frá Alþingishúsinu eða geti kallað kjördæmi sitt heimili. Það eina sem leysir úr læðingi næstum því 200 þús. krónur er skráning á lögheimili í þjóðskrá. Raunveruleikinn skiptir hér engu máli.
Það eru ekki margir sem fá launahækkun út á það eitt að skrá sig til heimilis í einhverjum eyðifirði. Það furðulega er kannski að landsbyggðaþingmaður þurfi ekki þingfararkostnað því hann á ekkert erindi í kjördæmið sitt - er ekki með heimili þar og þekkir kannski ekki sálu á svæðinu.
Hann gæti kannski, sem sárabót, lagt fram eitt og eitt þingmál er snýr að hugðarefnum kjördæmisins sem hann á að vera fulltrúi fyrir á Alþingi. Er það ekki ástæðan fyrir kjördæmaskiptingunni? Að kjördæmin séu með einhverja á þingi sem tala fyrir hagsmunum þeirra? Maður hefði haldið.
Eftir stendur að hérna er gat sem þingið ætti að stoppa í. Það er sjálfsagt að koma til móts við kjördæmaþingmenn sem eru í raun frá kjördæmum sínum. Hinir, sem búa í göngufæri frá Alþingishúsinu, og hafa engin tengsl við kjördæmið sem þeir eru fulltrúar fyrir, ættu að láta svimandi há þingmannalaunin duga. Geta kannski troðið sér í einhverjar nefndir ef það er ekki nóg.
Allir landsbyggðarþingmenn fá styrk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 7. janúar 2025
Fjölmiðill fæðist!
Morgunblaðið greinir nú frá því að þingmaður og ráðherra skrásetji lögheimili sitt í eyðidal til að - og það er mín túlkun - sjúga til sín háar fjárhæðir í styrki.
Þetta er blaðamennska sem skiptir máli.
Eftir örfáa daga mun viðkomandi þingmaður og ráðherra breyta öllum skráningum og skattgreiðendur spara milljónir á ári. Vegna eins manns.
Að hugsa sér ef Morgunblaðið heldur áfram að bora svona í kerfið. Kannski fjölmiðillinn endi á því að núlla út ríkisstyrkina sem hann þiggur á örfáum vikum eða mánuðum!
Sem er svolítið kaldhæðnin í þessu. Fjölmiðlar þiggja ríkisstyrki. Með því að bora í kerfið hætta þeir á að slíkir styrkir til sín minnki og hækki jafnvel í tilviki fjölmiðla sem dásama kerfið.
Kannski er fjölmiðill samt að fæðast, það er að segja einn af þeim sem teljast til meginstefsins. Morgunblaðið hefur vissulega sýnt takta seinustu mánuði og jafnvel misseri með viðtalsþáttum sínum og svolitlum áhuga á vellíðan skattgreiðandans. Ekki sérstaklega góður í uppgjöri við veirutíma og ýmislegt annað, en enginn er fullkominn.
Kannski svokölluð Trump-áhrif séu byrjuð að birtast á Íslandi. Það er óformlegt heiti á uppgjöri við pólitískan rétttrúnað og hugrekki til að segja það sem má ekki segja. Svo sem að skattlagning geti ekki breytt veðrinu og að koltvísýringur sé lífsandinn sjálfur.
Sjáum hvað setur.
Með lögheimili í Lokinhamradal og aldrei búið þar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Mánudagur, 6. janúar 2025
Persónur og kerfi
Vegagerðin hyggst ekki svara nánar fyrirspurn um hvort eitthvað hafi verið hæft í orðum starfsmanns sem sagði bruðlað með fé í deild sem hann starfaði í hjá stofnuninni árið 2021. Vegagerðin metur málið sem svo að þarna sé um að ræða svör sem gætu verið persónugreinanleg.
Gott og vel. Ekki á að skola nöfnum upp á yfirborðið byggt á ásökun einni. Menn eru saklausir uns sekt er sönnuð.
En hvað átti sá sem varð vitni að mögulegri spillingu eða misnotkun á opinberu fé að gera annað en að segja eitthvað upphátt? Er hið opinbera með einhverja farvegi til að taka á fólki sem mokar fé í eigin vasa án heimildar? Ekki hef ég orðið var við slíkt.
Hver er þá valkosturinn? Að taka ekki á neinu? Það virðist líklegt. Ríkisstarfsmenn að verja ríkisstarfsmenn.
Nú eru auðvitað til fín kerfi eins og Opnir reikningar og upplýsingalög þar sem fyrirspurnir má senda en þeim ekki svarað. En þetta eru krókaleiðir.
Hér er komin prófraun. Ríkisstjórnin segist vilja stoppa í götin á baðkarinu svo vatnið flæði ekki hraðar úr því en við er búist í gegnum eitt niðurfall. Þetta er orðin hálfgerð spennusaga í raun. Hvað gerist núna? Verður tekið á þessu eina litla máli sem er orðið opinbert? Mun renna upp fyrir einhverjum að þetta eina litla mál er bara dæmi um kerfisbundna og víðtæka misnotkun á skattfé? Verður einhver dreginn til ábyrgðar eða halda allir sínum ávísanaheftum og titlum?
Ríkisstjórnin hafði kannski bara ætlað sér að fá nokkrar hugmyndir um sparnað en fékk í fangið heilt bræðralag opinberra starfsmanna sem soga til sín fé og launað frí á kostnað almennings og þarf núna að eiga við það.
Er við hæfi að poppa og fylgjast með sýningunni eða vitum við að útsendingu verður hætt fljótlega?
Vegagerðin svarar ekki ásökunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 5. janúar 2025
Óskrifuð regla brotin
Allir sem eru ekki fæddir í gær vita að innan hins opinbera viðgengst gengdarlaus sóun sem jaðrar stundum við spillingu. Menn skrifa á sig aksturs- og dagpeninga, kaupa út á kennitölur, fá aðra til að stimpla sig út (hef sjálfur gert slíkt fyrir samstarfsmann á mínum stutta tíma hjá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir meira en 20 árum síðan), og svo auðvitað þetta óbeina tap sem felst í að starfsmenn mæta ekki eða vinna ekki þegar þeir mæta. Setja bara jakkann á stólbakið og fara svo að sinna eigin erindum.
En það hefur verið óskrifuð regla að tala ekki upphátt um þetta. Svona er þetta bara! Nú fyrir utan að ég veit ekki til þess að menn geti komið ábendingum nafnlaust áfram og hvað þá þannig að menn viti að tekið er alvarlega á slíkum ábendingum. Er opinber starfsmaður virkilega að fara taka fyrir mál annars opinbers starfmanns af einhverri festu? Bræðralag opinberra starfsmanna er vafalaust vegið hærra en einhverjar milljónir hér og þar af fé annarra.
Ekki veit ég hvað varð til að bræðralagið var svikið. Kannski var einfaldlega gengið lengra en venjulega og þá fannst einhverjum nóg komið. En það mun koma mér mjög á óvart ef þessu verði fylgt eftir svo máli skiptir innan opinbers rekstur sem er ekki einu sinni fullvissa um hvað margir vinna við.
En gaman á meðan umræðan endist.
Sakar yfirmann hjá Vegagerðinni um fjárdrátt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 4. janúar 2025
Leiðir til að sökkva samfélagi, eða forðast það
Ég hlustaði nýlega á samtal Björns Jóns Bragasonar og Þórarins Hjartarsonar á hlaðvarpinu Ein pæling, og það var gott. Þarna eru tveir hugsandi menn að ræða djúpstæð vandamál við íslenskt samfélag sem þeim um leið þykir svo vænt um. Þeir fara dýpra en það sem fyllir huga okkar frá degi til dags, og ég leyfi mér að segja að ég sé sammála þeim báðum um allt sem þeir sögðu í þessu samtali. Sannarlega samtal sem ætti að taka víðar og lengra.
Þetta minnti mig um leið á að við fáum ekki endilega nauðsynlegt hráefni til að hugsa út frá með neyslu á hefðbundnum fjölmiðlum. Fjarri því. Ég tek lítið dæmi: Hugleiðingar Russel Brand, (yfirlýstir vinstrimaður svo því sé haldið til haga) um ástandið í Úkraínu. Á 10 mínútum sprautar hann inn í huga manns allskonar hliðum málsins sem við fáum varla að sjá.
Lærdómur minn? Að það sé nauðsynlegt að afla sér skoðana og upplýsinga frá mörgum uppsprettum til að geta myndað sér eigin, upplýstu, skoðun. Skoðanir sem eru eingöngu byggðar á þessum hefðbundnu fréttamiðlum er hægt að koma auga á mjög fljótt. Þar er heimurinn svart-hvítur og fellur vel að utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það getur vel verið að þú sért sammála því að skattar, utanríkisstefna Íslands og öll áhersla í skoðanamyndun eigi að falla fullkomlega að utanríkisstefnu Bandaríkjanna, en kannski ekki. Og hvernig veistu það? Þú stígur út fyrir rammann, ef þú nennir.
Það er auðvitað engin kvöð á þér að mynda þér upplýsta skoðun, eða eigin skoðun hvort sem hún er upplýst eða ekki. Þú kýst jú fulltrúa og treystir á blaðamenn, ekki satt?
Þú veist þá væntanlega að þú ert að tortíma loftslagi Jarðar með tilvist þinni og lífsháttum, og að eina vandamál heimsins eru nokkrir vondir kallar í Asíu, Miðausturlöndum og Asíu sem dansa ekki í takt, ekki satt?
En hafir þú áhuga á hlið sem er önnur og vissulega til þá vona ég að við getum átt samtal. Og nei, það þýðir ekki að þú gerist Pútín-sleikja eða kynþáttahatari og afneitar vísindum. Þvert á móti. Þú byrjar kannski að hata minna og elska meira. Væri það ekki eitthvað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 2. janúar 2025
Sýndarmennska en skemmtileg samt
Ríkisstjórnin biður nú almenningi að senda inn tillögur um hagræðingu, einföldun stjórnsýslu og sameiningu stofnana inn á samráðsgátt.
Þetta er mögulega bara sýndarmennska. Til að hagræða í raun er ekki nóg að sameina stofnanir og færa fólk á milli. Nei, það þarf hreinlega að taka verkefni af hinu opinbera og annaðhvort einkavæða framkvæmd þeirra eða hætta með öllu að sinna þeim. Afnema eyðublöð og leyfi fyrir hinu og þessu, hætta með öllu að sinna einhverju sem er sinnt í dag.
Snúa aftur til fyrri tíma sem var einu sinni lýst svo vel í viðtali:
Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin.
Skipta út tíu manns sem fara yfir umsóknir og gefa út leyfi og leysa af með einum eftirlitsmanni, og bíl. Þannig tókst Reykvíkingum að byggja upp Grafarvoginn á mettíma, og hann stendur enn.
Og telur einhver að hið opinbera muni í raun og veru segja upp hundruðum opinberra starfsmanna til að hagræða? Auðvitað ekki.
En auðvitað má ganga lengra. Hætta að gefa út aðalnámskrá fyrir skólastigin og leyfa skólastjórum og kennurum að velja námsefni fyrir börnin. Er þetta ekki sprenglært fagfólk í skólunum sem ríkið er búið að kenna allt sem kunna þarf og gefa út gráður í kjölfarið? Það ætti að vita betur en einhver möppudýr innan ráðuneytis.
Hið opinbera gæti líka dregið í auknum mæli úr beinum framlögum til skóla og spítala og eyrnamerkja í staðinn fé til hvers nemenda eða sjúklings og leyfa skólum, heilsugæslustöðvum og slíku að keppa, í samkeppnisumhverfi, um peningana. Eitt símtal til Svíþjóðar til að fá tilbúna framkvæmdaáætlun fyrir slíkt.
Hérna er íslensk reynsla af liðskiptiaðgerðum líka verðmæt. Slíkar aðgerðir kosta minna en þær framkvæmdar á ríkisspítölunum þótt skurðstofurnar séu svipaðar og bæklunarskurðlæknarnir jafnvel þeir sömu í báðum tilvikum.
Hið opinbera gæti svo hringt til Sviss og spurt hvernig einu ríkasta hagkerfi heims tekst að fjármagna sig á töluvert lægri sköttum en Norðurlöndin. Stjórnmál eru svo fyrirferðalítil í Sviss að ég skora á hvern sem er að finna frétt um þau. Mér tókst það ekki um daginn. Ekkert nema viðskiptafréttir og slíkt.
Með nægjanlegri hagræðingu gæti ríkisvaldið mögulega komist af án allra grænu skattanna sem eins og allir vita renna bara í gæluverkefni og vitleysu en ekki á neinn hátt í raunveruleg umhverfismál. Skattarnir eru grænir af því það er liturinn á fimmþúsundkallinum, ekki af því þeir þjóna náttúrunni.
Kannski er um sýndarmennsku að ræða en hún sýnir þá eitt mjög vel og það er að hið opinbera hefur ekki hugmynd um það hvar peningar fossa ofan í holræsakerfið. Hressandi hreinskilni það, sama hvað.
Biðja almenning um tillögur um hagræðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 2. janúar 2025
Er þá ekki hægt að lækka skatta?
Árið 2024 var það kaldasta á þessari öld á Íslandi að sögn veðurfræðinga og rímar eflaust ágætlega við upplifun fólks þegar það keyrir í gegnum snjóskafla og horfir á borgarísjaka út um stofugluggann hjá sér.
Okkur er að auki sagt að þetta sé þveröfugt við stöðuna á jörðinni allri þar sem leiddar hafa verið að því líkur að 2024 verði hlýjasta ár sögunnar.
Hlýjasta ár sögunnar, hvorki meira né minna! Hlýrra en þegar afkomendur norrænna manna héldu úti sauðfjárbúskap á Grænlandi. Hlýrra en þegar Rómverjar ræktuðu vínber í Englandi. Hlýjasta ár sögunnar!
En óháð því hvort hitastigið breytist upp eða niður þá færð þú að borga brúsann. Það ef nefnilega eitthvað sem þú - já þú! - getur gert til að hreinlega breyta veðrinu. Já, breyta veðrinu!
Þú getur látið taka af þér bílinn, kjötið, ferðalögin, umbúðirnar, plaströrin og innflutning frá Kína og stuðlar þannig að því að veðrið breytist. Já, að hugsa sér! Veðrið breytist! Er það ekki alveg magnað?
Þú getur látið meira og meira af launatekjum þínum renna í hina og þessa sjóði, í að byggja vindmyllur og moka ofan í skurði, og veðrið breytist. Já, þú last rétt! Veðrið breytist!
Það mun hlýna minna, eða kólna hraðar, eða öfugt, eða hvað það nú er sem þarf að breytast eða breytast hægar eða breytast ekki.
Er þetta ekki alveg ótrúlegt?
Ekki spá í því að Kínverjar byggja eins og eitt og jafnvel tvö kolaorkuver á viku, í hverri viku, og Indverjar eitthvað svipað. Það hefur engin áhrif á veðrið. En að þú hafir bíl til umráða er vandamálið og þú getur leyst það með því að láta taka af þér bílinn, eða eldsneytið. Þannig breytir þú veðrinu og plánetan þakkar fyrir sig.
Og auðvitað stjórnmálamennirnir.
Takk fyrir að stuðla að breyttu veðri. Eða heldur þú að það finnist verðugri markmið?
Árið 2024 kaldasta ár aldarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)