Bloggfærslur mánaðarins, september 2024

Blaðamennska: Ekkert að sjá hér

Ég horfi stundum á The Rubin Report á Rumble. Stjórnandinn, David Ruben, rankaði við sér úr meginstraumsrotinu fyrir ekki mörgum árum síðan og hefur bara orðið beittari fyrir vikið, og þættir hans eru bæði skemmtilegir og upplýsandi.

Hann sagði svolítið í seinasta þætti sem sló mig og ég held að sé hárrétt greining á fjölmiðlalandslaginu:

Það að fjölmiðlar séu að segja þér að þarna sé nákvæmlega ekkert að sjá gefur í sjálfu sér til kynna að það sé eitthvað að sjá.

**********

The fact that the media is telling you that there is absolutely nothing to see there, that in and on itself implies that there is something to see.

Þetta má orða öðruvísi:

Þegar fjölmiðlar velja að fjalla ekki um eitthvað, eða leggjast allir á eitt að segja að það sé ekkert að frétta, þá er eitthvað mikið að frétta sem þarf að þagga niður í.

Þessi orð minna mig á önnur orð frá sagnfræðingnum og hlaðvarpsstjórnandanum Tom Woods, sem sagði fyrir mörgum árum:

Allir sem meginstraumsstefið hatar ætla ég að minnsta kosti að láta njóta vafans.

**********

Anyone the establishment hates, I´m at least going to give him the benefit of the doubt to.

Auðvitað þarf ekki að velkjast í vafa um að sumir eigi vissulega skilið andúð og andmæli og jafnvel fordæmingu, en þegar kemur að meðferð sögunnar á sumum einstaklingum þá er stundum við hæfi að efast um sanngirni þeirra sem skrifa sögubækurnar og þeirra sem borguðu fyrir þau skrif.

Hvað um það. Skilaboð mín eru einfaldlega þau að efast og gagnrýna. Það getur tekið tíma, en er verðlaunandi. Þeir sem gerðu slíkt á veirutímum geta verið stoltir af sér. Þeir sem efast í dag þegar okkur er sagt hvaða stríð við eigum að hafa afstöðu til (og eigum að fjármagna) og hvaða stríð eru bara skylmingar nágranna í fjarlægum heimshornum eiga að halda sínu striki. Og þegar ráðherrar eru að hefja kosningavetur er óhætt að vantreysta öllu til að byrja með og endurskoða svo þá afstöðu ef eitthvað breytist.


Sýndarveruleikinn í kringum Biden

jb_trumpÞað er orðið frekar broslegt að lesa um hvað Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ætlar sér og vill. Staðreyndin er sú að maðurinn er gjörsamlega farinn andlega og á meðan það er auðvitað sorglegt, og einnig sú staðreynd að hann fær ekki hjúkrun og aðhlynningu við hæfi, þá er engin ástæða lengur til að afneita því.

Það var kannski lengi hægt að fela andlega hrörnun hans, en ekki lengur, og því ástæðulaust. 

Eða telur einhver líklegt að hann hafi vitað hvað var að gerast þegar hann setti á sig derhúfu merkta Donald Trump? Auðvitað ekki.

En af hverju virkja Repúblikanir þá ekki ákvæði í 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem felur í sér að forseta megi víkja úr embætti sé hann ekki í ástandi til að rækja embættisskyldur?

Jú, af því að þeir geta það ekki. Það er hlutverk varaforsetans, og hún hefur sennilega fengið þau skilaboð að hún eigi ekki að gera neitt slíkt. 

En kannski er lærdómur í því að fjölmiðlar fjalli ennþá um Biden eins og hann sé að ákveða eitthvað. Það sýnir kannski betur en margt annað hvað blaðamenn eru ginkeyptir fyrir því sem þeir kalla blaðamennsku en er miklu frekar gjallarhorn fyrir einhverja hagsmuni aðra en hagsmuni venjulegs fólks. Maður hefði haldið að þeir hafi lært eitthvað af veirutímum þegar hlutverk þeirra var að vinna launalaust fyrir lyfjafyrirtæki með aðgang að ýmsum yfirvöldum, en svo er ekki og þannig er það.


mbl.is Notar síðustu mánuðina til að efla Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köttur í kvöldmatinn

Um daginn tókust á Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, og Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, í kappræðum í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum. Skoðanir eru skiptar um hvort stóð sig betur, þótt flestir hallist að Harris, en sérstaklega því hvaða áhrif þessar kappræður muna hafa á viðhorf kjósenda. Óháð því, skotin sem flugu á milli voru stór og oft vafasöm í sannleiksgildi. Slík er umræðuhefðin, því miður.

Blaðamenn sátu vitaskuld sveittir við að leiðrétta rangfærslur. Þá aðallega þær úr munni Trump sem var oftar en ekki að rökræða við fundarstjóra frekar en andstæðing sinn. Ein svokölluð rangfærsla Trump var sú að í Ohio væru flóttamenn frá Haíti að éta gæludýr íbúanna. Rangt, ekki satt? Uppspuni, ekki satt? Slíkur var úrskurðurinn. Rangt, segir AP. Rangt, segir NBC. Rangt, segir Politifact. Rangt, segir CNN. Rangt, segir Forbes. Rangt, segir BBC. Listinn er endalaus.

Vandamálið er bara að það sem Trump sagði í þessu tilviki er ekki endilega rangt og hefur alls ekki verið afsannað. Íbúar Springfield, Ohio, svo dæmi sé tekið, hafa kvartað yfir þessu, bæði á samfélagsmiðlum og íbúafundum, og svo mörgu öðru líka eftir að 20 þúsund innflytjendum frá Haíti var troðið inn í bæjarfélag með 50-60 þúsund íbúum. Gæsirnar eru að hverfa úr almenningsgörðum, kettir og hundar eru eltir uppi og étnir eða hengdir upp fyrir trúarlegar athafnir eins og siðir margra innflytjendanna boða, og innflytjendurnir koma sér fyrir í görðum fólks og ógna eigendum þeirra. 

Vandamálið, innflytjendastraumur úr gjörólíkum menningarheimi, er raunverulegt þótt það sé þaggað niður, og það er þöggunin sem er svo einkennileg. Af hverju á að þagga niður í augljósu vandamáli? Hvernig er það hægt? Og hvers vegna taka stærstu fjölmiðlasamsteypur heims þátt í því? Vissulega var það Donald Trump sem benti á hluta vandamálsins - dýraránin - fyrir framan milljónir manna, og vitaskuld er allt rangt sem hann segir jafnvel þótt hann bendi upp í loftið, á bláan himinn, og segi að himininn sé blár. En er mikilvægara að „sannreyna“ orð Trump en að hlusta á venjulegt fólk lýsa yfir hörmungarástandi í samfélagi sínu?

Málefni innflytjenda, hælisleitenda og flóttamanna eru vitaskuld viðkvæm og skammt á milli fordóma og föðurlandsástar. En það er stundum bara til eitthvað sem heitir heimskuleg ákvörðun sem hefur hræðilegar afleiðingar. Hvort sem Trump bendir á það eða einhver annar á ekki að breyta neinu í slíkri greiningu. Sameinaður her fjölmiðla á ekki að gera það að forgangsverkefni sínu að þagga niður í þjáningu heils bæjarfélags til að koma höggi á andstæðing sinn. Að gera staðreyndir að „staðreyndum“ í þeim eina tilgangi er einfaldlega rangt.

En við lærum vonandi af þessu. Þegar sama fyrirsögn birtist á öllum helstu fjölmiðlum á sama tíma af sama tilefni með svipuðu orðalagi, og allar ósannar en til vara hálfsannleikur, þá eru teikn á lofti. Það er eitthvað sem við eigum ekki að vita. Eitthvað sem er mögulega satt og rétt, en kom úr röngum kjafti. Málfrelsið á betra skilið.


Veit Trump meira um Þýskaland en Þjóðverjar?

Umræða um orkumál getur verið flókin. Mjög flókin. Hver er orkugjafinn? Fór hann í að framleiða hita eða rafmagn? Er hann stöðugur eða þarf hann varaafl? Er hann færanlegur eða staðbundinn? 

Ekki minnkar flækjustigið þegar kemur að Þýskalandi sérstaklega. Þar hafa menn lokað orkuverum og opnað aftur, lokað námum og opnað aftur, og Þjóðverjar virðast svo bara hafa fallist á þá lausn að minnka orkuframleiðslu sína með tilheyrandi afleiðingum fyrir almenning og hagkerfi. Þetta sést ágætlega á myndinni hér að neðan (héðan). Þeir hafa að auki þurft að flytja inn franska kjarnorku í auknum mæli.

fig2-gross-power-production-germany-1990-2023

Trump hæddist að tilraunum Þjóðverja til að reyna losa sig við jarðefnaeldsneyti. Þjóðverjar svara með því að benda á minnkandi hlutfall jarðefnaeldsneytis nýtt í innlenda raforkuframleiðslu. En það er bara ein hlið málsins. Heildarframleiðsla orku er á niðurleið. Bara hluti hennar fer í að framleiða rafmagn og bara hluti rafmagnsins fer í að framleiða hita, sem er svo frekar lítið hlutfall af hitaframleiðslunni. 

Hvor hefur því rétt fyrir sér um orkumál Þýskalands - Bandaríkjamaðurinn Trump eða þýskur ráðherra?

Mér sýnist það vera Trump. 


mbl.is Þýsk yfirvöld svara Trump fullum hálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærstu málfrelsismótmæli sögunnar: Ekkert að frétta

Mögulega fóru stærstu mótmæli sögunnar gegn ritskoðun og fyrir málfrelsi fram í Brasilíu um helgina. Sumir sjónarvottar tala um hundruð þúsunda mótmælenda sem heimta málfrelsi og frelsi. En það er ekkert að frétta. Ekki á BBC, ekki hjá Mogganum, ekki hjá RÚV.

brÞeir miðlar sem þó telja sig ekki komast hjá því að fjalla um málið tala um að fjöldi mótmælenda sé nokkur þúsund eða nokkrir tugir þúsunda

Og síðan er því auðvitað bætt við að þetta séu bara einhverjir hægrimenn sem fylli göturnar og heimti málfrelsi.

Er þá fréttaflutningi vestrænna fjölmiðla lokið og um leið vel lýst í þessu máli og fleirum.

En hvernig stendur á þessari afskræmingu fjölmiðla á veruleikanum? Jú, því að forseti Brasilíu, Lula, er talinn þóknanlegur vestrænum hagsmunum, en andstæðingur hans, Bolsonaro, ekki. Auðvitað er ritskoðun Lula eldsneyti á bál Bolsonaro en við megum helst ekki vita af því. Við megum ekki vita af fjöldahreyfingu venjulegs fólks sem er að mótmæla harðræði og skerðingum yfirvalda sinna. Okkur gæti jú dottið í hug að gera eitthvað svipað!

Er blekkingarleikur fjölmiðlanna ekki að fullu afhjúpaður? Endanlega og algjörlega og enn einu sinni? Ég tel það, og það fyrir löngu, og veirutímar mér þar efst í huga. 

En hvað er þá til ráða þegar við viljum afla okkur upplýsinga um átök Rússa og Úkraínu? Átök Ísraelshers og Hamas-samtakanna? Afdollaravæðingu heimsins? Orkumál? Geldingar á börnum á Vesturlöndum? Viðskiptatengsl Miðausturlanda? Bandarísku forsetakosningarnar? Orkumál? Veðrið!

Við þessu er ekkert eitt svar nema mögulega að efast og skoða vinnu smærri og sjálfstæðari miðla í auknum mæli, jafnvel þeirra sem reiða sig á samfélagsmiðla til að koma efni sínu áleiðis.

En að treysta sjónvarpsfréttatímanum er ekki góð hugmynd. Alls, alls ekki.


Þúsundir eða hundruð þúsunda

Það er eitthvað á seyði í Brasilíu. Yfirvöld þar á bæ eru núna að reyna koma á banni á miðlinum X (áður Twitter) enda málfrelsið orðið þeim óþægilegt og menn eins og Elon Musk þyrnir í augum þeirra. 

Þessu hafa margir Brasilíumenn brugðist ókvæða við og streymt út á göturnar til að mótmæla. En hversu margir? Samkvæmt AP er um að ræða nokkur þúsund einstaklinga sem hlýða á ræður fráfarandi forseta, Bolsonaro, en samkvæmt öðrum heimildum er miklu nær að tala um hundruð þúsunda. Flestir miðlar segja svo ekki neitt. Ef marka má BBC er það helst að frétta í Brasilíu að bannið á X sé að fara í gegnum stjórnkerfið og viðbrögð við því frekar hófstillt. 

Þetta minnir svolítið á mótmæli evrópskra bænda fyrir ekki löngu. Flestir fjölmiðlar fjölluðu lítið um þau en gerðu til vara lítið úr þeim. Örfáir bændur, ekkert að sjá hér. En upptökur frá mótmælunum voru margar og sögðu aðra sögu. Það blasir við að fjölmiðlar voru að forðast að segja frá stórum viðburðum - forðast að segja fréttir til að raska ekki frásögn yfirvalda og hrista í stoðum blekkinga.

Hinn venjulegi blaðamaður fær auðvitað ekki borgað aukalega fyrir að þagga niður í fréttnæmum viðburðum. Hann er ennþá á lélegum launum og vinnur langa vinnudaga. Ritstjórinn hans er jafnvel í sömu sporum. Báðir treysta á línuna sem er dregin af erlendum, alþjóðlegum fréttastofum sem vinna saman og með moldríkum eigendum sínum og ákveða hvað þolir dagsljósið og hvað ekki. Þeir sem víkja frá þeirri línu eru samsæriskenningasmiðir, óróaseggir og flytjendur falsfrétta. 

Þetta sáum við svo skýrt á veirutímum að frekari dæmi er óþarfi að nefna, en dæmin eru mörg og þeim fer fjölgandi: Gangur mála á sléttum Úkraínu og Rússlands, mótmæli almennings gegn umhverfissköttunum og innflytjendaflóðinu, bændamótmælin og núna mótmælin í Brasilíu. 

Sem er bara eins og það er. Ekki er hægt að ætlast til meira af fjölmiðlum sem taka sig svo hátíðlega að þeir hafa kastað fyrir róða öllum sjálfstæðum vinnubrögðum og fylgja einfaldlega línunni að utan.

Á meðan getum við lesið á einum stað að mótmæli séu lítil og ómerkileg og á öðrum að þjóð sé risin á afturlappirnar. Enn einu sinni. 


Landsbyggðin niðurgreiðir höfuðborgina

Viðsnúningur varð í rekstri Reykjavíkurborgar á fyrsta helmingi ársins og var rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð í fyrsta sinn í fimm ár. Þetta kom mörgum á óvart enda hefur allt verið eins og rjúkandi brunarúst í fjármálum borgarinnar í mörg ár, og jafnvel áratugi, og enginn að búast við öðru. Meira að segja kjósendur í Reykjavík, sem enda á að hlaupa undir vaxtagreiðslurnar á meðan þjónustan skreppur saman, láta eins og ekkert sé.

En margir velta því fyrir sér hvernig borgin er allt í einu að skila rekstrarafgangi í svokölluðu A-hluta þegar það er ljóst að aðhaldið er ekkert, skattar hafi verið í lögbundnu hámarki í mörg ár og verða ekki hækkaðir mikið meira, starfsmannafjöldinn sá sami og óráðsían óbreytt. Það er ekki eins og áætlanir hafi staðist svo vitnað sé í árshlutaskýrslu borgarinnar fyrir tímabilið janúar-júní 2024:

Rekstrarniðurstaða A-hluta var 1,1 ma.kr. betri niðurstaða en á sama tímabili árið 2023. Áætlun gerði ráð fyrir 1,9 ma.kr. rekstrarafgangi.

Það þarf ekki að fletta lengi til að sjá hvað breyttist. Á tímabilinu janúar-júní 2023 fékk borgin um 5,8 milljarða úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á tímabilinu janúar-júní 2024 fékk borgin 7,4 milljarða, sem er aukning um 1,6 milljarða. Þarna er ástæðan. Þetta skýrir hvers vegna áætlun gat skeikað um 800 milljónir en rekstrarafgangi samt náð með 1,1 milljarða viðsnúningi á milli ára miðað við sama tímabil.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur mörgum skyldum að gegna og ein er sú að hjálpa sveitarfélögum í vandræðum:

Framlögum er úthlutað til að greiða úr sérstökum fjárhagserfiðleikum sveitarfélaga í samræmi við tillögur frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. 

Ætli þetta sé ekki ástæðan fyrir því að sjálf höfuðborgin er komin á spena landsbyggðarinnar og þiggur styrki eins og lítið sjávarpláss sem var að missa seinasta togarann?

Auðvitað má samgleðjast útsvarsgreiðendum í Reykjavík. Það hefur hægst aðeins á stækkun vaxtabyrðarinnar sem kjörnir fulltrúar borgarbúa hafa byggt ofan á herðar þeirra. En það blasir við að landsbyggðin stendur undir þeim örlitla létti. Hvort hún sætti sig við það að eilífu eða ekki á eftir að koma í ljós. Á meðan getur borgarstjórnin látið eins og ekkert sé. Sjáið bara - rekstrarafgangur!


mbl.is Fyrsta jákvæða niðurstaða borgarinnar í fimm ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnvöld vörðu milljörðum í að eyðileggja samfélagið

Formaður Geðhjálpar bendir í nýlegu viðtali á að stjórn­völd hafi varið 300 millj­ón­um til málaflokks geðheilsu þegar liðið var á far­ald­ur­inn, en að það hafi verið of lítið. Set­ur hann aðgerðir þess­ar í sam­hengi við að ráðgjöf­um voru greidd­ir 3 millj­arðar króna vegna sölu­ferl­is Íslands­banka.

En hvað á að verja miklu í að verja geðheilsu þegar yfirvöld eru að taka af fólki félagslífið, setja krakka í stofufangelsi og hræða alla eins mikið og hægt er, stanslaust og oft á dag?

Er einhver upphæð nógu stór til að lækna fólk af því að samfélagið snýst um að forðast dauðann frekar en lifa lífinu?

Auðvitað ekki.

Geðhjálp eru fín samtök en voru með veik hné eins og flest samtök þegar yfirvöld voru að leggja samfélagið í rúst og gjaldmiðilinn í leiðinni, eins og síðar koma í ljós (en blasti við frá upphafi).

Margir hafa kallað á að veirutímar verði gerðir upp með rannsóknarnefndum og -skýrslum, þar sem saga ákvarðana er rakin og kortlögð. Slík rannsókn mun auðvitað ekki fara fram - stjórnmálamenn, sem margir eru þeir sömu í dag og á veirutímum, þola ekki slíka viðrun á óhreinum undirfötum.

En það er fínt að einhver viðtöl séu tekin og að molarnir séu lagðir á borðið. Kannski er einhver sagnfræðingurinn að vinna við kertaljós fram á kvöld að setja saman einhverja sviðsmynd. Ef svo er mun ég kaup bók hans. 

Yfirvöld munu áfram vona að allt gleymist með tíð og tíma, líka þeir sem drápust vegna aðgerða eða sprautu, eða vegna blöndu af þessum tveimur eitrunum.


mbl.is Stjórnvöld brugðust börnunum með aðgerðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki rangt

Á það hefur verið bent að til að geta staðið í lappirnar í stjórnmálum sé líklega til bóta að hafa að baki sér einhverja lífsreynslu. Það er ekki rangt.

Að það þurfi líka endurnýjan - unglegan ferskleika - er heldur ekki rangt.

Að það sé hægt að orða hlutina óvarlega er svo auðvitað augljóst og jafnvel hægt að gera það aukaatriði að aðalatriði. Við erum jú tilfinningaverur.

Það má færa rök fyrir því að reynsluleysi hafi þjáð íslenska ráðherra. Lokun sendiráða á viðkvæmum tímum, ófyrirsjáanlegar lokanir á heilu atvinnugreinarnar, allskyns innistæðulausar viljayfirlýsingar, veik hné þegar embættismannakerfið hrópar og algjör uppgjöf í kjarasamningum eru nokkur dæmi. En aldur er kannski ekki þemað hérna. Reynsluleysi almennt, óháð aldri, mögulega frekar. Reynslu í að berjast og sigrast á áskorunum, taka áhættu, eiga við fólk. Ekki öll störf veita slíka reynslu. 

Einu sinni var ég staddur á fyrirlestri sem sýndi þróun ríkisútgjalda sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Kakan var að stækka en ríkið hélt áfram að stækka í takt - láta ríkisútgjöld einfaldlega belgjast út með auknum efnahagslegum umsvifum í hagkerfinu. Með einni undantekningu: Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar. Hann var á lokametrunum í stjórnmálum og þorði að taka umdeildar og oft óvinsælar ákvarðanir. Nafni minn Haarde tók við stólnum og blaðran fór að þenjast út á ný.

Ég hugsa oft um þessa frásögn þegar ég sé ráðherra á öllum aldri lofa miklu fyrir fé annarra til að fjármagna eigin kosningabaráttu. Kannski hallar hér á yngri ráðherra umfram eldri en það ætla ég ekki að fullyrða. Kannski reynsla almennt - úr atvinnulífinu, úr markaðshagkerfinu - skipti hér meira máli og sé nokkuð sem þarf að auka áherslu á í vali á fólki í ábyrgðarstöður.

Og það má kannski ræða án þess að láta tilfinningarnar æða á ritvöllinn.


mbl.is Friðjón hjólar í Bolla í 17
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáatriðin

Við fáum mikið af fréttum um ástandið í Úkraínu og Rússlandi. Sú mynd er gjarnan svarthvít, en varla við öðru að búast. Hver einasta brú sem annar aðilinn sprengir er nefnd í fréttum, á meðan heilu héröðin sem hinn aðilinn gleypir eru varla nefnd. 

Til að taka sér hlé frá fyrirsagnafréttunum er því stundum gott að lesa lengri og ítarlegri grieningar, og það gerði ég í dag. Hjá Institute for the Study of War birtast reglulega ítarlegar greiningar af þeim átökum sem við á Vesturlöndum höfum mestan áhuga á: Rússland-Úkraína, Ísrasel-Hamas, Íran. Þessar skýrslur eru troðfullar af smáatriðum og verða seint kallaðar skemmtiefni en með þolinmæði er hægt að læra ýmislegt.

Í skýrslu gærdagsins um Rússland-Úkraínu er til dæmis hægt að finna margt athyglisvert. Það er auðvitað þetta hernaðarlega: Úkraínu hrint aftur í Kursk og Rússar æða áfram í Doneskt, en líka meira. Til dæmis vissi ég ekki að þeir sem neita að taka við rússnesku vegabréfi í Austur-Úkraínu eru settir í gæsluvarðhald þótt það komi ekki á óvart. Annað sem ég vissi ekki, en kemur ekki á óvart, er að grunnskólastarf á svæðum Austur-Úkraínu undir stjórn Rússa verður rækilega nýtt til að metta huga barnanna af áróðri stjórnenda sinna.

Það getur kannski verið sárt fyrir marga að lesa um ósigra Úkraínu á vígvellinum, en um leið upplýsandi að vita hvað Rússar eru að gera á svæðum undir þeirra stjórn. Mögulega nokkuð verra en blaðamenn á Vesturlöndum segja okkur frá enda lesa þeir ekki langar skýrslur - bara fyrirsagnir hvers annars. Og það þótt verðlaunin séu enn fleiri frásagnir um vafasöm verk Rússa.

Ég er auðvitað bara venjulegur launþegi í dagvinnu og faðir með börn á framfæri og get ekki lesið langar skýrslur hvenær sem er. En þeir sem eru að framleiða fyrirsagnir geta kannski komist yfir meira lesefni, enda á launum við að kynna sér staðreyndir. 

Að það gerist tel ég hins vegar ólíklegt. Smáatriðin tapast. Áhersla verður á það sem fellur sem best að einhliða nálgun á flókin mál. Og hverjum er ekki sama þótt grunnskólabörn í opinberum skólum séu heilaþvegin af yfirvöldum sínum?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband