Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2024

Samsæriskenningar sem eru engar kenningar

Í lítilli frétt á DV er fjallað um seinasta þátt hlaðvarps þar sem samsæriskenningar eru teknar fyrir. Í þessum þætti er fjallað um rákirnar sem streyma aftan úr flugvélum. Hvað í þeim? Hvaða áhrif hafa þær? Er verið að ráðskast með lofthjúpinn?

Nú eru rákir úr venjulegum flugvélum ekki annað en útblástur sem blandast við loftið. Í þeim útblæstri eru agnir sem mælast í loftgæðamælum, oft vel yfir allskyns mörkum nálægt flugvöllum. Þetta er ekkert nýtt, er auðvitað ákveðið vandamál fyrir nágranna flugvalla en í raun bara hlut af því að búa í þróuðu samfélagi þar sem ákveðin mengun er einfaldlega merki um lífsgæði (þar með ekki sagt að hana eigi ekki að reyna minnka án þess að drepa hagkerfið).

Þessar rákir úr flugvélum eru vissulega taldar valda gróðurhúsaáhrifum - hvað gerir það ekki? En þessar venjulegu rákir aftan við venjulegar flugvélar eru bara það - útblástur á miklum hraða. 

En þar með er ekki sagt að slíkar rákir hafi ekki vakið áhuga milljarðamæringa sem vilja ráðskast með allt og alla. Tilraunir til að breyta veðrinu með losun á ögnum í háloftin hafa verið gerðar og taldar hafa heppnast til að valda úrkomu. En suma dreymir um meira en það. Einn milljarðamæringurinn vill reyna að loka á sólarljósið til að kæla Jörðina og hefur veitt fjármagni í slíkar rannsóknir. Þessi gróðurhúsaáhrif sjáðu til! Þessi hlýnun Jarðar! Þarf ekki að stöðva hana? 

Og hver veit - kannski eru nú þegar í gangi ýmsar tilraunir til að hafa áhrif á lofthjúpinn með því að losa í hann allskyns agnir. Það er nú ekki alveg óþekkt að yfirvöld stundi leynilegar rannsóknir sem valda óafturkræfum skaða á samfélaginu - seinasti heimsfaraldur er gott dæmi um slíkt. Það væri raunar upplagt að framkvæma slíkar tilraunir því þær væru ekki aðgreinanlegar frá hinum venjulegu rákum og allar ásakanir um tilraunastarfsemi má afskrifa sem samsæriskenningar. 

En það er þetta með að afskrifa sem samsæriskenningar sem er ekki jafnauðvelt í dag og áður. Núna má alveg trúa hverju sem er upp á yfirvöld og skjólstæðinga þeirra í milljarðamæringaklúbbnum. Þau bjuggu til heimsfaraldur - hvað ætli sé næst á dagskrá? Skipulagðar hungursneyðir? Þvingaðar lyfjagjafir? Að gera vinnandi fólk að öreigum? Að uppræta vestræn, kristin samfélög? 

Vonandi leiðir tíminn það ekki í ljós af því við hættum að samþykkja að vera meðhöndluð eins og tilraunarottur. En það er ástæða til að óttast.


Þarf ekki að byrja ræða grundvallaratriði?

Umræðan um ríkisfjármálin er yfirborðskennd. Hún einkennist af því hvort hinn eða þessi útgjaldaliður eigi að stækka eða minnka. Hvort stofna eigi hina eða þessa stofnunina (aldrei um hvort hina eða þessa stofnun megi ekki leggja niður). Hvort einhver málaflokkur fái nægt fjármagn.

Aldrei er rætt um grundvallaratriðin, svo sem hvort ríkið eigi yfirleitt að stunda ákveðna starfsemi - hvort henni sé kannski betur borgið á hinum frjálsa markaði, gefið að einhver eftirspurn sé þá yfirleitt eftir henni.

Augljóst dæmi, sem nýlega var í umræðunni, er svokölluð jafnlaunavottun og allt hafurtaskið í kringum hana. Augljóslega þarf að afnema alla löggjöf í kringum hana og um leið allan opinberan rekstur í kringum hana. Málið leyst. Sé einhver eftirspurn eftir slíkri vottun þá mun markaðurinn leysa það eins og hann gerir í tilviki allskyns annarra vottana. 

Þarna sparast mögulega ekki nema nokkrir tugir milljóna af launafé skattgreiðenda, og einhverjar hundruðir milljóna af kostnaði fyrir fyrirtæki og þar með neytendur, en góð byrjun.

Síðan má auðvitað koma á raunverulegu viðskiptafrelsi. Það þýðir afnám tolla og allskyns annarra gjalda sem leggjast á inn- og útflutning. Opinberar stofnanir sjá þá í mesta lagi um að framkvæma eftirlit með handahófskenndum aðgerðum. Í dag er svo komið að vörur sem bera ekki toll eru strandaglópar hjá tollayfirvöldum svo mánuðum skiptir. Þetta þýðir að jafnvel ótollaður varningur þarf að bera einhvern annan kostnað vegna aðkomu yfirvalda. Getur ríkisvaldið ekki bara drullað sér úr veginum, alveg? Og skorið niður í útgjöldunum samhliða því?

Ég veit að Íslendingar eru almennt sáttir við að hið opinbera innheimti mikið af sköttum og noti svo til að styðja við allskyns hópa og niðurgreiða allskyns þjónustu. En þar með er ekki sagt að ríkið þurfi að sólunda mikið af þessu skattfé í óskilvirka starfsemi - í opinberan rekstur á allskyns stofnunum og stofum sem enda svo oftar en ekki á því að verða geymslustaður fyrir útbrennda flokksgæðinga eða vinkonuhópa ráðherra.

Á meðan ekki er rætt um grundvallaratriðin þá skiptir ekki máli hvað kjósendur kjósa. Þeir fá alltaf sömu niðurstöðu - flokka sem rífast um hvort ákveðið framlag úr ríkissjóði eigi að stækka eða minnka en ekki hvort þetta framlag eigi yfirleitt að vera til. 

Og þess vegna hafa Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn nokkurn veginn skipt um stóla þegar kemur að fylgi, og enginn sér muninn.


mbl.is Umræða um ríkisfjármálin verið á „villigötum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar múgurinn reiðist röngu fólki

Í dag birtist eftir mig grein á vefritinu Krossgötum. Hún fjallar um tvær ólíkar meðferðir blaðamanna á mótmælum almennings. Mín upplifun er sú að mótmæli almennings falli í tvo flokka í huga blaðamanna: Fullkomlega skiljanleg mótmæli gegn ofríki yfirvalda, og mótmæli sem einhvers konar öfgamenn standa að baki, gjarnan með hjálp rússneskra tölvuþrjóta.

Inn á milli er svo nákvæmlega ekkert. 

Réttmæt reiði almennings, og fordómafullir rasistar sem kunna ekki að lesa og byrja því að brjóta allt og bramla.

En mótmæli eiga sér alltaf einhverja orsök. Eru með einhvern aðdraganda. Byggjast á einhverju. Málstaðurinn er mögulega ekki endilega réttmætur í sjálfu sér - byggður á einhverjum sýndarveiruleika - en hann hefur kraumað einhvers staðar, jafnvel meðal stórs hluta almennings, og svo vantar bara eldspýtuna til að tendra bálið.

Það er hlutverk blaðamanna að veita okkur slíkt samhengi. Þess í stað eru þeir latir og stimpla þá sem öfgamenn sem mótmæla góða fólkinu (að þeirra mati).

Nema þeir hreinlega viti ekki betur. Api hver upp eftir öðrum. Ætli veirutímar séu ekki vísbending um að það séu algeng vinnubrögð. Ennþá og alltaf.


Spunastólar

Ég brosti nánast frá eyra til eyra þegar ég las eftirfarandi texta:

Nýir stól­ar fyr­ir þing­menn og ráðherra verða tekn­ir í notk­un í þingsal Alþing­is þegar þing­setn­ing fer fram í haust. ...

Nýju stól­arn­ir eru hannaðir af Erlu Sól­veigu Óskars­dótt­ur og nefn­ist hönn­un­in Spuni.

Áður en lengra er haldið er gott að skoða nákvæmlega hvað orðabókin segir um þetta nafn hönnunarinnar:

1
það að spinna band
Dæmi: fólkið fékkst við spuna á kvöldvökunni
 
2
frjáls sjálfsprottin tjáning í leiklist, tónlist eða dansi

Hér er á ferð eitthvað af eftirfarandi:

  • Ísköld kímnigáfa hönnuðar sem lítur á þingstörf sömu augum og hverja aðra sviðslist án handrits
  • Ísköld kímnigáfa hönnuðar sem lítur á lagaframleiðsluna sömu augum og langt band sem safnast upp á kefli
  • Ísköld kímnigáfa hönnuðar sem lítur á ræðuhöld þingsins sömu augum og samhengislaust tal einhvers upp á sviði, endalaus og sjálfsprottin tjáning frekar en eitthvað merkilegra

Nema nafnið sé bara dregið upp úr potti af handahófi. Það er líka möguleg skýring.

Hvað sem því líður er núna að opnast á stóra flóðgátt brandara um þingstörf og greyið þingmennnirnir þurfa einfaldlega að sætta sig við það.

Lagasetning: Að setjast í spunastól.

Þingstörf: Að koma sér í spuna.

Þingræður: Að stíga upp í spuna.

Atkvæðagreiðsla á þingi: Að velja já eða nei úr spuna.

Megi spuninn hefjast!


mbl.is Nýir stólar framleiddir fyrir sal Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsishetjan og gullverðlaunin

Í gær vann serbíski tennisleikarinn Novak Djokovic gullverðlaun á Ólympíuleikunum. Þetta þótti það fréttnæmt að um það var fjallað í aðalfréttatímum dagsins, frekar en bara í íþróttahluta fréttatímanna. Djokovic er 37 ára gamall í dag og búinn að vinna allt núna. Öll mót og flest oftar en einu sinni. Goðsög í heimi íþrótta. Sá besti í heimi - geitin. 

En líka meira en það.

Á veirutímum lenti Djokovic í margvíslegu mótlæti. Honum var bannað að keppa í íþrótt sinni. Hann var stoppaður á landamærum og snúið við.

Af hverju?

Jú, af því hann hafnaði ákveðinni lyfjagjöf. Hann lét ekki sprauta sig. 

Aðspurður hvort slík þvermóðska væri mikilvægari en að vinna marga titla svaraði hann: Já, líkaminn er mitt musteri. Enginn fær að troða sér þangað inn, jafnvel þótt umheimurinn telji þar með að hann eigi ekki að fá að ferðast um og slá tennisbolta.

Ekki vantaði skítkastið á hann, og uppnefnin auðvitað.

Sjálfur vonaði hann að sprautan yrði ekki gerð að skilyrði fyrir þátttöku í tennismótum, og um tíma leit ekki þannig út, en auðvitað tókst lyfjafyrirtækjunum að selja glundrið sem nothæfa forvörn og yfirvöld tæmdu sjóði sína til að kaupa það.

Núna látum við eins og allt sé gleymt og grafið. Besti tennisleikmaður sögunnar fékk ekki að keppa á mótum af því fólk í taugaveiklun hélt að einhver sprauta væri nothæf til að sigrast á veiru. Öll metin hans hefðu orðið enn stærri ef ekki væri fyrir móðursýkina sem greip flesta. 

Þetta hafa engir fréttamenn nefnt þegar þeir segja frá Ólympíuverðlaunum Djokovic.

Frægð mannsins er mögulega stærst á tennisvellinum. En frægt er þegar yfirvöld víða, með stuðningi almennings, settu þessum magnaða íþróttamanni stólinn fyrir dyrnar af því hann lét ekki sprauta sig.

Þetta sýnir kannski að við skömmumst okkar í dag, nú þegar við vitum að sprauturnar, grímurnar og lokanirnar voru lækning verri en sjúkdómurinn. Kannski er það þess vegna að enginn ræðir tímabilið þegar sá besti í heimi fékk ekki að keppa á íþróttamótum.

Ég vona að það sé ástæðan. Gleymska er það ekki.


Græna skóflan: Skammarverðlaun

Hvað er meiri vitleysa en að setja flatt grasþak ofan á gamla byggingu?

Svar:

Að veita slíkri hönnun verðlaun. Grænu skófluna nánar tiltekið. Hún er núna orðin að nýjustu skammarverðlaunum Íslands, í hópi með fálkaorðunni og verðlaunum Blaðamannafélagsins.

Grasþök geta verið ljómandi falleg en Íslendingar fyrir 1000 árum vissu að þau eigi þá að vera með halla svo vatnið geti lekið úr þeim og burðarþolið þurfi ekki að vera jafnmikið.

En svona er þetta oft. Nýjustu tískustraumar fleygja gamalli visku í ruslið.

Vonum að Grænu skóflunni verði ekki úthlutað aftur, en að ef svo fer að menn taki allar teikningar að baki verðlaununum í endurskoðun því þær hljóta að vera meingallaðar.


mbl.is Leikskóli ónothæfur eftir tvö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja eftirlitsvopnið þróað og prófað

EUVABECO er svolítið sérverkefni hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og kynnir sig með eftirfarandi orðum:

COVID-19 kreppan endurmótaði alþjóðlegar bólusetningaraðferðir og leiddi til skjótrar þróunar nýstárlegra aðferða. EUVABECO verkefnið, sem styrkt er af EU4Health áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, miðar að því að útbúa aðildarríki Evrópusambandsins með sannreyndum framkvæmdaáætlunum fyrir þessa starfshætti, sem rúmar fjölbreytt samhengi til að gera koma í gagnið þvert á landamæri.

**********

The COVID-19 crisis reshaped global vaccination strategies, leading to the swift development of innovative practices. The EUVABECO project, funded by the European Commission’s EU4Health program, aims to equip European Union Member States with validated implementation plans for these practices, accommodating diverse contexts to enable cross-border deployment.

Hljómar vonandi skelfilega í eyrum allra. En það versnar enn. Núna er þetta fyrirbæri að keyra prófanir á allskyns leiðum fyrir yfirvöld til að fylgjast með og rekja bólusetningarstöðu fólks. Þvert á landamæri, auðvitað. 

Þessar leiðir til að hnýsast í einkalíf fólks eru seldar með allskyns hætti:

  • Auka tiltrú á bólusetningar
  • Á að valdefla einstaklinga með því að gefa þeim stjórn á bólusetningarstöðu sinni
  • ... sem á að auðvelda deilingu á þeim upplýsingum
  • Að hjálpa til við upplýsta ákvarðanatöku
  • ... og samhæfa heilsugæslu þvert á landamæri

Hrærigrautur af mótsagnakenndum atriðum, í stuttu máli, og leið til að fylgjast með fólki hvar sem það er. Slíkt eftirlit er svo notað til að samhæfa heilsugæslu, þvert á landamæri - lítið hulin leið til að segja: Láttu sprauta þig með nýjasta glundrinu eða við skerum á aðgang þinn að heilsugæslu hvert sem þú ferð.

Kostnaður við þetta ævintýri er 8,44 milljón evrur eða einhvers staðar norðan við 1,2 milljarða íslenskra króna.

Ég er að leita í huga mínum að einhverri jákvæðri nálgun á þessu. Kannski að maður geti komist á sjúkrahús á Spáni og fengið viðeigandi meðhöndlun frekar en einhverja vitleysu af því það er hægt að sjá hverju er búið að sprauta í mig, eða hvað? Kannski það verði hægt að láta sauma fyrir stungusárið af því maður er með réttan QR-kóða. 

Nema auðvitað að það sé enga jákvæða nálgun að finna. Að öll vitleysan sem gekk yfir veirutíma sé núna orðin að formlegu kerfi sem er miklu erfiðara að sleppa frá. 

Mig grunar það, og leita að rökum gegn því.


Fjármál í vinstri höndum

Í Morgunblaðinu í dag varar þingmaður Miðflokksins við afleiðingum þess að kjósa vinstrimenn til valda á Alþingi og vill meina að fordæmið sem hræði finnist í fjármálastjórn vinstrimanna í Reykjavík. 

Bragg­inn og dönsku strá­in, gjafa­gjörn­ing­ar í bens­ín­stöðva­mál­inu, þreng­ing­ar gatna og linnu­laus­ar at­lög­ur að græn­um svæðum eru of­ar­lega á af­reka­skránni, sorp­hirðan og vetr­arþjón­ust­an, biðlist­arn­ir á leik­skól­ana, lóðaskort­ur­inn, útþensla miðlægr­ar stjórn­sýslu, hatrið á fjöl­skyldu­bíln­um, meðferðin á Sunda­braut­inni, 100 millj­arða froðan í reikn­ing­um Fé­lags­bú­staða, meðferðin á flæðis­bæt­andi aðgerðum á stofn­braut­um, árás­irn­ar á Reykja­vík­ur­flug­völl, sam­skipt­in við borg­ar­búa þar sem „sýnd­ar­sam­ráð“ virðist hafa verið tekið á enn hærra stig en hjá rík­is­stjórn­inni.

Allt þetta er hollt að hafa í huga þegar mat er lagt á hvers sé að vænta verði Reykja­vík­ur­mód­elið yf­ir­fært á lands­stjórn­ina.

Spor­in hræða nefni­lega og af verk­un­um skul­um við þekkja þá.

Undir þetta tek ég. Þessi orð minna á mín eigin í grein frá árinu 2007:

Íslenskar vinstristjórnir hafa í gegnum tíðina sýnt ákveðið munstur í stjórnarháttum sínum. Hangi þær yfirleitt saman þá ganga þær á lagið með skattahækkunum og óráðsíu í rekstri hins opinbera. Þær hafa sýnt ríka tilhneigingu til að þenja hið opinbera út með fjölgun verkefna og auknum fjárútlátum til þeirra sem fyrir eru. Eftir 16 ára hægri-miðjustjórn á Alþingi er hætt við að margir hafi gleymt raunveruleika íslenskrar vinstristjórnar. Reynslan úr Reykjavík sýnir að slíkt er óþarfi. Vinstrihneigð borgarstjórn er í fáum meginatriðum frábrugðin vinstrihneigðri landsstjórn. Eigi dæmið úr Reykjavík R-listans ekki að endurtaka sig á Alþingi Íslendinga er brýnt að atkvæði til vinstri leikvangs íslenskra stjórnmála verði sem fæst. Íslenskt samfélag á mikið undir því.

Ef við skilgreinum núverandi ríkisstjórn á Íslandi sem vinstristjórn (sem má alveg færa rök fyrir þrátt fyrir svolítið vein í nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokks) þá sé ég ekki betur en að orð mín frá 2007 hafi ræst nokkuð vel, því miður.

Það er algjör óþarfi að velta mikið fyrir sér hvað tæki við undir forystu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Handritið í ráðhúsi Reykjavíkur yrði sent í Stjórnarráðið og því fylgt eftir. 

Það sýna dæmin.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband