Bloggfærslur mánaðarins, desember 2024
Þriðjudagur, 31. desember 2024
Ónei, ekki meira af þessum þungu áhyggjum
Georgía er lítið land, klemmt á milli Rússlands í norðri og Aserbaídsjan, Armeníu og Tyrklands í suðri. Þetta er sögufrægt land og þar er að finna margar menningarsögulegar gersemar. Vegna legu sinnar sem eins konar hlið á milli norðurs og suðurs við austanvert Svartahafið er sennilega ómögulegt að vita hvað erlendar hersveitir hafa farið oft um landið, og vitanlega eru stjórnmál í ríkinu lituð af valdabrölti nágrannanna á svæðinu.
En þegar utanríkisráðherra Íslands er farinn að lýsa yfir þungum áhyggjum af niðurstöðum kosninga í Georgíu þá er erfitt að komast hjá því að brosa. Það er nákvæmlega ekkert við niðurstöður slíkra kosninga sem hefur nokkur áhrif á hagsmuni Íslendinga, ekki frekar en þegar yfirvöld í Aserbaídsjan ákváðu að senda hersveitir sínar inn í hérað byggt Armenum og stökkva þar yfir hundrað þúsund íbúum á flótta, að því er virðist án sömu þungu áhyggna íslenskra yfirvalda. Annað sem virðist ekki valda íslenskum yfirvöldum áhyggjum er afnám lýðræðis í Úkraínu, en forsetinn þar telur víst ekki heppilegt að endurnýja umboð sitt frá kjósendum á meðan milljarðarnir streyma inn í hirslur hans.
Það er eitt að alþjóðlegar stofnanir myndi sér skoðun á kosningafyrirkomulagi og leggi til leiðir til úrbóta. En að utanríkisráðherra Íslands sé með þungar - já þungar! - áhyggjur af einhverju einu en ekki öðru eftir því hvað fellur að utanríkisstefnu Bandaríkjanna er svolítið innantómt og óeinlægt.
Íslendingar ættu að líta sér nær með sínar þungu áhyggjur. Kannski áherslum íslenskrar utanríkisþjónustu sé betur varið í að efla tengslin við ríkin við Norður-Atlantshaf, svo sem Færeyjar, Grænland og Noreg. Setja svolítið púður í að læra af þessum nágrönnum okkar. Læra að standa í lappirnar gegn Evrópusambandinu eins og Færeyingar, og kannski að læra af þeim hvernig er hægt að bæta samgönguinnviði án þess að setja allar framkvæmdir á áratugalanga biðlista. Læra af Grænlendingum hvernig er hægt að breyta sorpi í orku. Læra af Norðmönnum hvernig má breyta auðlindum undir hafsbotni í peninga.
Áhyggjur og áherslur utanríkisráðherra ættu kannski frekar heima við það sem er í raun utan við Ísland en ekki í litlu og fjarlægu ríki sem er og mun alltaf verða klemmt á milli ríkja í valdabaráttu.
Jafnvel þótt bandarísk yfirvöld hafi aðrar áhyggjur og hafi skilgreint önnur forgangsatriði en nákvæmlega þau sem íslensk þjóð ætti í raun að hafa.
Bara hugmynd.
Lýsa þungum áhyggjum af ástandinu í Georgíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Mánudagur, 30. desember 2024
Seinfeld-prófið
Eins og komið hefur fram í óteljandi skipti á þessum vettvangi þá ólst ég upp við að horfa á Seinfeld-þættina (1989-1998) og hef raunar horft á þá allar götur síðan (og fagnaði ákaft þegar þeir urðu aðgengilegir á Netflix). Mér fannst og finnst þetta vera besta skemmtiefni sem sjónvarp hefur nokkurn tímann framleitt. Þar er ekki vottur af pólitík en allt troðfullt af viðfangsefnum sem margir líta á sem pólitísk. Þar er ekki boðuð nein sérstök hugmyndafræði heldur er gert grín að flestu mannlegu.
En það er vandamál. Mörgum finnst þættirnar ekki hafa elst vel. Þar sé ekki nógu mikil fjölbreytni. Þar séu óviðeigandi brandarar.
Og gott og vel. Tímarnir breytast og það sem þótti einu sinni í lagi þykir það kannski ekki í dag. Fólk hafi tilfinningar og þær verða sífellt næmari og er þá ekki sjálfsagt að að aðlaga sig að því?
Það má vel vera en um leið getur verið að slíkt hugarfar sé leiðin til glötunar. Lof mér að leggja fyrir ykkur kæru lesendur það sem ég vil kalla Seinfeld-prófið. Það felst í því að horfa á lítið atriði úr Seinfeld (hér að neðan) þar sem ég bið þig um að fylgjast með viðbrögðum þínum.
Ég er þá ekki að meina hvort þér finnst atriðið fyndið eða ófyndið heldur hvort þú fyllist hneykslun og blöskri við atriðinu. Teljir að það eigi alls ekki heima í nútímasamfélagi. Eigi jafnvel að banna!
Gjörið svo vel:
Þú þarft ekki að skrásetja viðbrögð þín sérstaklega í athugasemd. Ég bið þig bara um að skrásetja þau í þínu eigin höfði. Ef þetta var of mikið fyrir þig þá veistu að þú tilheyrir hópi viðkvæmra blóma sem geta sem betur fer fundið sér aðra afþreyingu en Seinfeld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 29. desember 2024
Þegar Múhammeð verður vinsælasta nafnið á Íslandi
Í áhugaverðum pistli spyr höfundur beittrar spurningar og bætir við umhugsunarverðri athugasemd:
Með núverandi innflytjendahlutfall á Íslandi stendur þjóðin frammi fyrir þeirri hættu að verða minnihluti í eigin landi innan fárra áratuga.
Hvers vegna er þetta ekki opinská og siðleg umræða? Hvers vegna er öllum umræðum um þetta tilvistarlega mál bæld?
Nýafstaðnar kosningar skutu þessu algjörlega undan og fjölmiðlar þegja þunnu hljóði.
Síðar bætir hann við:
Hugleiðið Bretland, þar sem nafnið Muhammad er nú vinsælasta drengjanafnið.
Ef fer sem horfir er ekki spurning um það hvort vinsælasta drengjanafnið á Íslandi verði nafn sem við köllum í dag erlent, heldur hvenær. Eins og höfundur rekur í grein sinni þá þarf fjölgun útlendinga bara að vera 2-3 prósentustigum meiri en fjölgun Íslendinga til að Íslendingar verði orðnir að minnihluta íbúa á Íslandi innan mannsaldurs.
Það þarf ekkert að eyða púðri í staðreyndirnar - þær eru eins og þær eru og segja okkur að verið er að skipta um þjóð á Íslandi. Það sem ber að eyða púðri í er að ræða hvort þetta sé viljandi verk eða óviljandi - gert af ásetningi eða óvart af einhvers konar manngæsku.
Víða í Evrópu eru innfæddir að vakna upp við vondan draum. Heilu hverfin orðin að framandi samfélögum með eigin löggjöf og eigin dómstóla. Í Danmörku, þar sem ég bý, er byrjað að spyrna hressilega við fótum (jafnaðarmanna). Nýlegar kosningar víða benda til þess að almenningur sé búinn að fá nóg af útþynningu eigin menningar og tungumáls. Stjórnmálamenn hafa ekki hlustað og fjölmiðlar eru ennþá frekar rænulausir. En raunverulegar breytingar byrja aldrei hjá yfirvöldum. Þær byrja í huga okkar borgaranna.
Hvað finnst þér um að verið sé að skipta um þjóð á Íslandi? Hlynntur eða andsnúinn? Þetta er fyrsta spurningin sem allir þurfa að spyrja sig að. Síðan má hefja umræðuna um kosti og galla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 29. desember 2024
Það besta er að fresta
Á árinu sem senn er liðið tilkynnti lýðræðissinninn, forsvarsmaður mannréttinda, skoðana- trúfrelsis og Evrópusinninn í forsetastól Úkraínu því yfir að engar kosningar yrðu haldnar um hans dvöl í embætti á meðan honum fyndist það ekki við hæfi.
Á sama ári lagði kanslari Þýskalands fram vantrauststillögu á sjálfan sig fyrir þýska þingið.
Þetta lýðræði getur verið allskonar. Sumir nýta það til að fá umboð, aðrir nota það eins og verkfæri til að ná fram eigin markmiðum eða verja eigin stól.
Stundum snýst það um að verja völd þeirra kjörnu gegn atkvæðum þeirra ókjörnu. Stundum er fólkinu leyft að ráða aðeins. En bara aðeins.
Hér verður því ekki haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé ólýðræðisleg stofnun. Raunar er hann hið gagnstæða. Hann hefur yfirleitt haldið fast í prófkjörin svo dæmi sé tekið, þar sem flokksmönnum gefst tækifæri til að hreinsa út alla með sterka hugmyndafræði (miðað við reynsluna seinustu ár), og þar með grafið undan vinsældum flokksins hægt og bítandi og á síðari tímum hratt og örugglega.
En lýðræðið snýst jú um að leyfa þeim óbreyttu að ráða, og það er gott og vel.
Ég furða mig samt á tali Sjálfstæðismanna um að fresta landsfundi. Ein af ástæðunum sem er nefnd er sú að landsfundur eigi að liggja nálægt kosningum því þá kemur nafn flokksins svo oft fram í fyrirsögnum og laðar að sér kjósendur. Ég hef aldrei keypt slík áhrif landsfunda. Eins og greining Metils gefur til kynna þá hafa fyrirsagnir frá degi til dags kannski minni áhrif en menn telja - úrslitin eru mögulega miklu frekar háð því hvað forystumenn flokkanna boða í raun og hvernig þeir hafa staðið sig mánuðina á undan.
Um leið blasir við að forystu Sjálfstæðisflokksins þarf annað hvort að endurnýja eða að hún þurfi að endurnýja umboð sitt. Það er ennþá nóg af hæfileikafólki innan flokksins sem vill mögulega gefa kost á sér og leyfa flokksmönnum að taka afstöðu. Persónulega sé ég ekki hvaða erindi núverandi ritari og núverandi varaformaður eiga í forystu flokksins - ritarinn er svo gott sem ósýnilegur í umræðunni og varaformaðurinn með það afrek helst á bakinu að hafa lokað sendiráði, að því er virðist án þess að ráðfæra sig við nokkurn mann.
Í ljómandi góðri grein Björns Jóns Bragasonar er rifjað upp fyrra þurrkartímabil flokksins:
Nú þegar stefnir í að sjálfstæðismenn verði utan stjórnar er fróðlegt að rifja upp að aðeins hefur það tvisvar áður hent að flokkurinn hafi hvort tveggja í senn verið utan ríkisstjórnar og meirihluta borgarstjórnar, en það var árin 19781982 og 20102013. Í kjölfar ófara flokksins 1978 voru skipaðar nokkrar nefndir og ráðist í umfangsmikla sjálfsskoðun. Eftir á að hyggja má telja að flokkurinn hafi hugmyndafræðilega gengið í endurnýjun lífdaga í kjölfarið og víst er að hann náði vopnum sínum. Sannast þar hið fornkveðna að hinn spaki minnkar ekki / þótt hann verði var við sína villu líkt og Sófókles lætur Hemon komast að orði í Antígónu. Hið sama þarf að gerast nú og gert var 1978: Sjálfstæðismenn verða að hverfa til upprunans, hyggja að grunnstefnu flokksins og hlýða á rödd hins almenna flokksmanns.
En fyrst þarf að biðja flokksmenn um afstöðu sína til forystunnar hefði ég haldið.
Skiptir mestu að koma málefnalega sterk af landsfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 26. desember 2024
vísindi og Vísindin - tvennt ólíkt
Enn og aftur sést orðið grímuskylda skjóta upp kollinum í samhengi við sóttvarnir. Sem sagt, ekki sem aðferð til að stöðva stóra munndropa heldur sem aðferð til að stöðva veirur sem hanga í loftinu.
Þvert á vísindin, en að fullu samræmi við Vísindin.
Þetta segja vísindin:
Samanborið við að vera ekki með grímu getur það að vera með grímu haft lítil eða engin áhrif á hversu margir fengu flensulíka sjúkdóma (9 rannsóknir; 3507 manns); og líklega hefur það engin áhrif á hversu margir hafa fengið staðfesta flensu með prófunum á rannsóknarstofu (6 rannsóknir; 3005 manns). Óæskileg áhrif voru sjaldan tilkynnt, en þar á meðal voru óþægindi.
**********
Compared with wearing no mask, wearing a mask may make little to no difference in how many people caught a flu-like illness (9 studies; 3507 people); and probably makes no difference in how many people have flu confirmed by a laboratory test (6 studies; 3005 people). Unwanted effects were rarely reported, but included discomfort.
Hvað segja Vísindin? Þessi sem græða stórfé á að selja okkur gagnslaus og jafnvel lífshættuleg lyf og þrífast á því að við óttumst sem mest? Þau segja eitthvað annað.
Grímuskylda á spítala er kannski ekki stórt atriði í sjálfu sér en er um leið einkenni á stóru vandamáli - því að heilbrigðisyfirvöld halda áfram að gefa út gagnslaus ráð sem eiga kannski fyrst og fremst að senda skilaboð frekar en gera eitthvað uppbyggilegt eða fyrirbyggjandi.
Og þá er freistandi að spyrja sig: Hvaða fleiri blekkingar lifa ennþá góðu lífi innan heilbrigðiskerfisins? Frá ráðleggingum um mataræði til fyrirbyggjandi aðgerða gegn lífsstílssjúkdómum? Þegar traustið er farið, hvað er þá eftir?
Held því til haga að ég hef tröllatrú á læknum þegar þeir þurfa að skera upp, laga eitthvað brotið og fjarlægja eitthvað rotið, rétt eins og ég treysti vélvirkjum á bílaverkstæði alveg ljómandi vel. En í lýðheilsu, fyrirbyggjandi aðgerðum og sóttvörnum er traustið farið.
Taka upp grímuskyldu á Landspítalanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 24. desember 2024
Gleðilega jólahátíð
Seinustu þrjá daga hef ég eytt alveg ógrynni af tíma við að teikna og lita myndir, föndra, horfa á teiknimyndir, lesa barnabækur, leika eltinga- og boltaleiki í stofu minni og eldhúsi og spila á hljóðfæri, svo eitthvað sé nefnt. Það er jólafrí með 7 ára barn á heimilinu og það er æðislegt. Vinnupósturinn er alveg þagnaður sem er sjaldgæft. Allir skápar fullir af mat og snarli og því lítið um búðarferðir enda tekur dóttir mín varla í mál að fara út - vinkona hennar var hérna hálfan gærdaginn og nóg að gera hérna inni og engin ástæða til að þola kulda og rigningu og hvað þá skipta úr kósýgallanum og yfir í eitthvað hagnýtara.
Þetta fyrir mér eru jólin. Í raun eini tími ársins þar sem vinnan hleðst ekki upp á meðan ég er í fríi. Sá tími sem meira að segja indverskir samstarfsmenn mínir virða sem frí þótt engin af þeirra mörgu trúarbrögðum hafi eitthvað sérstakt að segja um lok desember.
Auðvitað eru margir pakkar undir tré og skraut og annað slíkt en stærsta gjöfin er tíminn saman. Kósýgallinn. Náttbuxurnar..
Forsenda tímans er svo auðvitað að hafa efni á honum. Þá meina ég ekki gjafirnar (þær má alltaf aðlaga að hvaða þeim fjármunum sem menn vilja setja í slíkt og börnin gleðjast sama hvað) heldur því að vera í fríi og geta notið einhvers huggulegs, hvort sem það er í formi athafna eða matar og drykkjar. Að geta lýst aðeins upp skammdegið með hærri rafmagnsreikningi. Auðvitað eru alltaf heimili sem eiga erfitt um jólin og geta þá keppt við innflytjendur um aðstoðina sem í boði er, en yfir það heila hefur samfélag okkar efni á að halda góð jól þar sem við leyfum okkur aðeins meira en venjulega án þess að það valdi sérstökum áhyggjum.
Við getum það af því við búum í nokkurn veginn frjálsu markaðshagkerfi sem framleiðir raunveruleg verðmæti. Við getum leyft okkur að eyða tíma í að föndra og eyða fé í að skreyta og kaupa glaðninga, litla sem smáa.
Gleðilega jólahátíð til lesenda hér og megi hún nýtast vel til að velta fyrir sér því góða, því nauðsynlega, því ónauðsynlega, því sem hvetur okkur áfram og því sem dregur úr okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 24. desember 2024
Þegar fullorðið fólk talar við kjósendur eins og fullorðið fólk
Á ríkisfjölmiðlinum Samstöðinni (sem er rekinn í raun fyrir ríkisstyrki til Sósíalistaflokksins) er nýleg grein um Argentínu og forseta landsins, Milei. Það er hressandi að sjá íslenska pistlahöfunda reyna að fjalla um Argentínu því það er ekki einfalt. Þar er forseti sem lofaði því að hlutir myndu versna áður en þeir myndu batna. Hann duldi það í engu að hann myndi skera niður, taka til, reka og loka og stóð svo sannarlega við stóru orðin. Á einum mánuði var hann búinn að snúa við þrálátum hallarekstri ríkisins, hann helmingaði fjölda ráðuneyta og lét samninga við hið opinbera renna út án þess að endurnýja þá. Hann felldi úr gildi falska gjaldmiðlaskráningu og verðbólgan skaust upp í himinhæðir. Hann tók úr sambandi verðlagshöft, og svo ótal margt annað. Hlutir versnuðu svo sannarlega. En á einu ári er batinn núna hafinn.
Já, efnahagsbati Argentínu er byrjaður og blaðamenn hreinlega geta ekki afneitað því (þótt þeir reyni) á meðan enn séu auðvitað leiðir fyrir stjórnarandstæðinga til að spyrna gegn nauðsynlegum breytingum (mögulega sanngjörn umfjöllun hér).
Meira að segja þegar ástandið var sem verst héldust vinsældir Milei háar. Það er af því hann var gegnsær eins og plastfilma: Sagði nákvæmlega hvað hann væri að gera og hvers vegna og af hverju þessi væri þörf og hvað tæki við.
Það þurfti að klippa á kreditkortið og borga yfirdráttinn til að forðast hörmungar. Þetta skildu kjósendur.
Um leið er það nákvæmlega þetta sem pistlahöfundur Samstöðvarinnar skilur ekki. Hann er sósíalisti sem heldur að lækningin við timburmönnum sé meira áfengi - að það sé endalaust hægt að lifa á loforðum og lánsfé.
Við erum vissulega ekki vön því að stjórnmálamenn segi berum orðum frá því sem þeir ætla sér. Miklu frekar erum við vön stjórnarsáttmálum sem lofa öllu fyrir alla - að það sé hægt að uppfylla bæði loforð formanns Viðreisnar um að tekjuskattar hækki ekki og loforð formanns Flokks fólksins um að bótakerfið sé á leið í sterasprautu. En við biðjum heldur ekki um meira. Við refsum þeim sem tala við okkur eins og fullorðið fólk - um að núna þurfum við að taka eins og eitt ár í að hreinsa út, skera niður og sjúga loftið úr hinni opinberu blöðru og mögulega upplifa niðursveiflu á meðan, gegn uppsveiflu seinna.
Við tökum kannski mark á símtali frá bankanum um að yfirdrátturinn verði ekki framlengdur lengur en ef stjórnmálamenn tala af slíkri ábyrgð þá breytum við atkvæði okkar.
Ég vil hvetja fólk til að fylgjast með því sem er að eiga sér stað í Argentínu og vonandi einhverju svipuðu í Bandaríkjunum þegar Trump tekur formlega við (er tekinn við óformlega enda skútan skipstjóralaus í bili). Það gæti verið fín vörn gegn pistlum Samstöðunnar og álíka svæða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 23. desember 2024
Að festast í gíslingu ofstækisfólks
Einn besti pistlahöfundur Íslands, ef ekki sá allra besti, Björn Jón Bragason, birti í gær á DV enn eina negluna sem að þessu sinni fjallar um að festast í gíslingu ofstækisfólks. Pistillinn hefst á sögu um háseta og tengir yfir í þá stjórn sem hefur ríkt á Íslandi seinustu sjö árin og um ábyrgð þeirra sem leiddu Vinstri-græna til forystu með tilheyrandi hörmungum fyrir land og þjóð. Kjósendur hafi nú sópað þeim flokki út.
Vonandi skjátlast mér en mögulega er sagan að endurtaka sig. Ég hef á þessum vettvangi oft talað á jákvæðum nótum um Flokk fólksins og sérstaklega hið gamla slagorð flokksins - fólkið fyrst og svo allt hitt. En kannski þarf ég núna að kyngja öllu slíku hrósi og byrja að óttast. Óttast að í þeim flokki sé fólk sem er svo blint á grundvallaratriði hagfræði og mannlegra hvata að það muni teyma heila ríkisstjórn ofan í hyldýpi. Hver bæri þá ábyrgðina á tilheyrandi hörmungum? Jú, auðvitað hinir stjórnarflokkarnir.
Vonandi skjátlast mér og að það verði loforð formanns Viðreisnar um engar skattahækkanir á laun og annað slíkt sem sigri loforð formanns Flokks fólksins um svimandi aukningu á ríkisútgjöldum. Ekki verður staðið við bæði, svo mikið er víst.
Nema ríkisstjórn á Íslandi hafi enn og aftur fest sig í gíslingu ofstækisfólks. Það væri mjög leitt. Vonandi rætist sú spá ekki.
Mánudagur, 23. desember 2024
Fyrst að skemma, svo að plástra
Í Evrópusambandinu hefur um áraraðir verið gerð aðför að hagkerfinu og samkeppnishæfninni. Er það gert með ýmsum leiðum, svo sem:
- Að tefja fyrir framkvæmdum í orkuöflun, svo sem með því að bora ekki eftir olíu og gasi (og Norðmenn græða)
- Að byggja upp viðkvæmar aðfangakeðjur sem treysta á að allir séu alltaf vinir (og Norðmenn græða)
- Að setja í sífellu fyrirvara við fríverslunarsamninga svo þeir ýmist dagi uppi eða leiði hreinlega ekki til neinnar fríverslunar
- Að bæta í sífellu við skattheimtuna og fjármagna með henni aðgerðir til að breyta veðrinu eða vopnaskak
- Að galopna landamærin og breyta heilu borgarhlutunum í framandi miðstöðvar þar sem vestræn gildi eru talin vera guðlast
- Að flæma framleiðslu út úr álfunni með sköttum og reglum sem um leið koma í veg fyrir að fjárfestar sýni álfunni nokkurn áhuga
Bætum svo við þessari eilífu skömm sem við eigum að hafa vegna fjarlægrar fortíðar okkar sem nýlenduherra og þrælahaldara. Vestræn og kristin samfélög mega skammast sín á meðan þeir sem í dag stunda þrælahald (meðal annars á eigin konum) og fleygja samkynhneigðum fram af húsþökum eru velkomnir í hlýjan faðminn og veglegar bótagreiðslur.
Það er eins og það komi yfirvöldum á óvart að þegar göt eru boruð í skipsskrokkinn að þá fari hann að taka á sig vatn og fer svo að sökkva.
Og þá eru góð ráð dýr. Allt í einu þarf að veita ríkisstyrki til fyrirtækja sem voru gullgæsir fyrir ekki löngu síðan. Sértækar aðgerðir, svo sem ýmsar ívilnanir, eru sömuleiðis boðaðar.
Stjórnmálamenn elska auðvitað svona ringulreið því það setur þá í hringamiðjuna - fær þá til að líða eins og merkilegt fólk sem er að bjarga málunum. Auðvitað er það ekki svo. Þeir gætu gert gagn með því að hætta að bora göt á skipsskrokkinn en það gera þeir ekki - þeir eru einfaldlega að skemma og plástra á sama tíma.
Það er gegn svona sjálfseyðileggingu sem kjósendur víða um heim eru núna að bregðast við, frá Milei í Argentínu og Trump í Bandaríkjunum til PVV í Hollandi og AfD í Þýskalandi. Hvort það leiði til raunverulegra úrbóta á eftir að koma í ljós. En eitthvað er almenningur að reyna að gera við þessa handónýtu stjórnmálastétt sem hefur valsað um seinustu áratugi í sínum alheilaga pólitíska rétttrúnaði.
ESB mun hjálpa evrópsku bílarisunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 22. desember 2024
Öllu lofað, til hægri og vinstri
Ég hlustaði á fyrstu mínútur blaðamannafundar um daginn þar sem ný ríkisstjórn var kynnt til leiks og stjórnarsáttmálinn um leið og ég verð að viðurkenna að ég botna ekki upp né niður í því sem núna tekur við.
Vil nú samt skjóta því að að dómsmálaráðherrann verður frábær - gömul skólasystir mín úr MR sem er allt í senn fyndin, klár og vinnusöm og hefur lengi talað fyrir öflugri löggæslu (sem þýðir væntanlega að innfluttum glæpamönnum verði varpað af landi brott).
Hvað um það.
Mér lýst vel á að það eigi að taka á hallarekstrinum (meðal annars sem aðgerð gegn verðbólgu) en síður að það eigi fyrst og fremst að gera með því að hækka skatta. Um leið virðist skína í gegn að það á að bæta kaupmátt ýmissa hópa með meiri bótum frekar en lægri sköttum og auknum kaupmætti. Ekki er kastað skugga á loftslagsþvæluna, því miður, en gott að það eigi að taka á stöðnuninni í orkuframleiðslu og -dreifingu - ferli sem núverandi stjórn er vissulega byrjuð að hnika aðeins áfram.
Bland í poka, satt að segja.
Vonandi verður ein stór breyting frá því sem áður hefur verið í því að ráðherrar fái ekki að þeytast um bæinn og lofa milljónum og milljörðum hingað og þangað, meira að segja ekki formaður Flokks fólksins. Það virtist hafa verið hið þögula samkomulag í fráfarandi stjórn til að halda friðinn. Forsætisráðherra þarf að haga málum öðruvísi.
Stjórn sem talar eins og bæði hægristjórn og vinstristjórn, aftur. Töluðu kjósendur ekki skýrar en það?
Ekki auðvelt að fylla í spor Þórdísar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)