Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Með auði kemur aukið snobb

Íbúar Þorlákshafnar hafa það greinilega gott. Þeir vilja úthýsa atvinnustarfssemi úr bæ sínum því lyktin af henni er vond (gamla góða peningalyktin þykir ekki fín í dag).

Íbúa Þorlákshafnar skil ég ágætlega. Hvers vegna að búa í bæ sem lyktar af fisk þegar e.t.v. er möguleiki á því að búa í bæ sem lyktar ekki af fisk?

Málið er að þeir eru fæstir (Jarðarbúar) sem geta leyft sér að skipta á atvinnu og lyktarleysi. Fátækt fólk sættir sig við ýmislegt til að geta aflað sér tekna og fjármagnað brýnasta brauðstritið. Þeir ríku hafa möguleika á betur lyktandi lofti, grænni túnum og hreinni götum. Íbúar Þorlákshafnar þurfa greinilega ekki á störfum hausverkunar Lýsis hf. - nóg af lyktarlausi starfssemi er til staðar til að brúa bilið.

Nákvæmlega það sama gerðist í Evrópu eftir að Járntjaldið reis og álfan skiptist í ríkan, kapítalískan hluta og fátækan, kommúnískan hluta. Í ríka hlutanum voru (og eru) laufblöð græn, götur hreinar, útivistarsvæði mörg og náttúran víða óspillt. Í fátæka hlutanum drap súrt regn laufblöð, stöðuvötn fylltust af iðnaðarúrgang (ef þau voru ekki hreinlega þurrkuð upp) og sót lá yfir stórum svæðum. Fátækt austurhlutans gerði það hins vegar að verkum að engin orka eða áhugi var á að flæma skítuga atvinnustarfssemi frá sér (ef ríkisvaldið hefði yfirleitt leyft það) - brýnasta brauðstritið varð að hafa forgang.

Lexían? Auðsköpun kapítalismans gerir það að verkum að fólk krefst hreinlætis, lyktarlauss lofts og ómengað umhverfi.  


mbl.is Afhentu undirskriftir gegn hausaverkun í Þorlákshöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar þeir verstu flá þá bestu

Kennarar vilja umtalsverðar launahækkanir. Ekki óeðlileg ósk, en séð í ljósi umgjarðar launasamninga kennarastéttarinnar alveg gjörsamlega óraunhæf.

Kennarar eru bundnir af kjarasamningum stéttarfélags síns () við ríkið. Nú veit ég ekki hvort þetta gildir um alla kennara, eða bara alla kennara sem vinna hjá algjörlega ríkisreknum skólum, en almennt gildir þetta um kennara sem starfsstétt.

 Það að láta stéttarfélag sjá um launaviðræður sínar hefur kosti. Stærsti kosturinn er sá að þá þurfa meðlimir stéttarfélagsins ekki að standa í því sjálfir. Þeir bíða og vona og þiggja það sem fæst úr þeim viðræðum. Annar kostur er hópeflið - ef ekki næst ásættanleg niðurstaða þá geta allir farið í (lögvarið) verkfall og meinað öðrum (með lögregluvaldi) að ganga í þeirra störf. Lögvarin þvingun ef svo má segja. Þriðji "kosturinn" felst svo í því að allir í kennarastéttinni þekkja laun allra annarra í henni - enginn þarf að spá og spekúlera í því að einhver hafi það betra en maður sjálfur. Þar með er slökkt á öfundargeninu sem er mjög virkt í svo mörgum.

Ókostir þess að framselja launaviðræðuvald sitt til utanaðkomandi aðila eru hins vegar líka til staðar. Þeir ókostir koma best fram hjá þeim sem eru góðir í sínu starfi og eftirsóttir af sínum skjólstæðingum. Góður kennari getur ekki labbað inn á skrifstofu skólameistara og hótað uppsögn ef kjörin eru algjörlega úr takt við bæði framlegð og ánægju skjólstæðinganna (nemenda, samkennara, foreldra, skólameistara). Sá góði þarf að sætta sig við meðaltalið - hann þarf að sætta sig við að fá jafnhá laun og þeir verstu og meðalgóðu og gera það í nafni hópsins.

E.t.v. væri sniðugt að hugleiða upplausn samningaviðræðna ríkisins og sérstaks stéttarfélags kennara og byrja að greiða skólum fjármagn sem svarar til áætlaðs kostnaðar við menntun nemenda (miðað við einhverjar lágmarkskröfur), og leyfa skólameisturunum sjálfum að ákveða fyrirkomulag launaviðræðna. Þetta fyrirkomulag gæti kallast ávísanakerfi eða eitthvað annað, en væri tvímælalaust leið að því marki að borga þeim lélegu léleg laun og þeim góðu góð laun og þeim meðalgóðu næg laun til að halda þeim ánægðum. Þannig fyrirkomulag virkar ljómandi vel á hinum frjálsa markaði. Kannski það gæti líka virkað líka á hinum ófrjálsa markaði.

Best væri auðvitað að einkavæða skólakerfið, afnema skattheimtu sem nemur kostnaði við það, leyfa frjálsum félagasamtökum að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda við greiðslu skólagjalda, og á þann hátt aðskilja ríki frá menntun (rétt eins og ríkið ætti að aðskiljast frá trúmálum). Pólitískt raunsæi kemur samt í veg fyrir slíkar áætlunargerðir. Millivegurinn er þá að aðskilja ríkið frá rekstri skóla en halda áfram að mjólka skattgreiðendur fyrir menntun nemenda. Auðveldur millivegur satt að segja. Það sem vantar er pólitískt pennastrik. That's it!


mbl.is Kennarar telja að laun eigi að hækka um 24-46%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sólbrúni Gore tekur ekki við (röngum) spurningum úr sal

Al Gore er að mörgu leyti magnaður maður. Eftir að hann, í varaforsetatíð sinni í Bandaríkjunum, neitaði að skrifa undir Kyoto-sáttmálann og tapaði forsetakosningum þá hefur hann ekki gert margt annað en að hvetja sitjandi forseta og forsætisráðherra til að skrifa undir Kyoto-sáttmálann.

Hann vill að fólk tali um hættuna sem, að hans mati, stafar af notkun jarðefnaeldsneytis (sú tegund eldsneytis sem sér mannkyninu fyrir 90% af orku sinni, og er ekki með nokkrum hætti hægt að skipta út fyrir neitt annað í náinni framtíð nema skrúfa fyrir orkunotkun Jarðarbúa, þá sérstaklega þeirra fátækustu). Hann er hins vegar ekki mikið fyrir beina þátttöku í umræðum - tekur til dæmis ekki við spurningum úr sal nema eftir vel skipulagt síunarferli. Hvað þá þreyta sig í einhverjum kapp/rökræðum. Nei, Al Gore bjó á sínum tíma til Hollywood-mynd og glærusjóv og það hlýtur að vera nóg að ýta á play-takkann og ganga svo af sviði. 

Al Gore er boðberi skoðunar. Skoðana-skiptin eru honum hins vegar ekki að skapi. Sólbrúni Gore kom hingað á einkaþotunni sinni jarðefnaeldsneytisdrekkandi farþegaþotu (sýnilega beint af einhverri sólarströnd) og ætlar að halda fyrirlestur, ganga svo af sviði og fljúga á næsta áfangastað. Eftir sitja áhorfendur hans, með samviskubit yfir því að þurfa nota bíl til að komast heim á leið, og fara beint undir sæng að sofa því hver einasta vöðvahreyfing er á einhvern hátt CO2-losandi, og það er jú hræðilegt!


mbl.is Al Gore á Bessastöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vörubílstjórinn og húsvörðurinn - stigsmunur en ekki eðlismunur

"Kæri lesandi, ef þú mundir sætta þig við að húsvörður þinn meini þér inngöngu inn á eigið heimili þá máttu mín vegna sýna aðgerðum vörubílstjóranna samúð og skilning (þó án þess að ætlast til þess að aðrir séu jafnsáttir við valdbeitinguna). Annars ekki. Það væri mótsögn sem er erfitt að kjafta sig út úr."

Svona hljóma niðurlagsorð seinasta innleggs míns á Ósýnilegu höndina.


mbl.is Mikill hiti í bílstjórum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband