Miðvikudagur, 30. desember 2009
Hvað liggur á?
Þegar ríkisstjórnin tók við völdum, þá var hennar fyrsta verk að eyða öllu púðrinu í að reka Davíð Oddsson. Þetta átti að "auka traust" á hinum íslenska seðlabanka, og liðka fyrir lántökum og fleiru. Ekki rættist það.
Næsta verk var að eyða púðri í að kreista umsóknaraðild að ESB út úr Alþingi. Slík umsókn átti að "auka traust" á endurreisn hins íslenska hagkerfis, og liðka fyrir lántökum og fleiru. Ekki rættist það.
Í sumar var mikið kapp lagt á að fá Alþingi til að samþykkja einhvers konar Icesave-frumvarp. Fyrirvarar voru smíðaðir og frumvarp samþykkt. Þetta átti að mýkja reiða Breta og Hollendinga, og liðka fyrir lántökum og fleiru. Ekki rættist það.
Nú er sagt að Icesave-frumvarp verði að samþykkja, fyrirvaralaust, sem allra fyrst, því annars sé of miklu púðri í það eytt, og það hægi á endurreisn hagkerfisins. Hversu oft á að hrópa "úlfur, úlfur!" þar til við hættum að nenna að hlusta á forystumenn ríkisstjórnarinnar?
Núverandi ríkisstjórn er viljandi að hægja á endurreisn hagkerfisins með gjaldeyrishöftum og skattahækkunum. Að samþykkja með öllu allar kröfur Breta og Hollendinga, fyrirvaralaust, verður bara til þess að hægja enn frekar á efnahagsbata á Íslandi.
Icesave-frumvarpið niður í skúffu takk, og Alþingi í framlengt áramótafrí, sem fyrst. Þannig gerir ríkisstjórnin sem minnstan skaða.
Þingfundi frestað til 13:30 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.