Laugardagur, 5. desember 2009
Ríkisstjórnin gerir illt verra (grein)
Nú þegar Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn í rúmlega eitt og hálft ár, og Vinstri-grænir í tæpt ár, er orðið ljóst að allt sem áður var að á að gera verra. Öll hagfræði og almenn skynsemi er komið í ruslatunnuna, og í staðinn komin hjörð ráðherra sem talar í kross, segir ósatt og valtar ítrekað með framkvæmdavaldinu yfir Alþingi.
Hagfræðin hunsuð
Þeir sem einhvern tímann hafa lesið rétta hagfræði vita að hækkandi skattar virka eins og sandur á tannhjól hagkerfisins. Með hækkandi sköttum er mjólkurkýrin smátt og smátt tekin af lífi í stað þess að fá frelsi og fóður til að vaxa og dafna og mjólka betur í framtíðinni. Hækkandi skattar, ásamt hækkandi opinberum skuldum, gjaldeyrishöftum og pólitískri afskiptasemi af fyrirtækjum og framkvæmdum eru beinar aðfarir gegn hagvexti og almenningi á Íslandi. Þingmenn meirihlutans hafa hins vegar meiri áhuga á að taka úr vasa eins og setja í vasa annars en að leyfa veskjum allra að vaxa með vinnu og framleiðslu.
Almenn skynsemi hunsuð
Slæmt er að hunsa grundvallaratriði hagfræðinnar. Verra er að stinga almennri skynsemi ofan í skúffu. Af hverju er ennþá verið að ausa fé í tónlistarhús, söfn, sinfóníu, listamannalaun og önnur áhugamál menningarelítunnar? Elítu sem lifir á launum almennings sem nær ekki endum saman. Það er gaman að vera ríkur og hafa efni á allskyns afþreyingu, en Íslendingar í dag eru ekki ríkir og hafa hreinlega ekki efni á því að halda uppi heilli hjörð listamanna í einhverri dýpstu kreppu sögunnar.
Almenningi sagt ósatt
Til að herða tök sín á almenningi eru ráðherrar byrjaðir að segja ósatt upp í opið geðið á fjölmiðlamönnum sem ekkert gagnrýna. Fjármálaráðherra hefur t.d. sagt að þjóðnýting Icesave-skuldbindinganna sé forsenda láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á meðan forstjóri sama sjóðs segir hins gagnstæða hvor ætli hafi rétt fyrir sér? Umhverfisráðherra segist ekkert hafa á móti stórum framkvæmdum sem nú þegar eru hafnar en snýr sér svo við og kaffærir þeim í pappírsflóði frá hinu opinbera, þvert á vilja forsætisráðherra. Það er orðið engin leið að átta sig á því hvað er raunverulega sagt á bak við luktar dyr í Stjórnarráðinu.
Hvenær er nóg komið?
Fjölmiðlamenn á Íslandi hafa kokgleypt hverja vitleysuna á fætur annarri sem vellur út úr Stjórnarráðinu þessa mánuðina. Almenningur fylgist spenntur með á hverjum degi til að sjá hvar næsti skattaskellur lendir, krossleggur fingur og vonar að hann lendi á einhverjum öðrum. Almenningi er sagt að hann þurfi að eyða næstu árum í að greiða fyrir skuldbindingar einkafyrirtækis í útlöndum. Ráðherrar hlaupa um eins og hauslausar hænur í leit að nýjum leiðum til að koma sér á framfæri með fagurgala um réttlæti og jöfnuð, miðstýring samfélagins eykst og norræna skattbyrðin (án velferðarinnar) færist sífellt nær.
Ekkert af þessu hefur bætt ástand sem fyrir um ári síðan var þó orðið mjög slæmt. Ríkisstjórn Íslands er að gera illt verra, og fyrr en hún víkur mun Ísland ekki geta hafið endurreisn sína. Vonandi þarf ekki mikið fleiri mánuði af skemmdarverkastarfsemi í Stjórnarráðinu til að almenningur átti sig á því.
(Grein mín í Morgunblaðinu í dag)
Kröfufundur á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ástæðan fyrir því að ég vill fá þjóðaratkvæðagreiðslu. Við kusum þessa vitleysinga í stjórn og við getum bara kosið einhver fávitalög yfir okkur líka. Þá fyrst fer fólk a sjá hversu flókið kerfið er og hættir að væla yfir einhverju íbúalíðræði, þjóðræði og vinstriræði.
Bévítans bölvað rugl.
Fín grein.
Hallur (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 19:10
Hallur,
Það er stundum ólýðræðislegt, þetta lýðræði. Meirihlutinn ræður, þannig er það nú bara, sama hvað núverandi meirihluti sagði þegar hann var minnihluti.
Geir Ágústsson, 6.12.2009 kl. 22:32
Smá orðaskipti af öðrum vettvangi (bara til að hafa þau hér):
Skattalækkanir eru góðar. Hallarekstur ríkisins er slæmur. Ergo, ríkið á að draga sig saman í dag, og það ríflega. Að auki hefði ríkið átt að lækka skatta töluvert miklu meira og víðar í góðærinu, til að sitja ekki uppi með hið ofþanda opinbera kerfi í dag, nú þegar góðærisskatttekjurnar eru horfnar.
Keynes hafði ekki rétt fyrir sér.
Geir Ágústsson, 6.12.2009 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.