Þriðjudagur, 17. mars 2009
Nokkur almenn orð um afskiptasemi ríkisins
Breytingarnar fela í sér að við sérstakar aðstæður getur ÁTVR samið beint við birgja um afhendingu vöru, sem ætluð er til dreifingar á nærsvæði framleiðenda, á öðrum dreifingarstað en í vöruhúsi ÁTVR á Stuðlahálsi.
Ekki er öll vitleysan eins, en hér er a.m.k. verið að afnema eina slíka. Áfengisframleiðendur á Íslandi, hvort sem þeir finnast á Árskógarsendi eða Vestfjörðum, þurfa núna ekki lengur að senda alla framleiðslu sína alla leið til Reykjavíkur, með tilheyrandi kostnaði og pappírsvinnu og árás á endingartíma varningsins, heldur mega núna, ef ÁTVR nennir, keyra á næstu sölustað ÁTVR með varning sinn.
Einokunarsala ríkisins á áfengi er slæm, ofurskattar á áfengi eru slæmir, pappírsflóðið sem framleiðendur áfengis þurfa að sinna er slæmt og allskyns höft og íþyngjandi reglugerðir á framleiðslu, sölu og neyslu á áfengi er slæmt. En það er samt ekki stóra lexían sem má draga af hinum "breyttu reglum".
Hin stóra lexía, að mér finnst, er sú að bak við hið ískalda bros hins ofurverndandi ríkisvalds leynist alveg gríðarlega mikil sóun á fé, tíma og frumkvæði fólks og fyrirtækja þess. Ímyndið ykkur alla vörubílana sem eru nú ekki að fara slíta malbiki þjóðveganna með því að keyra með sömu bjórflöskuna fram og til baka yfir íslenskt hálendi. Ímyndið ykkur störfin sem flytjast nú úr vernduðu umhverfi ÁTVR í Stuðlahálsi og út á land, þar sem þau munu bæði kosta neytandann minna og hlotnast fólki á atvinnusvæði sem fyrir löngu ætti að hafa átt störfin frá upphafi, ef hagfræðin er einhver vegvísir. Ímynduð ykkur bensínsskattana sem ríkið verður af vegna hins ónauðsynlega flutnings á áfengi fram og til baka (já, það er jákvætt).
Ímyndið ykkur svo hinn stóra hafsjó reglugerða sem er enn við lýði og gæti, með afnámi, haft nákvæmlega sömu jákvæðu áhrif, sem gætu sparað jafnmikið fé, fyrirhöfn og þvingaðan atvinnuflutning frá landsbyggð til þéttbýlis. Er erfitt að ímynda sér að slíkar reglugerðir skipti hundruðum?
Gagnrýnisleysi á umfang, hlutverk, umsvif og svigrúm ríkisvaldsins er eitur í æðum alls verðmætaskapandi fólks, og vítamínsprauta í æðar allra auðsóandi bjúrókrata.
Það er lexían sem af þessu má draga. Finnst mér.
Ein spurning til þeirra sem til þekkja: Mér sýnist hinar breyttu reglur ekki leyfa t.d. bjórnum Kalda að sendast beint frá Árskógarströnd og til Vopnafjarðar, enda eru þessi sveitarfélög varla flokkuð sem "nærsvæði". Þýðir það að bjórinn Kaldi sem selst á Vopnafirði fær alltaf hringferð í kringum landið? Að ef Skeiðarárhlaup verður, þá fáist enginn Kaldi á Vopnafirði? Ég spyr.
Breyttar reglur leiða til sparnaðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:12 | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr. Fyrirsögnin hefði átt að vera: Breyttar reglur leiða til minni sóunar.
Einar Rúnarsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 22:38
Hjartanlega sammála
Geir Ágústsson, 17.3.2009 kl. 23:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.