'[Málþóf] er lýðræðinu mikilvægt' - ÖJ

Nú þegar kosningar eru í nánd og ný, órædd og hratt unnin lagafrumvörp streyma í gegnum Alþingi eins og sardínur í gegnum dósaverksmiðju virðist sem ýmsir núverandi ráðherrar minnihlutastjórnar á Alþingi megi engann tíma missa. Ef tveir dagar þurfa líða þar til lagafrumvarpi má ná að hraða í gegnum stimplavél þingmanna þá virðist allt fara í uppnám.

Á tímum sem þessum er gott að rifja upp fyrri orð ýmissa núsitjandi ráðherra, svona til að sjá hvort þeir kannist við þau, skjóti þeim frá sér undir formerkjum "nýrra" eða "annarra" tíma, eða kalli jafnvel hraðsuðuketil íslensks löggjafarvalds "faglega nauðsyn" eða eitthvað í þeim dúr.

Dæmi sem ég fann á 5 mín:

"Alþingi á ekki að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið"

- Katrín Jakobsdóttir, 27. maí 2007

"Í hverju málinu á fætur öðru í stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa þingmenn meirihlutans, með örfáum undantekningum, sýnt að þeir eru algjörar gólftuskur ráðherranna. Það staðfestir rækilega að Alþingi er hrein og bein afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið."

- Jóhanna Sigurðardóttir, 10. júní 2005

"Málþóf á að heyra sögunni til segir Morgunblaðið. Á Alþingi er almennt ekki stundað málþóf. Frá því eru þó undantekningar. Þegar fjölmiðlar og almenningur kveikja ekki á mikilvægi máls – eins og gerðist í þessu máli í flestum fjölmiðlum, þar á meðal Morgunblaðinu – þá setja þingmenn niður gaddana, hægja á umræðunni til þess að reyna að ná talsambandi við þjóðina. Þetta er gott og lýðræðinu mikilvægt. Við frábiðjum okkur allt tal um skrípaleik í því sambandi."

- Ögmundur Jónasson, 1. febrúar 2006

Umræðuglaðir þingmenn verða að því er virðist fljótt að framkvæmdaglöðum ráðherrum. Einn aumingjans framsóknarmaður fær ekki einu sinni tvo daga til að fá í hendurnar skýrslu sem honum finnst skipta máli til að geta gert upp skoðun sína.

Tímarnir breytast og klárlega mennirnir með. Hratt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Einn aumingjans framsóknarmaður fær ekki einu sinni tvo daga til að fá í hendurnar skýrslu sem honum finnst skipta máli til að geta gert upp skoðun sína.

En var ekki löngu vitað (eins og hefur nú komið í ljós) að ekkert í skýrslunni tengdist frumvarpinu neitt? Og hvað voru allir sjallarnir í nefndinni að hangsa ef það var bara "aumingjans framsóknarmaðurinn" sem var að bíða eftir skýrslunni?

Annars er ég löngu orðinn þreyttur á getu- og viljaleysi þingmanna til að kjósa eftir sannfæringu í stað flokkslína. Mér finnst líka mikilvægt að lögin séu sett í sátt við þjóðina, ekki bara reynt að bruna í gegn áður en fólk fattar hvað er í gangi.

Einar Jón, 4.3.2009 kl. 14:10

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Einar,

Ég minni (óþægilega?) á eina grein stjórnarskrár Íslands sem segir:

48. gr. Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.

Álit þitt á áliti þingmanns á eigin sannfæringu er hins vegar hér með komið til skila. 

Þú virðist hafa skautað létt framhjá orðum Ögmundar, sem segja að ef vilji hans og skoðanasystkina hans er annar en "þjóðarinnar", þá sé málþóf réttlætt (málþóf hefur vel á minnst ekki átt sér stað í tíð núverandi ríkisstjórnar). Um þau orð má deila, en sem sitjandi ráðherra þá hefur hann mjög hratt gleymt eigin orðum sem meðlimur í stjórnarandstöðu.

Geir Ágústsson, 5.3.2009 kl. 00:15

3 Smámynd: Einar Jón

Það er sennilega óþægilegra fyrir þingmenn en mig að þú minnist á stjórnaskrána. Það er staðreynd að margir þingmenn hafa fylgt flokknum frekar en stjórnarskránni & eigin sannfæringu - Dagný framsóknarkona fékk t.d. miklar ákúrur fyrir slíkt. Ég skammast mín ekkert fyrir að hafa lítið álit á slíkum þingmönnum, óháð flokkum.

Annars veit ég ekkert hvaða mál Ögmundur var að tala um svo að ég minntist ekki á það. Hann virðist tala um mál sem almenningur og fjölmiðlar "nenna ekki að pæla í" - ekki mál þar sem fólk er upplýst og sammála flytjendum þess.
Hér vissi fólk hvað markmiðið var með núverandi frumvarpi (og flestir voru sammála). Minnihlutinn gerði ekkert til að ná talsambandi við þjóðina meðan á "töfinni" stóð, svo orð Ögmundar eiga varla við hvort eð er. En þar sem ég hef ekki hugmynd um ekki samhengið finnst mér betra að tjá mig sem minnst um þetta.

Hvað með þig? - þú skautaðir líka fram hjá mínum spurningum...

Einar Jón, 5.3.2009 kl. 05:25

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Orð Ögmundar koma héðan.

Sp. 1: "En var ekki löngu vitað (eins og hefur nú komið í ljós) að ekkert í skýrslunni tengdist frumvarpinu neitt?"

Það var talið og álitið af mörgum fyrir útgáfu skýrslunnar að svo væri. En ekki öllum. Ég veit svo ekki hvað niðurstaðan varð þegar skýrslan loks birtist.

Sp. 2: "Og hvað voru allir sjallarnir í nefndinni að hangsa ef það var bara "aumingjans framsóknarmaðurinn" sem var að bíða eftir skýrslunni?"

Atkvæði sjallanna voru óþörf fyrir minnihlutastjórnina ef bara Framsóknarmaðurinn hefði hlýtt. Um það snérist allt heila málið, sjáðu til (Framsókn er, eins og þú sennilega veist, að "verja traustina" gegn hinum illu Sjöllum).

Geir Ágústsson, 5.3.2009 kl. 09:17

5 Smámynd: Einar Jón

Miðað við hversu litla umfjöllun skýrslan fékk (og enginn virðist vita nokkuð um hana) gerði ég ráð fyrir að hún kæmi þessu ekkert við. Smá gúgl sýnir að minnisblaði var dreift með skýrslunni, sem sagði að hún kæmi frumvarpinu ekkert við.
Þó virðist viðbót um viðvaranir frá peningastefnunefnd hafa komið inn vegna skýrslunnar, svo kannski var þessi töf ekki svo vitlaus eftir allt saman.

Svar við sp. 2 (ef ég skil það rétt) er semsagt að það sé hlutverk meirihlutans að valta yfir minnihlutann, sem hefur það hlutverk er að mótmæla og tefja. Manstu hvað ég sagði um að kjósa eftir sannfæringu í stað flokkslína?

Einar Jón, 5.3.2009 kl. 13:26

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Þingsköp Alþingis leyfa í raun ótakmarkaðan ræðutíma, að ég held í 2. umræðu. Hverjum er verið að gera greiða með því að setja þannig stíflu í lýðræðislega kjörinn meirihluta Alþingis (eða núverandi minnihlutastjórn með stuðning sem tryggir henni meirihluta atkvæða)?

Þú talar um að "meirihlutinn valti yfir minnihlutann". Það vill nú einfaldlega þannig til að í fulltrúalýðræðinu sé innbyggt að meirihlutinn ræður (sem er nú annað en gildir um einveldið, þar sem "minnihlutinn valtar yfir meirihlutann"). 

Þingmenn þurfa ekki að fylgja öðru en eigin sannfæringu. Það taldi greyins Framsóknarmaðurinn sinn vera að gera. Sá fékk nú aldeilis skömm í hattinn fyrir vikið!

Það má vera að þú sért persónulega mjög áhugasamur um hvað Sjálfstæðismenn voru að bralla í þessari nefnd, en það er ég ekki (og hef raunar ekki heyrt neinn ræða þau). Þykist samt vita að Seðlabanka-frumvarp lagt fram og keyrt í gegn á innan við mánuði sé ekki þeirra hugmynd um "vönduð og fagleg" vinnubrögð, enda hefð fyrir því að frumvörp sem fela í sér gríðarlega uppstokkun af þessu tagi séu mánuði og ár í vinnslu svo ekkert sé órætt.

Geir Ágústsson, 5.3.2009 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband