Fimmtudagur, 8. maí 2008
Hver er glæpurinn?
Þegar lögreglan "leggur hald á" varning sem gengur kaupum og sölum í óþvinguðum frjálsum viðskiptum spyr ég mig iðulega: Hver er glæpurinn? Ég veit að verslun og viðskipti með óskattlagðan smyglvarning er ólöglegt, en ég sé ekki að um neinn glæp sé að ræða, frekar en þegar ég kaupi notað rúm skattfrjálst sem ég sá auglýst í smáauglýsingunum.
Nú gæti einhverjum e.t.v. dottið í hug að segja að "glæpur" sé það sem er ólöglegt, og þar við situr. En sinn er siðurinn í hverju landi. Í Þýskalandi er löglegt að auglýsa tóbak, á Íslandi ekki. Á Írlandi er ólöglegt (nema gegn ströngum skilyrðum) að fara í fóstureyðingu, á Íslandi ekki (að ég held). Í Danmörku má auglýsa áfengi, á Íslandi varðar slíkt fésektum og öðrum refsingum. Í Malasíu mega konur ekki (lengur) ferðast til útlanda án fylgdar (væntanlega karlmanns), á Íslandi banna engin lög slík ferðalög. Það að eitthvað sé "ólöglegt" er því afskaplega slæmur mælikvarði á hvort eitthvað sé glæpur.
Einhverjum gæti þá e.t.v. dottið í hug að kalla eitthvað glæp sem "svíkur" skattkerfið um pening sem það fengi ef viðskiptin væru "lögleg". Enn og aftur er um slæman mælikvarða að ræða. Ég hef bæði keypt og selt notaðan varning, og unnið launalaust (bæði í skiptum fyrir greiða og hreinlega án nokkurrar umbunar af neinu tagi). Ég hef einnig þegið skattfrjáls laun fyrir viðvik og greitt fé fyrir viðvik án þess að greiða nokkurn skatt - viðvik sem stendur til boða að kaupa af skattskyldum fagmönnum. Vafalaust hafa margir "löghlýðnir" borgarar (sem fordæma hin frjálsu viðskipti við Rússana) stundað eitthvað álíka "ólöglegt" athæfi.
Spurning mín stendur því enn: Hver er glæpurinn hjá hinum rússnesku togarasjómönnum og hver er glæpur hinna íslensku viðskiptavina þeirra?
Svar mitt: Enginn glæpur er til staðar, heldur er um handahófskennda afskiptasemi ríkisvaldsins að ræða, í sama flokki og fóstureyðingabann Íra og ferðafrelsisskerðing malasískra kvenna.
Lögregla á Húsavík lagði hald á smygl úr rússnesku skipi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það stendur hvergi að um glæp sé að ræða, heldur tollalagabrot Er það ekki?
Erna (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 23:28
Góður punktur. Þá vantar bara að þeir verði kallaðir "tollalagabrjótarar" en ekki "smyglarar" eða annað ókræsilegt.
Geir Ágústsson, 9.5.2008 kl. 12:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.