Niðurstaða: Meginforsendurnar hafa ekkert breyst

Kristján L. Möller er sennilega duglegur maður, en skynsamur er hann ekki, og eitthvað virðist hann lesa lítið af greinum eftir menn með háskólagráður í skipulagsmálum. Virðingarleysi Kristjáns gagnvart skattgreiðendum er einnig töluvert, en það kemur sosem ekki á óvart.

Dæmi: Á Deiglunni birtist, þann 23. mars sl., grein á vefritinu Deiglunni eftir ágætan kunningja minn og mikinn heiðursmann, Samúel T. Pétursson (hann er einmitt með MS gráðu í verkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet með áherslu á borgarskipulag, borgarendurnýjun og samgöngur).

Þar segir meðal annars:

"Hugsunin um lestir í Reykjavík, eins og velflestum borgum, er ákaflega falleg. Og vera má að einhvern tímann verði aðstæður þannig að sjálfbært form þeirra, þ.e. með bæði öflugu þjónustustigi og öflugri markaðshlutdeild, verði að veruleika. Það má einnig vel vera að aðstæður í dag séu eilítið betri með þeim háa bensínkostnaði sem nú er orðinn að veruleika. En í grunninn hafa ákveðnar meginforsendurnar ekkert breyst."

Samúel rekur síðan í ítarlegu máli ástæður þess að lestarsamgöngur munu ekki þrífast í Reykjavík (eins og hún er byggð upp í dag).

Kristjón L. Möller: Lesa! 


mbl.is Samgönguráðuneytið tekur vel í að skoða léttlestakerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru hugmyndir sem ráðamenn grípa fegins hendi. Þetta gefur þeim tækifæri á að koma á vel launaðri nefnd fyrir vinina og endalausar skoðunarferðir erlendis á góðum dagpeningum.

sigkja (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 17:35

2 identicon

Jújú, það má alveg ímynda sér að forsendur hafi breyst með lest milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Ef innanlandsflugvöllurinn verður fluttur til Keflavíkur og lest tengd á milli, þá mun allt dæmið hugsanlega verða bæði að pólitískum möguleika og arðbært að auki. Með því að gefa sér þá forsendu að flugvöllurinn verði í Keflavík þá getur lest ein og sér orðið arðbær, enda munu flugfarþegar í útlandsflugi, innanlandsfarþegar og íbúar Suðurnesjar nýta sér hana. Atvinnumarkaður fyrir Suðurnesjamenn mun þá stækka töluvert sem er enn einn plúsinn.

Varðandi lestakerfi í Reykjavík, þá er spurningin ekki endilega af fjárhagslegum toga. Það er til dæmis ekki fjárhagslega arðbært að veita sér lúxus. Lestakerfi yrði lúxus sem myndi hafa mjög jákvæð áhrif á framtíðarmótun höfuðborgarsvæðisins. Ég efast ekki um að öllum hugnist lítt þá þróun sem hefur orðið hér í samgöngum, enda er borgin ekki vistvæn með allri þessari umferð og umferðarmannvirkjum og ástandið versnar með hverju árinu.

Kaupmannahafnarbúar halda áfram að reisa metrólestarkerfi þrátt fyrir tap á framkvæmdinni. Hvers vegna er það? Jú, þeir vilja búa í vistvænni borg því að þegar allt kemur til alls, þá lifum við lífinu til að njóta þess.

Árni Richard (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 20:38

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Árni,

Metrókerfið í Köben er reist fyrir hagnað af sölu lands á Amager. Það ævintýri er búið (í bili). Ég veit ekki um hliðstæða enn-ekki-uppurna gullnámu til að niðurgreiða reykvískt lestarkerfi, aðra en veski Reykvíkinga og utanbæjarfólks.

Lastu grein Samma? Hún fjallar ekki bara það sem hefur verið gert þar sem aðstæður eru "réttar", heldur líka það sem hefur verið gert þar sem aðstæður eru það ekki, og kolféll um sjálft sig.

"Vistvæn" umferð er sú sem gengur um á nýjustu og sparneytnustu bílvélunum. Þessu hafa Danir ekki komist að með sína 180% skatta á sölu nýrra bíla. 

Auðveldasta leiðin til að komast að því hvort 40, 50 eða 60 milljarðar (af "lúxus"-fé skattgreiðenda) eigi að renna í lestarkerfi fyrir Suðvesturland er að bjóða út verkið fyrir 40, 50 eða 60 milljarða (gegn því að framkvæmdaraðili fái að rukka fyrir notkunina) og sjá hvort einhver býður sig fram. 

Ef ætlunin er raunverulega sú að troða fleiri Reykvíkingum í færri ökutæki þá er í lófa lagt að selja reykvískt gatnakerfi til einkaaðila og leyfa þeim að rukka fyrir aðgengi að vegum og verðleggja eftir framboði og eftirspurn (vitaskuld gegn niðurfellingu bensínskatta).  Markmiðinu væri náð, en mundi það stilla taugar almenningssamgöngusinna? Það efast ég um.

Geir Ágústsson, 31.3.2008 kl. 20:50

4 identicon

Ég veit nú ekki betur en að það sé verið að leggja hringmetró í Köben. Það skiptir engu máli hvaðan peningarnir koma, en í tilviki Reykjavíkur má selja landið sem nú geymir flugvöllinn fyrir marga milljarða.

Bílar eru ekki vistvænir, amk ekki í samanburði við metró.

Þú gleymir að taka í reikninginn þau óbeinu áhrif sem gott samgöngukerfi hefur í för með sér. Einkaaðilar reikna ekki þau áhrif í sína fjárfestingaarðsemisútreikninga. Þú getur ekki afneitað óbeinum áhrifum sem ég er að tala um.

Ég sé ekki af hverju markmiðinu væri náð með því að selja gatnakerfið til einkaaðila. Sennilega vegna þess að þá myndi verða mun dýrara að reka bíl. 

Árni Richard (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 21:59

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Það yrði dýrara að reka bíl sem keyrir þéttkeyrðustu göturnar á háannatíma. Fólk yrði fljótt að flýja í hópferðarbíla til að dreifa kostnaði í slíku ástandi.

Af hverju hefur enginn einkaaðili, t.d. verslunareigendur í mibænum, talað fyrir að reisa einhvers konar lest af einhverju tagi (vitaskuld á eigin reikning)? Gæti verið að hin stórkostlegu uppdreymdu óbeinu framtíðaráhrif séu orðin ein?

Sjóvá-Almennar buðust á sínum tíma til að fjármagna einhver göng gegn því að mega hirða vegtollana. Það þykir mér vera til merkis um að eitthvað meira en orðin tóm (tal um eyðslu á fé annarra og hversu frábært það mundi vera fyrir alla) séu á ferð. 

Þetta tal allt minnir mig á ræðurnar sem Kanar fengu að heyra um ágætu mannaðrar grjótsöfnunar á tunglinu. Eitthvað hefur þeim orðum fækkað í seinni tíð.

Geir Ágústsson, 1.4.2008 kl. 16:33

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Annars má geta þess að ég hef ekkert á móti farartækjum sem keyra mig á áfangastað á meðan ég les dagblaðið eða loka augunum. Hins vegar er það kerfi óréttlátt sem þvingar alla til að reka slík farartæki og gera rekstur þeirra meira og minna óháða ánægju notenda þeirra með þau.

Geir Ágústsson, 2.4.2008 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband