Sunnudagur, 25. nóvember 2007
Hvað með Ísland og Danmörku í gamla daga?
Þessi frétt er vægast sagt holótt og vantar alla útdýpkun á því sem er raunverulega að gerast í Úsbekistan.
Sagt er að skólunum sé lokað svo börn geti "unnið launalaust" við að tína bómull. Í Danmörku var, fyrir tilkomu ríkidæmis, skólum lokað í viku eða tvær á hverju hausti til að börn gætu aðstoðað við kartöflutínslu. Haustfríið í Danmörku er ennþá kallað "kartöflufrí". Já, mikið rétt, skólabörnum var gefið frí í skólum til að vinna við landbúnað. Fríið er enn haldið í dag þótt kartöflutínslan sé horfin úr lífi langflestra Dana.
Á Íslandi er sumarfrí í skólum þrír samhangandi mánuðir sem er nokkuð óvenjulegt miðað við flest önnur lönd. Ástæða þessa fyrirkomulags skýrist einnig af landbúnaði. Börnin voru send á bændabýlin til að aðstoða við sauðfjárrækt og aðra landbúnaðarvinnu. Mjög sennilega "launalaust". Síðar kom iðnvæðing og ríkidæmi en skipulag sumarfrísins er enn meira og minna óbreytt.
Ekki er sagt neitt til um hvort starfsskilyrði hinna launalausu barna í Úsbekistan sé slæmt eða verra en það sem gilti áður um Ísland og Danmörku meðan þau lönd voru enn fátæk eins og Úsbekistan er í dag. Sögunni er stillt upp eins og hverri annarri "stórfyrirtæki eru vond"-sögu, sem er slæmt því þá er hætt við að athyglin á raunverulegri misnotkun og barnaþrælkun dofni og dreifist á víð og dreif. "Úlfur, úlfur" er sagan sem hérna birtist okkur. Því miður fyrir þá sem þurfa raunverulega á athygli alþjóðasamfélagsins að halda.
Börn tína bómull fyrir H&M | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Facebook
Athugasemdir
Lykilorðið í frásögn þinni er "Var".
Einu sinni var, er ekki sambærilegt við það sem er að gerast í dag. Sem betur fer erum við betur upplýst í dag en við "vorum"
Guðrún B. (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 20:38
Við, ólíkt Úsbekistan, erum orðin rík, og hluti af brauðstriti fátækra felst í því að börnin hjálpa til við það eftir efnum og aðstæðum.
Ekkert í fréttinni bendir til að aðstæður hinna vinnandi barna séu eitthvað ömurlegri eða verri en það sem unglingavinna Reykjavíkur (fáheyrt fyrirbæri í eyrum flestra Vestur-Evrópubúa) býður upp á. Það var minn punktur.
Geir Ágústsson, 25.11.2007 kl. 20:46
Ég bendi þér á að kíkja á þessa síðu http://www.ejfoundation.org/page141.html. Þar kemur fram nákvæmlega við hvaða aðstæður þessir krakkar vinna við. Þau eru látin tína þennan bómul annars eru þau rekin úr skóla og margt margt fleira, en auðvitað er mbl ekki að nefna neitt af þessu eins og vanalega.
Sem betur fer eru börn hætt að vinna á ökrum bæði hér á landi og í Danmörku þar sem við áttuðum okkur á því að þetta væri í raun barnaþrælkun. En í úzbekistan að þá skiptir það máli að fá pening og skítt með hverjir vinna vinnuna.
Oddný Jónsdóttir (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 22:17
Sammála Oddný.
Þó að við séum rík eins og þú orðar það, þá er ekki þar með sagt að við eigum að styðja við bakið á verslunum sem misnota sér fátækt annara landa til að græða peninga. Það getur ekki verið að við séum svo samansaumuð að okkur sé sama um hvernig vinnuafli er fyrirkomið.
Mér finnst þetta rangur póll í hæðina hjá þér Geir, en að sjálfsögðu hefur þú rétt á þinni skoðun eins og ég minni. En mín skoðun er sú að ég ætla ekki að styðja við bakið á verslunarkeðju sem hvetur til misnotkunar á börnum, alveg sama hversu bágborið ástand er í landi þeirra og umhverfi. Það bætir enginn neitt með því að auka á ósanngirnina í því máli.
Guðrún B. (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 22:20
Ég get ekki annað en verið sammála Geir í þessu efni. Vinnan lítur hræðilega út þegar búið er að þvæla henni í gegn um Londonskrifstofu alhæfingarsamtakanna, á meðan raunveruleikinn er líkast til eins og þar sem ég hef þvælst um Kína og Víetnam, þar sem fjölskyldurnar og heilu svæðin vinna saman að einhverju marki, eins konar síldarmórall, allt á fullu, ungir læra að vinna, ekki eins og í unglingavinnunni þar sem þau læra gjarnan að forðast vinnu. Þau fá sína menntun og allt það líka. Þetta er formúla sem virkar, ekki kannast ég við barnaþrælkun í heyönnum eða öðru í sveit, þangað sem maður var sendur frá sex ára aldri. Ef við pínum krakkana til þess að sitja heima eða í skóla einmitt á meðan uppskeran er, þá erum við eins og Besservisser trúboðar sem skilum ekki aðstæður og troðum kreddum okkar upp á upptekna þjóð í hagvexti að bjarga sér.
Við höfum oft séð þessa siðapostularæðu í útflutningnum. Fyrirtækin þykjast vilja einungis siðferðis- þetta og hitt, en fá svo undirritað vottorð um að það sé ekki hjá þessum framleiðanda og allir eru ánægðir (en allt samt er eins og það var). Eða þá að hræðsluáróðursmynd kemur út og allir forðast einmitt það land eða vöru, sem hækkar bara verð hinna (sem gera allt eins) þangað til t.d. Úsbekistan lækkar verð sitt svo rosalega að varan selst, bara ekki einmitt á H&M, nema öll blandaða bómullin, sem er aðal magnið og er keypt í gegn um kauphallir á hrávörumarkaði.
Það sem Svíarnir höfðu upp úr krafsinu er að festa þá ímynd í milljónum Evrópubúa að barnaþrælkun eigi sér víða stað í Úsbekistan. Það getur verið rétt, en þá er það eflaust líka í Kasakstan, Asserbadsjan, Tadjistístan og öllum hinum! Það verður að skoða öll slík mál í samhengi. Eitt er víst, að innkaupaákvarðanir er ómögulegt að taka svona, byggðar á einni áróðursmynd.
Ívar Pálsson, 26.11.2007 kl. 00:16
Smá viðbót í lokin!:
Þetta minnir mig á „Fair Trade“ eins og kom fram í kaffiþáttunum. Gerðir eru samningar á milli stórkaupenda og helst rammspilltra, stríðshrjáðra ríkja og hvatt til offrameiðslu á þvinguðu lágmarksverði og látið svo líta út að bóndinn hafi það betra og fái meira en fimm sent, á meðan afsökun fæst fyrir Starbucks að selja bollann á 10 dollara. Neytandinn fær þá ekki móral og líður vel. En kaffibændur eru í offramleiðslu og alltaf í grimmri samkeppni við enn fátækari lönd með enn léglegri gjaldmiðil, þannig að þeir fá alltaf sama lága verðið fyrir vöruna. Þeir eru bara á röngum enda í vonlausum bransa.
Samt heldur íslenska húsmóðirin að hún sé að bjarga eþíópískri fjölskyldu, þegar hún er að styrkja spillta stríðsherrann á staðnum. Endaneytandinn er aldrei í aðstöðu til þess að meta hvaðan varan er komin eða hvernig hún er unnin, hvað þá vörur á hrávörumarkaði (e. commodities) eins og kaffi og bómull. Hér er almennt um „Fair“ trade.
Ívar Pálsson, 26.11.2007 kl. 00:52
Nei en þegar viss vinna er gerð að vali, eins og að vinna í heyönnum eða síldarvinnsla eins og var gert hér í gamla daga þá er það allt annað. Krakkar höfðu val á þessu, þeim var ekki hótað misþyrmingum eða að þeim yrði rekið úr skóla eða neitt slíkt. Það er mikill munur að velja þess að vinna í heyönnum og að vera píndur til að tína bómull af bómullarakri eins og virðist vera gert á þessum stað.
Neytendur hafa ótrúlega mikið vald til að þvinga fyrirtæki til að breyta um framleiðsluferil, við gerum okkur oft ekki grein fyrir því. Með því að hvetja neytendur til að versla ekki hjá fyrirtækjum sökum þess að þeir nota vöru sem framleitt hefur verið út frá þrælkun eða misþyrmingum að þá erum við vonandi að hafa þau áhrif að þessi fyrirtæki hugsi sinn gang og reyni að vera meira meðvitað um hvaðan efnin koma.
Í þessu tilfelli að ef H&M, Asdas (í bretlandi) og fleiri fyrirtæki finna fyrir því að salan hjá þeim minnkar í kjölfar þessara frétta að þá auðvitað breyta þeir hjá sér ferilinn til að auka sölutölur. Ef það gerir það að verkum að minni peningur fer til Uzbekistan að þá kannski hefur það áhrif á bómullarræktina þar, og þá hefur það óbeint áhrif á líf þessara barna. Þetta hefur allt keðjuverkandi áhrif.
Í rauninni ættu þessu fyrirtæki ekki að kaupa neitt annað en lífrænn og fairtrade bómul og í raun hvetja til þess að allur bómullarframleiðsla í heiminum sé unnin lífræn og fairtrade. Þannig gætum við vesturlandabúar bætt heim þeirra sem minna mega sín á þessum fjarlægum slóðum.
Oddný Jónsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 00:59
Mér sýnist nú raunar á http://www.ejfoundation.org/page141.html að stærsta vandamálið séu stórkostleg pólitísk afskipti, miðstýring, framleiðslukvótar. Viti menn, "authoritarian presidential rule" kallast stjórnarfarið!
Ekki er sagt annað um aðstæður barna en það sem gilti á Íslandi þar til fyrir 50 árum: Út í svei með þig krakki, launin eru engin og fjölskyldan þarf á því að halda!
Amnesty hefur ekkert að segja um bómullar-tínsluna þar í landi, eða a.m.k. ekki sett hana á oddinn. Hví það?
Geir Ágústsson, 26.11.2007 kl. 11:45
Oddný, má ég gefa þér innsýn í aðstæður, t.d. hjá ASDA, sem íslenskir rækjuframleiðendur hafa selt til í 15 ár í minni umsjón, nokkur prósent af þjóðarframleiðslu rækju Íslands. Nú er ASDA í eigu Wal-Mart, stærstu súpemarkaðakeðju í heimi. Framleiðendur fyrir ASDA gangast undir það að notast ekki við vinnu barna á nokkurn hátt, sem er auðvelt fyrir okkur, nema ef vera skyldi 13-17 ára táningar t.d. í pökkun eða löndun. Samkeppnin er heitsjávarrækja, þar sem krakkar handpilla gjarnan með fjölskyldum sínum eða mæðrum. Við gætum kosið að hamra á þessu, okkur í skammtímahag, en eins og ég lýsti þá set ég mig ekki í þá dómarastöðu að segja að þessar athafnir samkeppninnar séu ekki „réttar“. Samskiptin við fjölskyldu eða í hópi geta verið rétta athöfnin, frekar en þröngvuð stofnanavist eftir forskrift einhvers heimsveldissinnans. Heilu fátæku samfélögin byggja afkomu sína þarna á þessari vinnslu og falla með ef viðskiptavinum ASDA er beint alfarið til okkar vegna þessarar vinnu barnanna í ákveðnu landi. Eða bómullin í öðru landi. Ég hef ekki móral í mér til þess að ganga þannig frá þeim og veit að þessar stýrðu neytendaákvarðanir eru tóm endaleysa. Ekki láta leiða þig eins og kú til slátrunar. Sjónvarpsteyminu tekst að ná fram einstaklingum til stuðnings fyrirfram ákveðinni skoðun sinni, sama hver hún er. Neytandinn heimtar lægra verð og fær það með því að nýta vinnu barna í þriðja heiminum. Þér tekst ekki að forðast það. En ef þú níðist á ASDA þá níðast þau á okkur, svo slepptu því!
Ívar Pálsson, 27.11.2007 kl. 14:46
Ég held að „Fair Trade“ umræða mín hafi eitthvað misskilist, sbr. Oddný, því að þeir viðskiptahættir ganga ekki upp. Þvingun frá neytanda myndi aldrei ná til kaffibóndans, því að keðjan er svo löng og fullkominn samkeppnismarkaður er í gangi ella. Þetta „Fair Trade“ er ein leið til þess að staðsetja sig gagnvart öðrum á magnvörumarkaði, en grunnurinn að baki er vægast sagt tæpur.
Ívar Pálsson, 27.11.2007 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.