'Trúðu, mannfjandi, trúðu!'

Svo virðist sem fá orð kveiki upp heitari tilfinningar (a.m.k. í athugasemdakerfi þessarar síðu) en að þverneita því að vilja brenna lífskjör mín (og annarra í orkuétandi kapítalískum hagkerfum) á bál CO2-heimsendaspádómanna.

Umorðum: Að ég þverneiti að segjast vilja brenna lífskjör mín á bál CO2-heimsendaspádómanna (flestir sem segjast vilja gera það gera það ekki enda veldur slíkt óþægindum) stuðar mjög marga!

Viðurnefnin (og stundum uppnefnin) vantar ekki. Ég er sagður heilaþveginn af stjórnmálaskoðunum, í afneitun, óvinur vísindamanna, óraunsær, bjartsýnn, barnalegur að halda að við getum bara "haldið áfram á sömu braut" um ókomna tíð, efnishyggjumaður, sértækur á rannsóknir og mælingar og ég er sagður grafa undan framtíð okkar á þessari plánetu (þó ekki endilega í verki enda erum við öll að njóta orkuaðgengis okkar, en frekar í orði með því að neita því að boða takmörkun orkuaðgengisins).

Kannski er ég allt þetta. Mér finnst ekki eins og heimur versnandi fari. Milljónir manna eru að rísa úr ömurleika fátæktar. Veðrið er e.t.v. annað í dag en á sama tíma fyrir ári en það þarf ekki að þýða neitt, og í raun kemur oftar en ekki í ljós að heil mannsævi og minningar "elstu manna" um snjófall, óveður og hlýindi eru ómarktækar vísbendingar um heimsenda. Miklu frekar er um ræða merki þess að maðurinn lifir stutt á mælikvarða Jarðarinnar og loftslags þess.

Fyrir 300 árum bjuggu flestir Evrópubúar við sjúkdóma og sult í dreifðum en ómenguðum sveitum. Eftir örfáa áratugi, jafnvel öld eða tvær allt eftir stað og stund, af sóðalegri kolabrennslu og skítugu borgarlífi var sá veruleiki að baki. Með ríkidæmi fæddist athygli að öðru en brýnasta brauðstritinu. Grasið átti að vera grænt og götur hreinar. Með réttu hugarfari náðist það fram á örfáum árum. Ríkt Vestur-Þýskaland hreinsaðist, fátækt Austur-Þýskaland varð lauflaust sökum súrrar úrkomu.

Kínverjar og Indverjar feta nú sömu fótspor en munu gera það á töluvert skemmri tíma, enda orðið ódýrt að kaupa fullkomna tækni sem áður stóð ekki til boða og þurfti að finna upp frá grunni.

Ég er víðsfjarri því að vera sannfærður um heimsendaáhrif CO2-losunar (sem ég reyni að rugla ekki saman við mengun  sem er erfitt því ég sé þann rugling daglega í fjölmiðlum). Það sem er ekki búið að afskrifa sem náttúrulegar (oft óreglulegar og gjarnan aldalangar) sveiflur í veðurfari og loftslagsbreytingum er rökrætt fram og til baka af vísindamönnum hverjir í sinni sérfræðigrein (sumir að rannsaka sólina, aðrir að lesa af hitamælum, enn aðrir að mæla magn CO2 í andrúmsloftinu). Þeir enda sjaldnast á því að verða einhuga um orsakir og afleiðingar. Þá fyrst að opinberir embættismenn fá að þjappa saman vísindaniðurstöðum í fjölmiðlavæna útdrætti næst fram einhvers konar "samstaða" án óvissu (eða hún orðin að "90% vissu", hvað sem það nú þýðir).

Ég ætla að halda áfram að vera "barnalegur" og "bjartsýnn" - jafnvel "barnalega bjartsýnn". Það er ekki bara mér fyrir bestu heldur einnig þeim sem fyrirlíta hina barnslegu bjartsýni mína, auk þeirra hundruð milljóna sem fyrst og fremst vantar orku til að komast út úr ömurlegustu fátæktinni (t.d. til að knýja ísskápa og traktora). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Svaraðu, maður (nota svo snnarlega ekki orðið mannfjandi), svaraðu!

Sammála orðum Hafþórs. Þú leggur okkur orð í munn sem treystum vísindamönnum almennt, og hlustum á orð þeirra. Það er engin að tala um heimsenda. Við erum að tala um hættur fyrir umhverfi okkar, hugsanlega verulega hraða breytingu á ýmsum líf- og vistkerfum. Við teljum að núverandi ástand sé ekki sjálfbært (sustainable).

Fyrir mér er það algert ábyrgðarleysi að hlusta ekki á endurteknar og sívaxandi áhyggjur vísindamanna. En nú ætla ég að spyrja þig einfaldra spurninga. Þú hefur bersýnilega áhuga á stjórnmálum og því ætla ég að biðja þig að setjast í stól ráðamanna um stund og svara því hvernig þú myndir bregðast við. Fyrir mér snúast stjórnmál einmitt um það hvernig við búum í haginn fyrir komandi kynslóðum. Spurningin er því þessi:

Það er ekkert vafamál að mjög margir vísindamenn sem vel þekkja til hafa komið með rökstutt álit að núverandi orkubúskapur heims sé ekki sjálfbær og óbreytt ástand muni leiða til verulegra búsifja fyrir komandi kynslóðir. Ég er ekki að biðja þig um að vera á þessu stigi sammála þessu áliti. En ég spyr þig sem ráðamann (mundu, þetta er ímyndunarleikur!) að bregðast við þessum aðvörunum á málefnalegan hátt. Eigum við að skipa nefnd vísindamanna á þessu sviði til að skila til þín skýrslu um hvort váin sé raunveruleg? Vilt þú hunsa þessu aðvörunum að því að þú trúir því ekki að við getum valdið óbætanlegum skaða (enda allar "heimsendaspár" tóm þvæla hvort sem er). Vilt þú segja, loftlagsvísindi eru ekki vísindi heldur eitthvað húmbúkk. Hvernig svara þú þessu ágæti " ráðamaður?

Þú sagðir að sönnunarbyrðin væri í "græningjunum" (viðurnefnin (og stundum uppnefnin vantar ekki)). Ég tel að ég hafi mjög vel rökstutt álit um að vá sé framundan. Ég tel að minn málflutningur (með tilvísan í skýrslur IPCC) sé mun skotheldari enn þinn. Ég held því að sönnunarbyrðin sé að einhverju leyti í þinum garði núna. Þú vitnaðir í Hippókrates í síðasta pistli, "at least, do not harm," (sagði að vísu Primum non nocere eða "First, do no harm"). Þarna varst þú að vísa til þess að við mættum ekki hindra frelsi eða atvinnulífið...  Ég held að þessi regla Hippóklratesar sé einmitt eitt af sterkustu vopnum okkar sem teljum að við höfum vel rökstuddar ástæður til þess að bregðast við. Sjálfbær þróun efnahagskerfisins, vistkerfa og jarðarinnar sjálfrar hlýtur að vera grunnregla sem við báðir samþykkjum, er það ekki?

En nóg í bili, ágæti "ráðamaður", hvað vilt þú gera?

Magnús Karl Magnússon, 21.11.2007 kl. 11:16

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvaða "hættur fyrir umhverfi okkar"? Hvað hefur þú fyrir þér annað en tölvulíkön sem spúa út niðurstöðum með risavöxnum vikmörkum?

Meintar "endurteknar og sívaxandi áhyggjur vísindamanna" eru einnig af fjölmiðlafárinu í kringum "what if?"-reikninga þeirra sem eru notaðir án samhengis til að búa til blaðafyrirsagnir.

Þú segir "óbreytt ástand muni leiða til verulegra búsifja fyrir komandi kynslóðir" og afneitar því að um heimsendaspá sé að ræða? Þú um það, en ég sé varla meira en stigsmun á orðavali, ekki eðlismun. Þar að auki er bara um getgátur og vangaveltur að ræða.

Sem ráðamaður mundi ég sennilega kalla til mín til dæmis færustu hagfræðinga heims eða þverskurð af sendifulltrúum ríkja heims hjá Sameinuðu þjóðunum og segja þeim að kíkja á niðurstöður vísindamannanna og bera saman kosti og galla "aðgerða" við þeim við ýmislegt annað sem við getum eytt tíma og fé í, t.d. lækningu sjúkdóma og útvegun vatns, og forgangsraða með tilliti til takmarkaðra auðlinda.

Þið Magnús og Hafþór viljið byrja á neðsta atriði forgangsröðunarinnar. Það þykir mér vera rökstuðnings vert.

Geir Ágústsson, 21.11.2007 kl. 11:33

3 identicon

Þarna held ég að Geir hitti naglann á höfuðið, spurning er einmitt sú hvernig eigi að ráðstafa því fé, sem við ákveðum að nota til þess að "bjarga heiminum", á sem árangursríkastan máta, þ.e. hvernig björgum við flestum mannslífum sem hlýtur að vera eini mögulegi mælikvarði á ráðstöfun þessa fés.
Sömu krónunni er aðeins hægt að eyða einu sinni, og þeir sem hvetja til þess að henni sé eytt í aðgerðir sem ekki hámarka nýtingu hennar ( s.s. hámörkun björgunar mannslífa ), ættu aðeins að staldra við og skoða samvisku sína.
Björn Lomborg hefur ítrekað vakið máls á þessu, og það er óábyrgt í meira lagi að hlusta ekki á það sem hann hefur fram að færa.

Aftur ; Sömu krónunni er ekki hægt að eyða tvisvar, við hljótum að vilja eyða henni í aðgerðir sem hámarka björgun mannslífa. Annað er einfaldlega grimmdarlegt.

Valþór (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 13:08

4 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Hagfræðingar eiga vissulega að koma að lausn mála - því er ekki að neita. Þið báðir virðist þó ganga út frá að það sé bara allt í lagi að gera ekkert með gróðurhúsalofttegundir, það megi bara bíða. Þar held ég að ykkur skjátlist. Þetta snýst um sjálfbærni. Sjálfbær þróun hvað umhverfi og efnahagsmál eru alger grundvallaratriði. Það gengur ekki að reka hluti eins og orkubúskap þannig að hann skilji eftir sig slóð fyrir fyrirkomandi kynslóðir sem ekki er hægt með góðu móti að takast á við mörgum áratugum seinna.

Þið verðið að horfast í augu við spár vísindamanna og á þeim eigið þið að byggja byggja hagfræðilega útreikninga. Björn Lomborg hefur einmitt verið harðlega gagnrýndur fyrir það að gefa sér rangar forsendur um afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda. Ef að forsendurnar eru rangar þá skiptir ákkurat engu máli hve góður hagfræðingurinn er.

Samkvæmt útreikningum loftlagsvísindamanna þá mun óheftur vöxtur í losun gróðuhúsalofttegunda valda verulegri hækkun í hitastigi á þessari öld. Við erum að tala um hækkun upp á um 4 (+ 2,4 - 6,4) gráður á celsius (skv scenario A1F1 í skýrslu IPCC frá upphafi þessa árs) og það eru allir sammála um að sé afskaplega hættuleg hitastigshækkun. Við erum þá að tala um verulega hættu á að óafturkræf veruleg bráðnun verði á Grænlandsjökli. Við erum að tala um hækkun sjávarborðs í metratali á næstu 100-200 árum. Við erum að tala um að margar fjölmennustu borgir heims muni verða neðan sjávarmáls (ekki á næstu áratugum en innan nokkurra kynslóða). Þessu hafa vísindamenn spáð (það er ekki það sama og einhverjar getgátur). Við verðum að hlusta á slíkt og taka það inn í reikninginn þegar verið er að reikna út skv módelum hagfræðinga.

Mér finnst það þó allt að því hlægilegt að þeir sem vilja með engu móti trúa spám raunvísindamanna um hluti þar sem forsendur eru MUN BETUR ÞEKKTAR en innan hagfræðinnar vilja legga allan sinn trúnað á framtíðar hagfræði útreikning Björns Lomborg þó svo að forsendur hans séu ekki einu sinni byggðar á réttum vísindalegum forsendum. Finnst ykkur þetta ekki dálítið skrítið. Það er svo sannarlega ekki neinn consensus á bak við álit Björns. Hann hefur kallað saman hagfræðinga til einnar viku spekulationa og þinghalds í Köben og niðurstöður hans vega nú þyngra en bæði álit virtra hagfræðinga eins og Nicholas Stern sem hefur gert útreikninga byggða á raunverulegum forsendum í samræmi við spár vísindamanna um áhrif loftlagsbreytinga og álit IPCC sem hefur starfað áratugum saman.

.....og síðan að krónunum og hvernig við eigum að eyða þeim. Mér finnst það alltaf sérlega athyglivert þegar að sumir hægri menn eins Geir og fleiri vilja reikna út hagkvæmni þess að valda ekki óafturkræfum skaða þá á allt í að bera það saman við hagkvæmni þess að verja peningum í moskítónet í Afríku eða AIDS klíníkur. Þetta er náttúrlega útsmogið og allt að því ómerkilegt. Þetta er eins og spyrja einhvern hvort hann sé hættur að berja konuna sína... Auðvitað er hagkvæmt að kaupa moskítónet, auðvitað er hagkvæmt að lækna AIDS og berkla í Afríku. En það spyr enginn um slíka hagkvæmni útreikninga þegar allar aðrar ákvarðanir eru teknar um eyðslu fjár á vesturlöndum. Spurði einhver slíkra spurninga áður en farið var út í stríðsrekstur í Írak? Hvort haldið þið að sé varið meiri peningum í þann stríðsrekstur í Írak eða í allar AIDS/berkla/moskítóvarnir í heiminum síðustu 30 ár!! Ég þykist nokkuð viss um svarið.

Finnst engum skrítið þegar stjórnarmaður í frjálshyggjufélaginu sem ALDREI hefur kvartað um að þróunarhjálp þurfi að bæta, fari allt í einu að segja að núna megi ekki stuðla að sjálfbærum orkubúskap af því að borgi sig frekar að verja ("in the short run") peningum til AIDS og moskítóvarna. Er ekki dálítið holur hljómur í slíku. Það er rétt að ekki er hægt að eyða sömu krónunni tvisvar - en það hefur svo sannarlega aldrei skort peninga til að kaupa moskítónet heldur hefur skort vilja!!

Magnús Karl Magnússon, 21.11.2007 kl. 20:11

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Vísindamenn (í túlkun IPCC) segja að ef Kyoto gengur eftir þá sé hægt að búast við því að hitastig lækki (eða hækki ekki um? aldrei viss á því) um hálfa gráðu. So what?

Ég þakka fyrir vísun í útreikninga. Núna er bara beðið eftir því að þeir sanni sig í verki og sanni um leið að loftslags landsnámsaldar hafi verið samasemmerki ofsaskilyrða og ósóma! Á meðan það hefur ekki gerst: Áfram með smjörið! Ef það gerist? Húrra fyrir því að fleiri en Hollendingar hafi efni á góðum flóðgörðum!

Aftur- eða óafturkræf hörfun hins mannfjandsamlega Grænlandsjökuls er eflaust að vinna skoðanakannanir innfæddra hvað varðar hörfunina.

Herra Stern byggði sínar spár á svartsýnustu hliðarathugunum reikniglöðustu vísindamanna. Ef hans viðhorf væru ríkjandi þá er hætta á því að menn væru ekki að eyða orku í annað en að hugsa upp leiðir til að flytja í frumstætt afrískt orkulaust þorp.

Almenn afstaða mín um ríksþvingaða eyðslu á launum skattgreiðenda er sú að hún sé ekki réttlætanlega. Hins vegar er ágætur útgangspunktur sá að minni sóun á skattfé sé betri en meiri, og minni sóun felst tvímælalaust í því að eyða frekar fé í mannslíf en niðurstöður hermilíkana. 

Þess má geta, Magnús, að þér er velkomið að sýna gott fordæmi og sýna öðrum hversu æðisleg orkuskert tilveran er. Þú virðist vera hrifinn af því að þvinga slíkt fordæmi upp á fólk með notkun ríkisvaldsins. Í nafni þeirra sem vilja ekki fylgja þínu fordæmi eða sýna CO2-losunarvænt fordæmi: Hættu því vinsamlegast.

Geir Ágústsson, 21.11.2007 kl. 23:34

6 identicon

Sennilega væri besta leiðin til að sporna gegn CO2 útblæstri sú að taka upp í gríðarlegum mæli hið hreina og ódýra eldsneyti sem kjarnorka er.
Kjarnorka hefur hinsvegar fengið á sig illt orðspor vegna örfárra slysa ( smárra, ef frá er talið Tsjernóbíl ), og backyardisminn sem tröllríður vesturlöndum og kemur í veg fyrir notkun þess.

Björgun mannslífa er forgangsatriði, og með því að veita peningum í önnur bjargræði en þau hagkvæmustu ( burtséð frá því sem gert er í dag ), er grimmdarleg hugsjón og sýnir mannslífum skeytingarleysi. Ef ríkir vesturlandabúar ættu að vinna að aðgerðum til þess að bjarga mannslífum, ættu þeir að einbeita sér að því sem skilar mestu fyrir minnst, og svo vinna sig upp kostnaðarþrepin.
Hvað gert er í dag, er málinu gjörsamlega óviðkomandi, það þjónar engum tilgangi að nefna núverandi eyðslu hinnar s.k. þróunaraðstoðar.

Hinsvegar má til sanns brunns færa, að ef vesturlandabúar væru ennþá ríkari, ættu þeir meira aflögu til þess að bjarga fleira fólki. Því fleira ríkt fólk sem í heiminum er, því auðveldara er að bjarga honum. 

Mér sýnist hinsvegar þessi debat löngu kominn í öngstræti

Valþór (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 02:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband