Sunnudagur, 28. september 2025
Hlaupið í blindni fram af bjargbrún
Eins og hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum þá var maður að nafni Charlie Kirk myrtur um daginn. Milljónir horfðu á streymi frá bæði útför hans og minningarathöfn og tugþúsundir lögðu leið sína á minningarviðburði vegna hans. Tugþúsundir hafa streymt inn í samtökin sem hann stofnaði og rak og viðburðum á vegum samtakanna fer hratt fjölgandi.
Charlie Kirk var áhrifamikill og mikill fjöldi fylgdist með honum og hreyfingu hans sem sannarlega er fjöldahreyfing sem hafði vaxið hratt á seinustu árum. Sjálfur hafði ég fylgst með honum í nokkur misseri og fundist hann leggja mjög þung lóð á vogaskálar samfélagsumræðunnar. Ekki sammála honum í öllu en bar virðingu fyrir rökfestu hans og ástríðu.
En þrátt fyrir að stjarna Charlie Kirk hafi verið að rísa hratt og honum jafnvel þakkað fyrir mikið af atkvæðunum sem Donald Trump fékk frá ungu fólki, og Kirk jafnvel á sviði með Trump í kosningabaráttunni, þá lét einn af helstu stjórnmálaskýrendum Íslendinga eftirfarandi orð falla, opinberlega, og er ég viss um að margir aðrir spekingar gætu sagt það sama:
Ég vissi ekki af Kirk, fyrr en hann var myrtur ...
Gott og vel, það er ekki hægt að fylgjast með öllum hreyfingum í öllum ríkjum og vita af öllum rísandi stjörnum en áttum okkur á einu: Við erum apakettir og innleiðum oft og iðulega og gagnrýnislaust bandaríska hugmyndafræði í fjölda mála.
Við lýsum yfir stríði við þá sem bandarísk yfirvöld lýsa stríði yfir.
Við setjum börnin okkar á þau lyf sem bandarísk yfirvöld mæla með.
Við aukum fjölda kynja í takt við hugmyndafræði bandarískra prófessora.
Við tökum upp óþol á ungum hvítum karlmönnum samkvæmt bandarískum uppskriftum.
Við létum lokka okkur til að galopna landamærin af því það þótti fínt í Bandaríkjunum. Ekki viltu láta kalla þig rasista, er það?
Allt þetta, og meira til.
Er þá ekki vissara að fylgjast aðeins með því sem er að gerast í Bandaríkjunum úr því við munum hvort eð er og að lokum herma eftir tískubylgjunum þar í landi?
Breytingar á viðhorfum í samfélaginu eiga sér ekki stað á einni nóttu. Þær taka langan tíma frá því fyrstu bandarísku prófessorarnir setja fram einhverja fáránlega kenningu og þar til hún er orðin að hinni einu réttu skoðun. Hið sama má segja um þá viðspyrnu gegn fáránlegu kenningunum sem nú á sér stað, svo sem í Bandaríkjunum en líka víðar. Þegar sú viðspyrna nær til Íslands munu þeir sem fylgjast ekkert með verða alveg steinhissa. Ungt fólk byrjað að mæta í kirkju? Játa kristna trú opinberlega? Telja fóstureyðingar eiga að vera seinasta neyðarúrræðið frekar en kæruleysislega getnaðarvörn? Finnast óþarfi að missa sig af ótta yfir loftslagsbreytingum? Finnast það blasa við að kynin eru bara tvö?
Þegar viðspyrnan kemur, og hún er á leiðinni, þá verður ekki hægt að treysta prófessorum til að útskýra uppruna hennar og uppgang.
Því þeir vita hreinlega ekki af undiröldunni. Ekki þegar hún er að styrkja þvæluna, og ekki þegar hún er orðin að viðspyrnu gegn þvælunni.
Ekki frekar en þeir vissu hvernig átti að eiga við kvefpest og hvernig á að eiga við þessa leiðigjörnu þrjósku almennings að vilja halda í bifreiðina sína, og plastpokana, þótt veðrið sé að breytast.
Það eru aðrir sem forða okkur frá því að hlaupa fram af bjargbrún, blindandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning