Sunnudagur, 24. ágúst 2025
Hvernig skal sjóða íslenskan frosk
Ég skrifaði lítinn pistil hérna um daginn um hatur hins opinbera á lífsstíl venjulegs fólks. Einhverjum á ritstjórn Morgunblaðsins fannst hann nógu sniðugur til að minnast á í Staksteinum blaðsins og þar náði hann athygli þáttastjórnenda í Bítinu á Bylgjunni þar sem ég var í örstuttu spjalli á þriðjudaginn. Hafa viðbrögðin við öllu þessu verið mjög góð og eins ég hafi rambað á eitthvað kýli sem þjakar marga og mörgum dauðlangar að stinga á en vita ekki hvernig.
En greiningin er í raun ekki mín heldur einni sem var beitt á tímum heimsfaraldurs og ber sama heiti og þessi pistill.
Smátt og smátt höfum við gefið eftir stjórn á fleiri og fleiri þáttum í okkar lífi. Til að sjóða frosk lifandi þarf að hita vatnið hægt. ...
Stór hluti samfélagsins hefur látið þetta yfir sig ganga, gegn betri vitund. Fólk hefur sætt sig við að láta undan hræðslu annarra vegna þess að þetta átti allt að vera tímabundið. En markmiðinu er stöðugt breytt. ...
Þessi greining á veirutímum á við um svo óteljandi margt annað líka og augljós dæmi eru sorphirðan og grænu skattarnir. Það mætti færa rök fyrir því að íslenski froskurinn sé núna hlynntur því að fjármagna vopnuð átök, fækka Gyðingum, gelda samkynhneigð ungmenni og borða skordýr í staðinn fyrir spendýrakjöt.
Fyrst er fræinu sáð. Einhver furðuleg hugmynd er sett fram sem þykir svo seinna vera alveg frábær. Þeir sem skipta ekki um skoðun nógu hratt (frá því að finnast hugmyndin fáránlega til að finnast hún frábær) eru taldir fordómafullir eða ólæsir á nýjustu vísindin.
Oftar en ekki kemur svo í ljós að þeir sem spyrntu við fótum höfðu hárrétt fyrir sér frá upphafi og hafa enn.
Samsæriskenningasmiðir? Nei, fólk sem er 6-12 mánuðum á undan öðrum að sjá að hitastigið í pottinum fer hækkandi og vissara að hoppa úr honum strax. Stundum 10-20 árum á undan öðrum, svo sem í málefnum hælisleitenda.
Það er kannski ekki hægt að sleppa við að soðna lifandi enda ákveðin takmörk fyrir því hvað borgaraleg óhlýðni nær langt. En það er skárra að vera meðvitaður um það en hitt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:00 | Facebook
Athugasemdir
Munurinn á "samsæriskenningu" og staðreynd er um það bil 12 mánuðir.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.8.2025 kl. 16:41
Mjög áberandi er þessi þróun í uppgangi rasisma, fordóma og kvenfyrirlitningu. Í því hvernig efa fyrir vísindum og skynsemi er sáð sem gagnrýnin hugsun. Hvernig fáránlegustu samsæriskenningar eru sagðar sannar en ósannaðar. Og stigmögnun ímyndaðrar hættu af fólki sem ekki er nákvæmlega eins.
Í Bandaríkjunum hefur það gengið svo langt að þar var komið á einræði til að vernda gegn brúnu fólki. Hrætt fólk fórnaði eigin atvinnu, sjúkratryggingum, fæðuöryggi, almannavörnum og menntun barna sinna í þeirri von að það skaðaði brúna. Bændur og lítil fyrirtæki kusu að missa nauðsynlega starfsmenn og að taka á sig háa tolla og sjá nú fram á gjaldþrot. Í fullri alvöru er rætt um að afnema kosningarétt kvenna. Börn deyja því efa hefur verið sáð um gagnsemi bóluefna. Og stjórnarskráin hefur verið tekin úr sambandi. Þetta hefði verið óhugsandi fyrir örfáum árum síðan.
Vagn (IP-tala skráð) 24.8.2025 kl. 19:08
Það er ekki kenning þegar samsærið er raunverulegt.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.8.2025 kl. 19:14
Ég er farinn að hallast að því að "Vagn" sé Sigmundur Ernir Rúnarsson eftir nokkra bjóra. Þetta er auðvitað bara kenning, en án samsæris.
Geir Ágústsson, 24.8.2025 kl. 20:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.