Mánudagur, 28. júlí 2025
Eru einsleitu fyrirsagnirnar allt í einu sannar núna?
Þetta er gömul aðferðafræði: Að samstilla alla stóra fjölmiðlana á mjög einhliða umfjöllun og afneita öðru sem ýmist heilaþvætti, samsæriskenningum eða helberum lygum, nú eða bara mannvonsku okkar samborgara.
Okkur var sagt að Írakar ættu gjöreyðingarvopn og að þess vegna þyrfti að kollvarpa yfirvöldum þar, með tilheyrandi óstöðugleika áratugina á eftir.
Okkur var sagt að í Sýrlandi væri vondur einræðisherra sem þyrfti að fara, með tilheyrandi þjóðarmorðum á kristnum minnihlutahópum í ríkinu alla tíð síðan.
Okkur er sagt frá því að friðelskandi lýðræðisparadísin Úkraína sé alveg saklaus af kúgun á rússneskum minnihluta ríkisins. Ekki að það réttlæti innrás í ríkið, en önnur saga.
Okkur var sagt að sprauturnar á veirutímum væru öruggar og áhrifaríkar, að loftslagið sé að breytast af mannavöldum, að flokkun einstaklinga í eldhúsinu sínu á rusli sé að bjarga umhverfinu og að plaströrin drepi skjaldbökur.
Og okkur er auðvitað sagt að Ísraelar séu að fremja þjóðarmorð á Palestínumönnum.
Allar fyrirsagnir sammála. Allir fréttatímar samstillir. Allir skoðanapistlar samhljóma.
Aftur og aftur er heimurinn málaður í svart-hvíta mynd þar sem þú tekur undir réttu skoðunina því annars ertu eitthvað.
Ekki áhyggjufullur heimsborgari, skattgreiðandi eða bara einhver sem hefur meiri áhyggjur af nærumhverfinu en átökum í fjarlægum heimshornum með áratugalangan aðdraganda.
Nei, þú ert eitthvað slæmt.
Stuðningsmaður morðóðra einræðisherra.
Afneitari vísindanna.
Fordómafullur.
Vond manneskja sem virðir ekki mannslíf.
Við ætlum auðvitað ekki að læra neitt af nýlegum viðburðum. Áfram skal umfjöllunin vera einhliða og þeir sem vilja hina hliðina þurfa að leggjast í eigin rannsóknir.
Þetta þekkja margir frá veirutímum og hafa lært að beita aðferðafræðinni á önnur mál. Því miður, því fréttatímar ættu að duga til.
Eitt er víst að einsleitu fyrirsagnirnar í dag eru engin vísbending um verustað sannleikans, ekki frekar en fyrri daginn. Það er gólað hærra en nokkru sinni fyrr en hávaði hefur aldrei dugað sem rökstuðningur. Það má vel vera að sá sem gólar hæst hafi rangt fyrir sér, og að þeir sem hvísla skoðanir sínar í lokuðum hópum hafi rétt fyrir sér. Rétt eins og á veirutímum. En kannski ekki. Og því bara vissara að láta ekki mata sig of mikið, of hratt, enn og aftur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning