Hvað er löggjöf? Ekki réttlæti

Við heyrum stundum að sá sem brjóti lögin þurfi að fara í steininn til að réttlætinu sé fullnægt. Að lögbrot séu þar með óréttlæti gagnvart öðrum, og að löghlýðni sé réttlætið holdi klætt. 

Þetta er auðvitað ekki rétt. Að gera það sem er löglegt er ekki það sama í öllum tilvikum og að gera það sem er réttlátt. Þetta er auðvitað augljóst þegar við lesum um löggjöf sem kveður á um að útrýma samkynhneigðum eða fangelsa þá fyrir það eitt að hafa sína kynhneigð. Sá sem varpar samkynhneigðum manni í fangelsi fyrir að vera samkynhneigður er ekki að framfylgja réttlætinu. Hann er að fylgja lögunum.

En eru lögin okkar ekki réttlætið uppmálað? Við, þetta upplýsta og umburðarlynda fólk?

Nei, auðvitað ekki. Ég skal útskýra með dæmi.

Í Danmörku má ekki hafa tóbaks- og nikótínvörur til sýnis í verslunum. Þær eru á bak við tjöld eða í skúffum. Á móti kemur að allir kælar eru troðfullir af köldum bjór sem ungmenni frá 16 ára aldri mega kaupa. Sá sem felur tóbakið frá 16 ára ungmenninu en selur því um leið kaldan bjór er löghlýðinn. Réttlætið skiptir engu máli.

Í Svíþjóð eru tóbaks- og nikótínvörur rækilega til sýnis en bjórinn hvergi að finna nema í ríkisverslununum og bara til sölu fyrir 20 ára og eldri. Sá sem selur mikið af tóbaki í Svíþjóð og léttöl undir 3,5% styrkleika er löghlýðinn í Svíþjóð. Réttlætið skiptir engu máli.

Á milli tveggja landa er svo hægt að senda vörur án athugasemda. Ég get keypt nikótínvörur frá Svíþjóð og Svíi getur fyllt skottið sitt af bjór í Danmörku um leið og hann fær bílpróf 18 ára gamall. 

Lögin og réttlætið eru oft sammála. Ekki drepa, stela (nema þú sért skatturinn), nauðga og svindla. En allt hitt - takmarkanir á friðsæla og fórnarlambalausa iðju, starfsleyfin, feluleikurinn með áfengið, sýnileiki varnings - eru bara tilraunir. Tilraunir til að sveigja fullorðnu fólki frá einu til annars - frá áfengi til verkjalyfja, frá nikótínpúðum til sígarettna, frá því að hefja eigin rekstur til að sleppa því, frá því að þéna mikið til að þéna minna, frá því að taka verðmætaskapandi nám til að taka verðlaust nám. Yfirvöld að leika sér í Excel-skjölunum - auka eitthvað og minnka annað - og dæla út löggjöf og sköttum í von um að þú fylgir uppskriftinni.

Ekki til að réttlætið sigri eða til að fjármagna nauðsynleg verkefni.

Nei, til að stjórna þér.

Lögin eru ekki réttlætið nema í stóru málunum. Afgangurinn er bara ónæði og kemur réttlæti ekkert við, ekki frekar en önnur fyrirmæli sem þreyttir og jafnvel ölvaðir hópar einstaklinga ákveða að setja saman í hraðsuðupotti til að komast í sumarfrí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Dæmin sem þú tekur sýna að lagasetningin er komin langt út fyrir öll skynsemismörk og þú hittir naglann á höfuðið þegar þú segir sumarfríin ráða för. Aldrei eru jafn vitlaus lög sett og á síðustu dögum þings, þegar fjölskyldur þingmanna bíða með ferðatöskurnar tilbúnar og farseðlana við það að renna út.

Ragnhildur Kolka, 19.6.2025 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband