Laugardagur, 14. júní 2025
Stórt mál en lítill áhugi
Að setja í lög að tilskipanir Evrópusambandsins njóti forgangs umfram íslenska löggjöf er stórt mál, fullveldisafsal þvert á heimildir stjórnarskrár. Málið nýtur samt frekar lítillar og takmakaðrar athygli. Hvers vegna?
Að hluta má skrifa það á áhuga margra þingmanna á að Ísland fari undir stjórn Evrópusambandsins. Slíkir þingmenn vilja sem minnst rugga bátnum með einhverjum umræðum. Slíka þingmenn dreymir um vel launuð og skattfrjáls störf í skrifstofum Evrópusambandsins, fjarri hávaða hversdagsins.
Að hluta má skrifa það á að margir þingmenn skilja ekki alveg löggjöf, halda að hún snúist um að líta vel út í fjölmiðlum. Lesa sennilega ekki lagafrumvörp og kjósa bara samkvæmt fyrirmælum formannsins.
Að hluta má skrifa það á að ef Arnar Þór Jónsson og Jón Steinar Gunnlaugsson segja eitthvað, og ef eitthvað er baráttumál Miðflokksins, þá hlýtur andstæðan að vera rétt afstaða. Þetta vel þekkta hnjáviðbragð sem mótar afstöðu svo margra í mörgum málum.
Allar þessar skýringar eiga líka við um fjölmiðlafólk. Höldum því til haga að þeir eru mun lengra til vinstri en almenningur almennt.
Þetta skýrir hvers vegna bókun 35 fer sennilega í gegnum þingið og svo tekur við að láta dómstóla dæma þá löggjöf stjórnarskrárbrot, en það tekur tíma og kostar peninga.
![]() |
Miðflokksmenn sitja um ræðustólinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Geir; sem oftar og fyrri !
Þakka þjer fyrir; skilvísa samantektina.
Það er orðinn langur vegurinn; frá því Einar Þveræingur Eyjólfsson stóð í veginum fyrir ásælni Ólafs Haraldssonar Noregskonungs, þá legáti hans og sendill:: Þórarinn Nefjólfsson fór þess á leit við Íslendinga, að þeir GÆFU Noregskonungi Grimsey (nyrðri), á 11. öldinni.
Það á að vera sjálfsagður hlutur; að íslenzkir þjóðfrelsissinnar geti tekið sjer það vald, að framkvæma BORGARALEGA handtöku þeirra þingmanna, sem kjósa að samþykkja þessa bókunar forsmán Fjórða ríkisins (Bókun 35).
Þeir þingmenn; sem vildu selja Evrópusambandinu land og fólk og fjenað, láta sjer í ljettu rúmi liggja örlög núlifandi og komandi kynslóða Íslands.
Miðflokksmenn; eiga þakkir skildar fyrir sína varðstöðu í þessu máli - þó svo þeir sjeu úti í forarfeni, í varðstöðunni fyrir burgeisa stórútgerðarinnar aftur á móti, hvað auðlindagjaldið varðar.
Megi Flokks fólksins þingmenn; hverjir kjósa að svíkja íslenzka hagsmuni - í bráð og lengd, með undirlægjuhættinum gagnvart Brussel / Berlínar valdaöxlinum stikna í hreinsunareldi Dantes heitins (1265 - 1321), þennan flokk studdi jeg í þingkosningunum 2017 - 2021 og 2024, og sje ekki eftir öðru meir, minnar lífstíðar:: þjer, og öðrum að segja Geir.
Dante Alighieri (1265 - 1321) Skáld, rithöfundur
og heimspekingur, einhver merkasti hugsuður síð-
miðalda.
Með beztu kveðjum; sem jafnan, af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.6.2025 kl. 11:31
Áhugaleysið skrifast sennilega á það að málið sem þú lýsir er ekki til nema í undarlegum hugarheimi nokkurra einstaklinga. Í raunheimum hefur ekkert frumvarp verið sett fram um að tilskipanir Evrópusambandsins njóti forgangs umfram íslenska löggjöf. Það uppveðrast skiljanlega ekki margir við ímynduð lagafrumvörp og fæstir telja þau stór mál.
Mörg Íslensk lög eru sett eftir fyrirmyndum annarstaðar frá. Bókun 35 nær til EES-reglna sem Alþingi hefur tekið sem fyrirmynd og sett sem fullgild Íslensk lög. Ein Íslensk lög sett af Alþingi fá þar með forgang yfir önnur Íslensk lög sett af Alþingi, taki Alþingi ekki annað fram við lagasetningu. Forgangur laga er ekkert einsdæmi og Hæstiréttur hefur staðfest að Alþingi sé fyllilega heimilt að veita þann forgang.
Vagn (IP-tala skráð) 14.6.2025 kl. 16:17
Vagn,
Þessi bókum þá væntanlega óþarfi.
Geir Ágústsson, 14.6.2025 kl. 17:26
Hvort þörf sé fyrir að skerpa á réttaröryggi með íslenskri löggjöf um forgang einhverra íslenskra laga er atriði sem Alþingi ákveður. Það er allavega ekki á dagskrá, ekki þörf, vilji né ætlun að setja lög um að tilskipanir Evrópusambandsins njóti forgangs umfram íslenska löggjöf.
Vagn (IP-tala skráð) 14.6.2025 kl. 18:38
Aldrei þessu vant hefur kerran rétt fyrir sér.
Það er ekkert til á Íslandi sem heitir "lög Evrópusambandsins" og tilskipanir þess hafa ekkert lagagildi á Íslandi, hvað þá forgang. Slíkt getur aðeins gerst í ESB en eins og við vitum er Ísland ekki í ESB.
Það eina sem hið umrædda frumvarp fjallar um er hvaða íslensku lög frá Alþingi skuli gilda framar öðrum íslenskum lögum frá Alþingi ef það verður árekstur á milli tveggja mismunandi íslenskra lagareglna.
Þetta felur ekki í sér neitt afsal löggjafarvalds heldur notkun þess. Samkvæmt stjórnarskrá fer Alþingi með löggjafarvaldið og þess vegna getur það ekki brotið í bága við hana að Alþingi framkvæmi það vald sem hún felur því.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.6.2025 kl. 22:30
Guðmundur,
Þetta þýðir að ef Alþingi setur lög sem eru fjarri því að falla að ESB tilskipun en fyrri lög þá gildir nýja löggjöfin ekki. Alþingi einfaldlega ekki með löggjafarvald.
Geir Ágústsson, 15.6.2025 kl. 09:38
Tökum dæmi:
Íslensk lög kveða á um að framleiðsla og dreifing á rafmagni skuli vera á sitthvorri hendinni. Þetta er til að falla að Evrópusambandstilskipun. Nú ákveði Alþingi að smæð íslenska markaðarins og stærð landsins (vegalengdir og annað) kalli á að það sé heppilegra að þetta sé á sömu hendi, t.d. með því að sameina Landsnet og Landsvirkjun. Pólitískur vilji Alþingis standi að baki þessu.
En nei, bókun 35 segir að þessi nýju lög Alþingis gildi ekki því fyrri lög féllu að Evrópusambandstilskipun, en þau nýju ekki.
Stjórnarskrá segir vissulega að Alþingi geti sett hin nýju lög, en lög sem Alþingi setti - bókun 35 - segir að hin nýju lög gildi ekki.
Geir Ágústsson, 15.6.2025 kl. 09:44
Í frumvarpinu segir: "Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað."
Þannig að ætli Alþingi að setja lög sem eru ósamrýmanleg lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er gert ráð fyrir að Alþingi taki það þá fram að hin nýju lög njóti forgangs. Því er ekki um neina skerðingu á löggjafarvaldi Alþingis að ræða.
Vagn (IP-tala skráð) 15.6.2025 kl. 12:11
Vagn
Það eitt að Alþingi þurfi að "mæla fyrir um annað" er skerðing á löggjafarvaldi Alþingis.
Og ef Alþingi mælir fyrir um annað, þá kemur ESA og hefur samningsbrotamál.
Geir , þetta dæmi sem þú tekur er nokkuð gott.
Eggert Guðmundsson, 15.6.2025 kl. 15:18
Geir.
Alþingi hefur einmitt löggjafarvaldið og nákvæmlega þess vegna getur það samþykkt umrætt frumvarp sem íslensk lög. Ef svo væri ekki, þá fyrst væri löggjafarvald þess takmarkað.
Varðandi dæmið sem þú tekur, þá gerir frumvarpið einmitt ráð fyrir því að Alþingi geti eftir sem áður sett lög sem víkja frá EES reglum. Það eina þarf er þá að taka sérstaklega fram að það sé ætlunin svo það liggi ljóst fyrir að ekki sé fyrir mistök verið að víkja frá EES reglum. Forgangsreglunni er fyrst og fremst ætlað að draga úr líkum á slíkum mistökum enda verður almennt að gera ráð fyrir því að löggjafinn ætli sér að fylgja gildandi þjóðréttarsamningum, nema ótvíræður vilji sé til annars og að það komi þá skýrt fram.
Alþingi getur líka hvenær sem er fellt úr gildi lagareglu sem hefur verið sett til að innleiða EES reglu og þá myndi ekki einu sinni reyna á forgangsregluna samkvæmt frumvarpinu. Svo ég noti þitt ágæta dæmi um framleiðslu og dreifingu rafmagns, ef Alþingi myndi einfaldlega breyta raforkulögum og fjárlægja úr þeim þá reglu sem segir að framleiðsla og dreifing skuli vera á sitthvorri hendi, þá yrði gildandi íslenskur réttur sá að þetta tvennt mætti vera á sömu hendi. Þá væri ekki til staðar nein lagaregla sem segði til um annað og því yrði engin árekstur milli ólíkra laga sem gæti reynt á forgangsregluna. Ef það réttarástand færi í bága við EES samninginn gæti það aftur á móti leitt til viðbragða af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA, rétt eins og í öllum öðrum tilvikum þar sem íslenskur réttur er ekki í samræmi við EES samninginn.
Eggert. ESA getur og hefur alltaf getað farið í samningsbrotamál ef íslensk lög eru andstöðu við EES samninginn. Ekkert við það myndi breytast þó að hið umrædda frumvarp yrði samþykkt sem lög. Að Alþingi þurfi að kveða skýrt á um hvaða lagareglur skuli gilda myndi ekki með nokkru móti skerða löggjafarvald þess. Þvert á móti myndi það auka skýrleika laga og þar með réttaröryggi.
Guðmundur Ásgeirsson, 15.6.2025 kl. 18:05
Eftir stendur að ég skil ekki þörfina á þessari bókun 35.
Geir Ágústsson, 15.6.2025 kl. 18:24
Bókunin sjálf hefur verið hluti af EES samningnum frá upphafi og er ekki nýtilkomin. Ástæða þess að hún var gerð á sínum tíma var að stuðla að skilvirkri samræmingu á reglum innri markaðarins sem 7. gr. EES samningsins gerir ráð fyrir (svokölluð innleiðingarskylda). Þó er áréttað í bókuninni að það verði að gera án þess að aðilarríki samningsins framselji löggjafarvald til stofnana ESB, enda heimilar stjórnarskráin það ekki. Það má því segja að bókunin hafi verið þörf til að tryggja samræmi samningsins við stjórnarskrá svo hægt yrði að samþykkja hann án þess að brjóta gegn henni. Við lögfestingu EES samningsins árið 1993 var sú forgangsregla sem bókunin kveður á um aftur á móti ekki innleidd með fullnægjandi hætti eins og hefur sífellt komið betur í ljós með tímanum þegar á það hefur reynt fyrir dómstólum. Þess vegna var hið umrædda frumvarp lagt fram í því skyni að bæta úr þess með skýrari innleiðingu á reglunni. Það því segja að þörfin fyrir það hafi sprottið af dómaframkvæmd sem leiddi sífellt betur í ljós að upphaflega innleiðingin var ekki fullnægjandi. Samanlagt má svo segja að þörfin fyrir bókunina og betri innleiðingu þeirrar reglu sem hún kveður á með frumvarpinu sem nú er til umræðu sé að hún er nauðsynleg til að tryggja almennum borgurum á Íslandi óskert réttindi þeirra samkvæmt EES samningnum. Vonandi hjálpar þetta þér að skilja hver þörfin er.
Guðmundur Ásgeirsson, 15.6.2025 kl. 18:50
Eggert, að Alþingi þurfi að "mæla fyrir um annað" vilji það "mæla fyrir um annað" er ekki nein skerðing á löggjafarvaldi Alþingis. Löggjafarvald Alþingis þyrfti þá að vera án allra formreglna og algerlega ótakmarkað, nokkuð sem það hefur aldrei verið. Að Alþingi þurfi að "mæla fyrir um annað" vilji það "mæla fyrir um annað" kæmi ekki í veg fyrir neina lagasetningu sem Alþingi er heimil í dag og takmarkaði ekki á neinn hátt vald Alþingis til að setja þau lög. Og gildi laganna væri eftir því hver vilji Alþingis væri. Löggjafarvald er ekki skert þó orðalag laga fylgi einhverjum reglum.
Alþingi færi e.t.v. að vanda sig betur og skoða hvort lög sem Það setur stangist á við önnur lög, sama hvaðan þau komu upprunalega. Að Alþingi þurfi að "mæla fyrir um annað" er í versta falli lítilsháttar skerðing á frelsi Alþingis til að stunda óvönduð vinnubrögð. En frelsi Alþingis til að stunda óvönduð vinnubrögð er hvergi varið í stjórnarskrá.
Hótanir um milljarða skaðabótamál ef einhver löggjöf verði sett eru venjulega nokkrar á ári. Landráð og stjórnarskrárbrot eru einnig algengar upphrópanir þegar einhver er ósáttur við lagasetningu. En mögulegar, hugsanlegar eða líklegar kærur vegna lagasetninga eru ekki neitt sem takmarkar vald Alþingis eða gera lagasetningu óheimila. Það eru varla sett þau lög að málsókn liggi ekki í loftinu.
Vagn (IP-tala skráð) 15.6.2025 kl. 19:00
Vagn. Svo sannarlega má taka undir það sjónarmið að Alþingi eigi að vanda til verka við lagasetningu. Því miður er of algengt að Alþingi setji lög sam stangast á við önnur lög eða jafnvel stjórnarskrá og slíkt getur gert almennum borgurum erfitt um vik að skilja nákvæmlega hver réttindi og skyldur þeirra eru. Aftur á móti verður það mun skýrara ef fram kemur í settum lögum hver þeirra skuli gilda og hver ekki ef árekstur verður þar á milli.
Guðmundur Ásgeirsson, 15.6.2025 kl. 20:16
Svo bókun 35 segir þá að Alþingi megi setja hvaða þau lög sem það vill en ef þau eru á skjön við EES/ESB þá þurfi Alþingi bara að segja að það sé viljandi svo lögin teljist gild samkvæmt eigin löggjöf? En annars lokar EES dyrum?
Auðvitað semja íslensk yfirvöld fyrir hönd Íslendinga um allskonar, um réttinn til hins og þessa, en að Alþingi geti sett lög án fyrirvara um að þau lög séu ógild af því önnur lög falla betur að apparati sem er ekki Alþingi, það er sérstakt.
Geir Ágústsson, 15.6.2025 kl. 20:21
Þetta virðist vera nokkurn veginn réttur skilningur hjá þér Geir.
Nema það er stjórnarskráin sem segir að Alþingi megi setja hvaða lög sem þau vill og hún er æðst allra lagaheimilda. Bókun 35 breytir engu um það heldur árettar aðeins þessa staðreynd eins og frumvarpið sem um ræðir.
Ef Alþingi ákveður samt að setja lög sem stangast á við EES samninginn þá er það brot á samningnumog það veldur einstaklingum tjóni er ríkið skaðabótaskylt. Þannig hefur það alltaf verið frá því að samningurinn tók gildi og varð hluti af íslenskum lögum í ársbyrjun 1994. Bókun 35 breytir engu um þetta en frumvarpið sem um ræðir er ætlað til þess að minnka til muna líkurnar á að þetta geti gerst fyrir mistök þegar það er ekki vilji Alþingis að brjóta gegn réttindum borgaranna eins og verður almennt að gera ráð fyrir. Réttur Alþingis til að fremja slíkt brot er þó ekki fjarlægður enda myndi það ekki samræmast stjórnarskrá og þess vegna er útfærslan sú sem hún er.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2025 kl. 00:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning