Miðvikudagur, 28. maí 2025
Hagsmunir heildarinnar?
Þegar yfirvöld réttlæta skattahækkanir með því að vísa til hagsmuna heildarinnar þá blasir við að ekki er verið að huga að hagsmunum heildarinnar.
Því það er heildin sem er að borga meira fyrir það sama eða minna en áður.
Auðvitað hafa mismunandi skattahækkanir mismunandi áhrif. Þegar ríkið vill minnka reykingar þá skattleggur það tóbak. Þegar ríkið vill að iðnaðarmenn fái fleiri verkefni þá lækkar það virðisaukaskattinn.
Ríkisvaldið hækkar núna skatta á fiskveiðar, væntanlega til að minnka fiskveiðar eða innlenda fiskvinnslu ef marka má minnisblöðin sem ríkisstjórnin lét framleiða en las ekki.
En þarf ekki að fjármagna hið opinbera svo það geti sinnt öllum sínum nauðsynlegu verkefnum? Jú, auðvitað þarf að gera það, en þarf hið opinbera að vasast í öllu sem það vasast í í dag? Auðvitað ekki. Það er hægt að finna mörg dæmi um vel rekna starfsemi sem hið opinbera sinnir á Íslandi en einkaaðilar sinna í öðrum þróuðum ríkjum eða svæðum innan þeirra. Hið opinbera getur meira að segja greitt fyrir þjónustu án þess að veita hana og innleiða þannig örlítinn vott af samkeppni, svo sem í tilviki grunnskóla eða heilbrigðisþjónustu.
En að báknið í dag sé hin fullkomna stærð á hinu opinbera sem þenjist út á hárréttum hraða og taki til sín sanngjarna skattheimtu er auðvitað ekki rétt.
Ef ríkisvaldinu, eins stórt og það er nú þegar, vantar meira af sjálfsaflafé íslensks almennings og fyrirtækja þá er það fyrst og fremst til að fjármagna kosningabaráttu ríkjandi flokka, og hagsmunir heildarinnar eru algjört aukaatriði. Reikningsdæmið gæti verið eitthvað á þá leið að sjávarþorp sem verða að eyðifjörðum fæli frá færri kjósendur en aflast í kaffihúsum Reykjavíkur, eða eitthvað álíka.
Bara stjórnmál, stjórnmálanna vegna. Skítt með heildina.
![]() |
Skiljanlegt að fólk mótmæli frumvarpinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning