Tollar og góða fólkið

Hvort skiptir meira máli: Verknaðurinn eða hver framkvæmir hann?

Ef prestur lemur mann að ástæðulausu er það þá minni glæpur en ef eiturlyfjaneytandi gerir það sama?

Flestir telja vonandi ekki að svo sé.

Ef fangavörður í kínverskum útrýmingarbúðum varar við því að loftsteinn sé að falla til jarðar á þá að hunsa orð hans því hann er svo vondur eða gæti verið að loftsteininum sé alveg sama og eyðir öllu óháð því hver varaði við honum?

Vitaskuld ber að taka slík varnarorð alvarlega, sama hvaðan þau koma.

En svona hugsum við ekki þótt við teljum okkur vera rökhugsandi og upplýst fólk.

Við spáum miklu frekar í því hver sagði eitthvað en hvað viðkomandi sagði.

Við dæmum orð og gjörðir ekki út frá því hvaða orð féllu eða hvað viðkomandi er að gera. Þess í stað höfum við ákveðið að allt sem ákveðnir einstaklingar segja sé rangt og að andstæðan sé sannleikurinn.

Þetta lýsir sé vel í allri umræðu um tolla (en allskonar annað líka: loftslagsbreytingar, kynskiptiaðgerðir, lyfjanotkun, sóttvarnaraðgerðir og svona mætti lengi telja).

Tökum dæmi.

Evrópusambandið býr sig nú undir að skella himinháum tollum á Úkraínu til að verja evrópska bændur gegn ódýrum innflutningi þaðan, og um leið bora stórt gat í ríkissjóð Úkraínu. Hvar eru allir spekingarnir sem hafa tjáð sig mikið um allskyns aðra tolla undanfarið? Hvar eru frelsishetjurnar sem tala máli Úkraínu? Hvar eru mótmælin og undirskriftalistarnir?

Þögnin er ærandi.

Sjálfur er ég enginn talsmaður tolla. Hagfræðin er skýr hérna: Tollar eyðileggja skilvirkni og hagkvæmni.

En tollar eru ekki bara hagstjórnartæki. Þeir eru pólitískt verkfæri rétt eins og viðskiptabann og -þvinganir. Í Bandaríkjunum eru þeir notaðir til að þvinga ríki að samningaborðinu og einfaldlega verkfæri stjórnmálamannsins, mögulega í bland við hagfræðikenningar sem ég fellst ekki alveg á. Í Evrópu eru þeir notaðir til að verja óhagkvæman landbúnað frá framleiðslu úr mun frjósamari jörð. Við skiljum ekki alveg aðferðafræði Bandaríkjamanna og fyllum því samfélagsmiðla af hneykslun yfir tollastríði þeirra en við skiljum alveg aðferðafræði Evrópusambandsins og steinþegjum.

Ætti það ekki að vera öfugt? Eða skiptir meira máli hver sagði eitthvað en hvað hann sagði?

Ætli það ekki.

Því miður, fyrir Úkraínu.


mbl.is Telur verndartolla njóta stuðnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband