Mánudagur, 12. maí 2025
Hagfræði stjórnmálanna
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna sagði í tilkynningu í dag að hann myndi láta lækka lyfjaverð í Bandaríkjunum um 59 prósent. Vissulega er það hægt - lyfjaverð er af ýmsum ástæðum mjög hátt í Bandaríkjunum og neytendur verða ekki alltaf varir við það vegna fyrirkomulags sjúkratrygginga (og skorts þar á) þar á bæ - en stundum er ein undirskrift ekki nóg. Meira þarf til og dýpri breytingar þurfa að eiga sér stað. Kannski það standi til í þessu tilviki en enginn veit það í bili.
Þeir hrista sjálfsagt margir hausinn yfir því hvað Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, telur sig geta áorkað með tilskipunum. En þótt mikið fari fyrir honum þá hugsa í raun flestir stjórnmálamenn á sömu nótum. Ein lagabreyting og fátækt er úr sögunni! Aðeins meiri ríkisútgjöld hér og allt verður í lagi. Aðeins hærri skatta á þennan atvinnureksturinn eða hinn og opinberir sjóðir fyllast á ný, samfélaginu til blessunar.
Á Íslandi stendur til að mynda til að leggja enn meiri álögur á lítil sjávarþorp og útrýma þeim endanlega, og að þvinga öll sveitarfélög til að hækka skatta í hæstu hæðir og taka alla hvata af hagkvæmni í rekstri þeirra. Ekki gæfulegt en dæmigert fyrir stjórnmálamenn sem sitja við litlu skrifborðin sín og ætla að leysa öll vandamálin þaðan. Með undirskriftum. Með tilfærslum. Með lagabreytingum. Verða óbeinar afleiðingar? Gleymdu því! Vöruðu öll minnisblöðin við hugmyndaauðginni? Í skúffuna með þau!
Trump er stór á sviði og hefur hátt og fáir virðast skilja í raun hvaða aðferðafræði hann er að beita. En með gjörðum sínum afhjúpar hann samt hugarfar sem þjakar flesta stjórnmálamenn sem telja að ef bara væri fyrir þessa skattahækkun og þessa löggjöf þá mætti leysa öll vandamál í hvelli. Afleiðingalaust.
![]() |
Trump hyggst lækka lyfjakostnað um 59 prósent |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning