Laugardagur, 10. maí 2025
Lenging vinnuvikunnar
Okkur er oft sagt að vinnuvikan hafi styst seinustu áratugi.
Okkur er líka sagt að það sé til eitthvað sem heitir þriðja vaktin, sem sé ólaunuð vinna á heimilinu, og taki töluverðan tíma.
Ég samþykki hvoru tveggja en legg til að setja í ákveðið samhengi.
Vinnuvikan, þ.e. sá tímafjöldi viðveru á vinnustað sem leiðir til þess að fá full mánaðarlaun, hefur styst. Kannski ekki alltaf með eðlilegum leiðum, svo sem að verðmæti hverrar vinnustundar hafi aukist með bættri framleiðni, en fyrir launþegann bara spurning um hversu marga klukkutíma á viku þurfi að vera á vinnustaðnum til að fá launin sín óskert.
En þriðja vakin hefur tvímælalaust lengst til muna.
Hvað tekur til dæmis marga klukkutíma að losna við rusl? Ruslið þarf að setja í óteljandi tunnur og jafnvel keyra það í eigin bifreið á milli bæjarhluta.
Hvað tekur langan tíma að komast á milli bæjarhluta? Göturnar eru fullar og umferðin er geðveik. Auðvitað er gaman að hlusta á góða útvarpsþætti á morgnana og á kvöldin en kallast varla frjálst val á notkun tíma síns ef bíllinn er einfaldlega stopp á götunum.
Hvað tekur langan tíma að fá leyfi fyrir hinu og þessu? Það er ekki skrýtið að biðsalir sýslumannsembætta, Þjóðskrár og annarra opinberra stofnana eru almennt troðfullir, alltaf. Við erum ekki fjarri því að þurfa leyfi til að mála svefnherbergið nú þegar þarf að sækja um leyfi til að leigja það út til einnar nætur. Viltu djúpsteikja kjúkling? Búðu þig undir bið og kostnað!
Mín kenning er sú að stytting vinnuvikunnar hafi einfaldlega hleypt hinu opinbera af stað til að fylla vökutíma okkar af allskonar öðru rugli. Þegar fólk þurfti að vinna 45-50 klukkustundir á viku og jafnvel meira þá var enginn tími til að handþvo ruslið og keyra það um allan bæ eða eyða hálfum degi í umferðinni. Fólk hafði einfaldlega ekki tíma í slíkt og spyrnti við fótum. Nú þegar vinnuvikan er orðin svona stutt þá teljum við sjálfsagt að fylla hinn svokallaða frítíma af allskonar umstangi og útréttingum til að koma til móts við yfirvöld.
Svona rétt eins og við samþykktum að vinna að heiman á veirutímum því tæknin gerði það mögulegt fyrir ferðatölvustéttirnar.
Eftir stendur að hin svokallaða þriðja vakt er í auknum mæli orðin að ólaunaðri vinnu til að fóðra báknið.
Stutt vinnuvika er vissulega alveg ljómandi mál fyrir samfélag sem hefur efni á slíku en er ekki kominn tími til að spyrna við fótum þegar þriðja vaktin er orðin önnur eins vinnuvika, ólaunuð?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning