Laugardagur, 3. maí 2025
Frétt eða frásögn?
Að blaðamenn taki sér sterka afstöðu og boði hana í gegnum fréttaflutning sem er sagður vera hlutlaus er ekkert nýtt. Þeir eru yfirgnæfandi til vinstri í stjórnmálum. Þetta hafa kannanir sýnt fram á ítrekað. Köllum þetta bara staðreynd.
Það er því ekki furðulegt að þegar hægrimenn eru við völd að þá er aðhaldið úr öllum áttum. Hver einasta setning er krufin og greind og minnstu túlkunaratriði alltaf látin halla í ákveðna átt. Kannski bara hið besta mál, svo því sé haldið til haga.
En um leið er ekki furðulegt að þegar vinstrimenn eru við völd að þá er aðhaldið svo gott sem ekkert. Auðvitað eru einn eða tveir fjölmiðlar á tánum eins og sést í dag hjá Viðskiptablaðinu og Morgunblaðinu, en hinir steinþegja yfir jafnvel allra stækustu þvælunni.
Og þannig er það bara. Við vitum það, búumst við því og ættum að geta bent á áróðurinn þegar hann er boðaður með ákveðnu vali á viðmælendum, vali á því sem er fjallað um og hvað ekki, hvaða stóra mál fær litla fyrirsögn og hvaða litla mál fær stóra fyrirsögn.
Ég rakst á nýlegt dæmi um frétt sem er sögð á mismunandi hátt, allt eftir því hvaða blaðamaður heldur á pennanum. Samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum þá bættust 177 þúsund störf við bandaríska atvinnumarkaðinn í apríl, og yfirgnæfandi í einkageiranum. Eru þetta góðar fréttir eða vonbrigði fyrir yfirvöld? Vísbending um jákvæða þróun eða neikvæða?
Jákvæða, segir Hvíta húsið, enda mun hærri tala en greinendur höfðu búist við (rúmlega 130 þúsund störf).
Neikvæða, segja blaðamenn, því mánuðinn á undan sköpuðust mun fleiri störf og vöxturinn því að hægja á sér. Vöxturinn var bara rétt yfir spám.
Það mætti kannski segja að bæði sé rétt og að með því að lesa tvær túlkanir á sömu tölfræði megi fá einhvers konar heildarmynd. Því miður hafa blaðamenn samt sjaldan áhuga á slíku. Þeir eru ýmist í stjórnarandstöðu eða hlutverki illa launaðra blaðamannafulltrúa valdhafa. Einhver teikn eru á lofti að þetta gæti verið að breytast, meðal annars vegna mikillar vinnu óháðra blaðamanna og hlaðvarpsstjórnenda sem stóru miðlarnir neyðast til að fylgjast með og taka mark á, en höldum ekki í okkur andanum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:45 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning