Fimmtudagur, 1. maí 2025
Skattar eru innanlandstollar
Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig Donald Trump laðar fram það besta í fólki. Nú hefur honum tekist að galdra fram einarða andstöðu við tolla hjá andstæðingum sínum, sem margir hverjir hafa hingað til ekki lagst mikið gegn því að ríkið geri upptækan hluta af sjálfsaflafé fólks og fyrirtækja.
Svona er skemmtilega komist að orði í aðsendum pistli á Viðskiptablaðinu og má svo sannarlega taka undir.
Það þarf ekki að vera aðdáandi Trumps eða taka undir það sem hann segir til að sjá að ef hann gerir eitthvað eða segir þá telja flestir andstæðuna vera hið rétta.
Hann gæti kallað himininn bláan og langar greinar birtast um að himininn sé í raun grænn eða litlaus.
Þetta eru ekki að mínu mati nein Trump-áhrif. Trump er bara einn stjórnmálamaður af mörgum sem kemur og fer. Þetta er miklu frekar dæmi um áhrifagirni okkar. Okkur er sagt hverjir eru vitleysingar og hverjir ekki, hverjum má og hreinlega á að trúa á og hverjum ekki, og svo tekur við að rekja orð vondu kallanna og taka sér andstæða afstöðu.
Frekar en að reyna finna sannleikskornið eða mótrökin.
Við treystum kjörnum fulltrúum og blaðamönnum fyrir því að sía svona úr upplýsingastreyminu endalausa og endum oftar en ekki á að sprauta eða skattleggja okkur til dauða, eða fjármagna sprengjuregn á saklaust fólk.
Kannski er hægt að gera betur en þetta, kannski ekki.
Eftir stendur að heimurinn lítur núna illum augum á tolla, og það er alveg ljómandi gott. Aukist sá skilningur til að ná yfir skatta líka - enn betra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:52 | Facebook
Athugasemdir
Skattar eru skattat tollar eru tollar.
Ertu loksins búinn að átta þig á því að tollar eru greiddir af endanlegum notanda, ekki útflytjendum?
Skattar og tollar eru í eðli sínu ólíkar fjáröflunarleiðir ríkisvalds, skattahækkun í ríki A skerðir ekki útflutnig til ríkis B eins og tollar, með óumflýjanlegum gagntollum, til ríkis B gera.
Ættir að kynna þér hvað leiddi til kreppunnar miklu á millistríðsárum síðustu aldar. Hún varð ekki þetta djúp vegna skattahækkanna.
Bjarni (IP-tala skráð) 2.5.2025 kl. 20:34
Leiðir til að flá neytandann hafa mörg nöfn, svo sem tollar, skattar, vörugjöld, umbúðagjöld, græn gjöld, leyfiskostnaður og eftirlitsgjöld. Þau hafa auðvitað mismunandi áhrif. Tollar geta komið í veg fyrir að vörur komist á hilluna á meðan skattar geta stuðlað að því að þær yfirgefi aldrei hilluna.
Síðan er það auðvitað evrópska leiðin sem er að setja upp tæknilegar hindranir.
Já, afríski hnetubóndi, auðvitað máttu senda hneturnar þínar til Evrópu og græða á evrópskum neytendum. Við erum mannvinir sem styðja við frjálsa verslun!. Mundu bara að senda með rekjanleikaskjölin, vottanirnar, innihaldslýsinguna og útskýringar á því hvernig þið starfið í samræmi við evrópska vinnulöggjöf. Ha, er allt þetta skrifræði of dýrt? Jæja, vertu þá heima hjá þér.
Geir Ágústsson, 3.5.2025 kl. 08:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning