Í Danmörku voru nemendur í efstu bekkjum grunnskóla lengi vel metnir á félagslegum og faglegum forsendum hvort þeir væru tilbúnir í næsta skólastig.
Þetta þýddi að kennarar litu ekki bara til einkunna heldur líka til þátttöku í hópastarfi, mætingar og til þess á hvaða vegferð nemandi var á: Voru einkunnir á uppleið eða niðurleið? Var þátttaka í kennslunni að aukast eða minnka?
Væri nemandi ekki metinn tilbúinn þá beið hans einfaldlega að endurtaka seinasta árið í grunnskóla. Hann fengi ekki að sækja um næsta skólastig ef hann væri ekki metinn tilbúinn til þess.
En Danir hafa núna breytt þessu fyrirkomulagi og líta núna mun meira til einkunna og mun minna til annarra þátta.
Frá skólaárinu 2024-25 þurfa nemendur í 8., 9. og 10. bekk ekki lengur að gangast undir mat á undirbúningi fyrir nám (UPV) áður en þeir geta fengið inngöngu í framhaldsskóla.
Afnám UPV þýðir að nemendur þurfa ekki lengur að vera metnir út frá persónulegum, félagslegum og verklegum forsendum.
Ekki man ég eftir rökstuðningi að baki þessari breytingu. En það sem mér sýnist vera að gerast á Íslandi er að verið sé að stefna að kerfinu sem Danir voru að leggja niður. Væri það ekki alveg rosalega sniðugt?
Ég man vel eftir 10. bekk og kapphlaupinu að undirbúa sig fyrir samræmdu prófin. Ég man í kjölfarið eftir spennunni að sjá hvort fyrsta val í framhaldsnám færi í gegn. Og ég man mjög vel eftir þeim sem komust inn í metnaðarfullan menntaskóla á grundvelli búsetu og var skolað hratt út á fyrsta námsárinu. Samræmdu prófin virkuðu mjög vel sem mælikvarði og gaf framhaldsskólum góða möguleika á að fá réttu nemendurna fyrir þeirra tiltekna námsframboð.
Svona rétt eins og hitamælir er ljómandi góður til að mæla hitastig vatns. Það þarf ekki að innleiða sjónrænt mat á uppgufun, mæla að auki leysni vatnsins eða telja fjölda loftbóla í því. Hitastigsmælingin er alveg næg, og raunar alveg frábær.
Eða þar til stjórnmálamenn fara að mynda sér skoðun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning