Laugardagur, 5. apríl 2025
Nýr rektor, hvað með það?
Ekki man ég nafnið á rektor Háskóla Íslands þegar ég var þar í námi. Kannski af því það skipti ekki máli. Kennslan fór fram í VR-II að mestu sem er gamalt en hlýlegt hús. Samlokugrillið var mikið notað. Bókasafnið var ljómandi fínt. Þegar kom að því að skrifa lokaritgerðina fékk ég hluta af skrifstofu út af fyrir mig og borðtölvu til afnota.
Einstaka sinnum þurfti að fara yfir Suðurgötuna þar sem lögfræðingarnir, tungumálin, viðskiptafræðin og annað var til húsa. En sem betur fer sjaldan.
Námið var líka ágætt þótt kennararnir hafi verið af öllu tagi: Undirbúnir eða ekki, góðir að útskýra eða ekki, miklir um sig á sviðinu eða ósýnilegir með öllu. Mér gekk betur og betur eftir því sem leið á námið og toppaði á lokaárinu. Þá var maður líka búinn að læra hvar aðstoð var að finna og hvaða prófessorar nenntu að veita hana.
En ekki vissi ég hvað rektor skólans hét. Það skipti ekki máli.
Einu sinni stefndi Háskóli Íslands hátt þegar kom að mælingum á gæðum námsins. Núna snýst allt um fjölbreytileikann. Ekki veit ég til þess að hann hafi nokkurn tímann vantað í Háskóla Íslands. Það vantaði fleiri tölvuver á sínum tíma en fartölvurnar hafa líklega tekið við af þeim.
Einu sinni var talið hollt fyrir nemendur að takast á við mikið af erfiðu heimanámi en að auki rækta félagslíf og kynnast fólki og gera háskólanámið nánast að lífi sínu á meðan sá stutti tími varði. Kannski er áherslan í dag komin annað - á fórnarlambamenninguna sem rektor virðist ætla að keyra fast á frá fyrsta degi í embætti.
Ég vona að þjáningasystkini mín í VR-II séu samt ekki þar heldur djúpt í Matlab-kóða og Calculus-æfingum og að hamast langt fram á nótt við skilaverkefni í tölulegri greiningu. Þeir geta svo yljað sér við þá staðreynd að þótt hver einasta formúla muni ekki nýtast þeim á vinnumarkaðinum þá mun skrápurinn sem námið myndar tvímælalaust gera það.
![]() |
Ekki að kjósa enn eina konuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:55 | Facebook
Athugasemdir
Sé ekki betur en fjölbreytileikinn og kynjafræðin séu
á góðri leið að eyðileggja allt sem gott er.
Sigurður Kristján Hjaltested, 5.4.2025 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning