Föstudagur, 14. mars 2025
Að fara í boltann, ekki manninn
Í fótbolta er regla þegar kemur að tæklingum: Ef tæklingin miðar á boltann en ekki manninn þá er hún lögleg, jafnvel þótt maðurinn sem var með boltann detti á rassgatið í kjölfarið. Fari tæklingin beint í manninn, og miðar á hann en ekki boltann, þá er gefin aukaspyrna eða spjald.
Reglan er sú að það sé í lagi að fara í boltann en ekki manninn.
Þetta má auðvitað heimfæra á mjög margt, en ég tek hérna stjórnmálin sem dæmi.
Segjum sem svo að einhver bendi á að milljónir af skattfé fossi úr sjóðum skattgreiðenda og inn á reikning lögfræðistofu af því að einhver yfirmaður innan sýslumannsembættisins, og meðeigandi sömu lögfræðistofu, hefur beint öllum ágreiningsmálum í ákveðna átt. Er sá sem afhjúpar þá svikamyllu glæpamaðurinn og ber að húðskamma fyrir að stuðla að lægri tekjum lögfræðinga, eða sá sem mjakaði milljónunum í eigin sjóði?
Væntanlega augljóst svar, en maður veit aldrei.
Þegar einhver hrópar að keisarinn sé nakinn er aldrei að vita hvort viðkomandi fái hrós eða skammir. Það virðist skipta meira máli hver hrópar en hvað hann hrópar. Þetta er ekki uppbyggilegt. Miklu frekar ætti að taka slíkar upphrópanir með fyrirvara, rannsaka sannleiksgildið og taka síðan næsta skref. Var rétt frá sagt? Var um lygi að ræða? Ef sá sem hrópaði var að ljúga má vitaskuld benda á að trúverðugleiki viðkomandi hafi skaðast. Hafi viðkomandi sagt rétt frá, þvert á andmæli ríkjandi viðhorfa, þá má hrósa fyrir að benda á nakinn keisara.
Að fara í boltann en ekki manninn er samt ekki í tísku.
Þetta blasir við þegar evrópsk fjölmiðlaumfjöllun um bandarísk stjórn- og samfélagsmál ber á góma. Þar skiptir eingöngu máli hver sagði hvað, en ekki hvað viðkomandi sagði.
Þetta blasir við þegar fjölmiðlar utan Þýskalands fjalla um stjórnmál í Þýskalandi, og vilja meina að fjórðungur Þjóðverja sé orðinn að öfgahægrimönnum.
Þetta blasir við þegar við fjöllum um orkuframleiðslu og væga gagnrýni á að treysta algjörlega á vindinn, vatnið og sólina til að hita hús og knýja skip, bíla, ljósaperur og eldavélar.
Það er gaman að horfa á fótboltaleik þar sem leikmenn fara í boltann en ekki manninn. Kannski eru flestir sammála því en finnst svo hið gagnstæða eiga betur við þegar kemur að því að ræða stjórnmál og samfélagsmál. Þá það, en ég reyni að fylgja fótboltareglunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:04 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning