Miðvikudagur, 12. mars 2025
Áhugamenn
Það kemur ekki sjaldan fyrir að ég hugsi með mér að stjórnmálastéttin á Íslandi sé mönnuð að miklu leyti af áhugamönnum, þ.e. fólki sem veit ekki alveg hvað það er að gera, hvernig á að skila af sér vinnu og hvernig á að taka skynsamlegar ákvarðanir. Auðvitað á ekki að taka einstaka fréttir af eintaka klúðri of langt og byrja að alhæfa um alla byggt á klúðri fárra, en að nokkrar fréttir á viku fái mig til að hugsa svona kemur mér einfaldlega á óvart.
Kannski laða stjórnmálin að sér of marga sem hafa enga reynslu í atvinnulífinu eða raunhagkerfinu þar sem samskipti þurfa að vera í lagi og samvinna sömuleiðis því annars tapast mikið fé og mikill tími.
Kannski er of auðvelt að gerast stjórnmálamaður á Íslandi - of margir lausir stólar miðað við mannfjölda. Sveitastjórnarstólarnir eru margir og ráðherraembættin mörg. Allir hafa svo sína aðstoðarmenn og ráðgjafa, skrifstofustjóra og varamenn. Ég sé fyrir mér skipurit með 100 einstaklingum þar sem 40 af þeim sitja í stjórnendastöðum, 20 þeirra mynda stoðdeildir og eftir standa 40 einstaklingar til að halda uppi öllu saman.
En þarf ekki lög og reglur? Ekki viljum við ringulreið! Það þarf að gefa út leyfi og halda úti eftirliti svo menn byggi ekki svalir sem hrynja eða steiki kjúklinginn of lítið, ekki satt?
Gott og vel, en hérna missir kerfið líka marks. Fólk úti í bæ er látið hamast svo mánuðum og árum skiptir að sækja um allskyns leyfi sem engu skipta á meðan á öðrum stað rís risavaxinn veggur sem skyggir á heilt fjölbýlishús. Fyrirtæki eru kaffærð í eftirlitsmönnum á meðan hvergi sést til lögreglumanns.
Stækkunarglerið er á einu auganu en leppur á hinu og kerfið labbar í hringi í kringum sjálft sig.
Það væri kannski til ráða að fækka töluvert öllum þessum stólum og stofnunum, fækka reglum og færa þær nær heilbrigðri skynsemi og krefjast þess að frambjóðendur sýni starfsferilskrár sínar þegar þeir sækjast eftir kjöri. Mig grunar að að gæti bætt aðeins úr áhugamennskunni sem virðist ríkja núna.
![]() |
Töldu það ekki sitt að upplýsa bæjarstjórann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:16 | Facebook
Athugasemdir
Það er stórskemmtilegt að fylgjast með Trump í baráttunni við spillinguna sem er búin að grassera í Bandaríkjunum og um öll vesturlönd. Ég geri mér töluverðar væntingar um árangur sem gæti smitast til Íslands. Gengdarlaust virðingarleysi fyrir skattfé Íslendinga verður að stöðva. Lítið dæmi: 5800.000.000.- til Úkraínu á bara þessu ári til að framlengja ógeðslegu stríði. Ég tel afar líklegt að þessir fjármunir lendi í einhverjum vösum útvaldra. Þetta er hreinn og klár þjófnaður. Það er ekki hægt að ganga út frá því að ráðamenn séu einfeldningar.
Kristinn Bjarnason, 12.3.2025 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning