Fylgi Sjálfstæðisflokksins

Um daginn hélt Sjálfstæðisflokkurinn landsfund. Slíkur viðburður er vægast sagt risastór samkoma þar sem færri komast að en vilja. Þar er skipað í málefnanefndir sem færri komast að en vilja. Þar er kosið í stjórn flokksins og oft hart tekist á, þá bæði á sjálfum landsfundinum en líka í félögum flokksins sem tilnefna fulltrúa á landsfundinn. Lýðræðisveisla í öllu sínu veldi, og með öllu sem slíkri veislu fylgir, gott og skítt.

Þessi hefð flokksins nær áratugi aftur í tímann og aftur í tíma þar sem flokknum gekk vel en líka illa. Markmiðið er að vera flokkur sem berst fyrir hagsmunum hinna vinnandi stétta en líka flokkur sem býr til öryggisnet fyrir þá sem missa fæturna, án þess samt að láta það net flækjast í vinnandi fólk og toga það á hafsbotn. Auðsköpun og vöxtur, en líka bakland og umhyggja, ef svo mætti segja. 

Þessi flokkur er í dag að rembast við að vera 20% flokkur og ekki finnst mér að ný stjórn flokksins sé að fara breyta miklu þar.

Nema fyrir eitt atriði: Alveg stórkostlegt hæfileikaleysi ráðandi afla í Reykjavík og í Stjórnarráðinu.

Í Reykjavík hefur fimm flokka svokallaður meirihluti ákveðið að rústa fjárhag borgarinnar endanlega. Þá meina ég endanlega. Sjálfstæðisflokkurinn er nú þegar farinn að sjá viðbrögð kjósenda við slíkum áformum.

Í Stjórnarráðinu blasir nánast við að Flokkur fólksins mun þurrka sjálfan sig út og að allskyns loforð ríkisstjórnarinnar eru smátt og smátt að breytast í skýrslur sem enda ofan í skúffu. Nýjasta nýtt þar er að eftir mikla yfirlegu yfir opinberum fjármálum, byggða á þúsundum athugasemda um leiðir til sparnaðar þar, hefur tekist að finna leiðir til að spara í ríkisútgjöldum um 1% á ári, að mér skilst, sem er dropi í hafið fyrir ríkissjóð sem skuldar svimandi fjárhæðir og safnar töluvert hærra hlutfalli í skuldir á hverju ári.

Sjálfstæðismenn þurfa því ekki að gera neitt til að auka fylgi sitt. Ekki að tala um áherslur. Ekki að minna á hugsjónir. Ekki að tala um að báknið þurfi að víkja og heilbrigð skynsemi að snúa aftur, svo sem í því að moka körlum úr kvennaklefum eða hvetja til friðar frekar en átaka. Nei, Sjálfstæðismenn geta hallað sér aftur og sjá fylgi sitt aukast í boði annarra flokka. Einfalt mál. Sama gildir raunar fyrir aðra flokka í minnihluta.

Ef ég ætti veðmálasíðu myndi ég setja lágan stuðul við að Sjálfstæðisflokkurinn í bæði borg og ríki fái yfir 30% fylgi í næstu kosningum.

Þetta er í raun magnað en um leið sorglegt. Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn þarf í raun ekki að skerpa á áherslum sínum, gera sig að raunverulegum valkosti við miðjumoðið og tala um hugsjónir frekar en daður við skoðanakannanir.

Hugsjónabaráttu hægrimanna frestað um ófyrirséðan tíma.

En ég vil nú samt hvetja til bjartsýni. Flokkar sem vilja eyða sjálfum sér eru orðnir þó nokkrir undanfarin ár, og virðist enn fjölga, og fjórflokkurinn að nálgast sífellt meira. Það er formúla sem við skiljum, þrátt fyrir allt. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband