Sunnudagur, 2. mars 2025
Heilbrigð-skynsemi stefnan
Þá er komin ný forysta í Sjálfstæðisflokknum og þótt ég sé ekki flokksbundinn og hef ekki verið í áratugi þá hef ég alltaf ákveðnar taugar til flokksins og minnist oft áranna þar sem ég skrifaði fyrir vefrit Heimdallar sem þá var og hét, frelsi.is.
Frambjóðendur til trúnaðarstarfa hafa allir talað á einn veg: Flokkurinn hefur týnt rótum sínum og þarf að finna þær aftur og verða á ný breiðfylking sem getur með góðri samvisku talað um að vilja báknið burt og vinna fyrir allar stéttir. Nú þegar flokkurinn er í minnihluta ætti slíkt að vera auðvelt og ekki annað að sjá en að meirihlutinn ætli að gera starf stjórnarandstöðu eins auðvelda og hægt er. Það í sjálfu sér ætti að skila atkvæðum án áreynslu.
En gefur nýr formaður strax tilefni til svartsýni?
Ég ætla ekki að draga Sjálfstæðisflokkinn út á ystu nöf í sitt hvora áttina, sagði Guðrún og vísaði til annars vegar Viðreisnar til vinstri á hægri vængnum og Miðflokksins til hægri á sama væng. Ég ætla að vera breiðfylking.
Mér sýnist það. Hvaða hugsjónir liggja að baki því að ætla sér fyrst og fremst að vera stór flokkur?
Hvað er það við Miðflokkinn sem staðsetur hann lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkinn?
Þetta var mögulega alveg glötuð yfirlýsing.
Flokkar geta orðið stórir með tvennum hætti:
- Að lofa öllu fyrir alla og vona að kjósendur hafi gleymt öllum svikunum í næstu kosningum. Mér dettur hér í hug þýskir miðjuflokkar.
- Að halda á lofti skýrri og róttækri hugsjón sem er mögulega meðal sem bragðast illa í einhvern tíma en skilar sér í breytingum til batnaðar yfir lengri tíma. Mér dettur hér í hug borgarstjórinn Davíð Oddsson á sínum tíma, og jafnvel forsætisráðherrann Davíð Oddsson, og forseti Argentínu í dag, Javier Milei.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú þegar ákveðið að mörg góð stefnumál Miðflokksins, sér í lagi í innflytjendamálum, séu of langt til hægri, þá er strax búið að taka feilspor.
Ég tek eftir því í bandarískri umræðu að sumir vilja síður tala um hægri-vinstri og frekar að tala um heilbrigða skynsemi, og þá sem eru á móti henni.
Auðvitað eiga karlmenn ekki að keppa við kvenmenn í íþróttum, eða deila með þeim búningsklefa!
Auðvitað eiga landamærin ekki að vera hriplek!
Auðvitað á að taka á óráðsíunni í opinberum fjármálum og minnka skattheimtuna!
Auðvitað á fyrst og fremst að eyða auðlindum og verðmætaframleiðslu í eigin þegna og þá sem eiga um sárt að binda innanlands frekar en allt aðra!
Ekki hægri-vinstri, heldur heilbrigð skynsemi og andstæða hennar.
Ég vona að mér skjátlist um að glænýr formaður hafi nú þegar sent flokkinn á framhald í eyðimerkurgöngu sinni en vona þá að hún hafi góða að til að leiðrétta sig.
![]() |
Ég ætla að vera breiðfylking |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins skulu færðar hugheilar árnaðarkveðjur. En þessi 2.100 manna landsfundur sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er alvöru flokkur en í hrikalegri krísu. Hann hefur altof lítið fylgi og býr við forystukreppu og endalausum minnihluta í borginni og í þingkosningum fyrir nokkrum vikum fékk hann aðeins 19.4 prósent atkvæða og er nú í stjórnarandstöðu. Flokkur með jafn rosalega grasrót, heilan her af eldkláru fólki, og þessi sem við sáum á landsfundinum á að geta gert miklu margfalt betur.
Til samanburðar hélt hinn svokallaði "Flokkur fólksins" 70 manna landsfund á dögunum sem var þó vel auglýstur gegnum endalausa skandala í aðdragandanum. Ef frá voru dregnir þingmenn þess "flokks" og makar og þeir sem eru í stjórn flokksins og starfsmenn voru þar varla fleiri en 30 til 40 óbreyttir flokksmenn á "landsfundinum". Það er svona eitt til tvö prósent af þeim fjölda sem var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú um helgina. Þrátt fyrir að það séu augljóslega fáir sem engir félagar í "Flokki fólksins" samkvæmt þessu, engir innviðir og ekkert stjórnmálastarf og ekkert lýðræði í reynd því það er nánast enginn í "flokknum" (og lýðræði yfir ekki stundað þar þó fólkið væri til staðar) fékk þessi vægast sagt vafasami eldhúsklúbbur Ingu Sæland 13.9 prósent atkvæða í þingkosningunum. Það er aðeins 5,5 prósentum minna en Sjálfstæðsflokkurinn. En "Flokkur fólksins" sem er alls ekki stjórnmálaflokkur er nú bæði í ríkisstjórn og meirihluta í borginni.
Allt réttsýnt fólk sér að sjálfsögðu að við svona búið má ekki standa. Það er lífsnauðsyn fyrir íslenska þjóð að Sjálfstæðisflokkurinn fái byr í seglin, vinni meirihluta í borginni næsta vor, felli sem fyrst núverandi ríkisstjórn og forði okkur frá því stórslysi fyrir lýðræðið og þjóðfélagið í heild sem gerist ef ekki verða bráðar breytingar og heilbrigð stjórnmálaöfl ná tökum á þjóðarskútunni.
Grímur Kamban (IP-tala skráð) 2.3.2025 kl. 17:25
Þeir hafa verið Samfylking II síðan Davíð hætti.
Þeirra mistök, því kjósendur Samfó kjósa ekkert sem heitir Sjálfstæðisflokkur, saa hversu fasískur hann er, og Sjálfstæðismenn eru að flýja leftismann í flokknum eins og hann er orðinn.
Það er bara pláss fyrir eina samfylkingu.
Ásgrímur Hartmannsson, 2.3.2025 kl. 18:09
Heilbrigð skynsemi heitir í dag öfga hægri sem fólk virðist hræðast gífurlega. Mér finnst þessi yfirlýsing að ætla sér að verða miðju moðsuða vægast sagt ekki lofa góðu. Að verða samfylking nr.3. Ég veit hreinlega ekki hvernig hægt er að losna úr gíslingu ráðamanna á meðan almenningur fellur endalaust fyrir kosningaloforðum sem verður ekki staðið við.
Ég gerði mér engar vonir um að þessar konur sem stýra í dag stæðu undir væntingum eða stæðu við einhver kosningaloforð. Ég hefði viljað sjá í kosningaloforðum að fyrstu verk stjórnarinnar væri auka all hressilega fjárframlög til að drepa fólk.
Kristinn Bjarnason, 3.3.2025 kl. 14:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.