Miðvikudagur, 26. febrúar 2025
Stækkkunargler á stærri vanda
Ímyndum okkur mann með sjúkdóm. Það sést lítið á honum að hann sé þjakaður af sjúkdómi. Ekkert að litarhaftinu. Hann virðist vera orkumikill. Þegar hann segir læknunum að það sé eitthvað að þá trúa þeir honum ekki og senda hann heim. Á hverjum degi nær sjúkdómurinn til fleiri og fleiri líkamshluta.
Dag einn fellur hann til jarðar og þarf að fara á sjúkrahús og jafnvel gjörgæslu. Hann tórir en er nú orðinn svo alvarlega veikur að baráttan verður löng.
Ímyndum okkur svo annan mann. Hann fær sama sjúkdóm en bregst öðruvísi við og verður strax mjög lasinn og fær strax þá athygli sem hann þarf á að halda til að komast aftur á rétta braut.
Svona sé ég fyrir mér íslenska hagkerfið þegar ég les um vandræði Landsvirkjunar með að fá nauðsynleg leyfi. Fyrirsagnir taka fyrir vandræðin, ráðherra leggur strax fram frumvarp til að liðka til í reglugerðarfrumskóginum og meira að segja Hæstiréttur sýgur málið beint til sín úr héraðsdómi til að sjá hvað í ósköpunum er á seyði. Þegar sjúkdómurinn sem skrifræðið er fyrir samfélagið nær til Landsvirkjunar verða áhrifin svo stór og augljós að allir stökkva til.
Berum þetta saman við eiganda litla fyrirtækisins. Hann fær líka sínar neitanir, sínar beiðnir um að fylla út og sækja um hitt og þetta og sínar heimsóknir frá yfirvöldum sem rukka hann vel fyrir greiðann. Hann hefur þurft að hætta við áform eða seinka þeim gegn ærnum kostnaði.
En höfum eitt á hreinu. Vandamál hans eru þau sömu og Landsvirkjunar en af því að samfélagið, sem samanstendur aðallega af smærri þátttakendum, virðist vera lifandi og heilbrigt þá gerir enginn neitt. Ekki fyrr en það er orðið of seint auðvitað.
Það væri óskandi að stjórnmála- og blaðamenn skildu þetta.
![]() |
Leyfismálin valda orkuskorti á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning