Mánudagur, 24. febrúar 2025
Eru Danir rasistar og fasistar?
Hægri-öfgaflokkar, svokallaðir, vilja takmarka streymi flóttamanna og hælisleitenda inn í velferðarkerfi ríkja sinna. Þeir eru rasistar og fasistar. Lýðskrumarar. Ekki stjórntækir. Þá ber að fordæma og forðast.
Nema auðvitað að þeir kalli sig danska og sósíaldemókrata.
Blaðamaðurinn Alex Berenson bendir á að danska leiðin undanfarin ár er orðin að fordæmi fyrir flokka víða í Evrópu. Danir hafa séð að sér þegar kemur að því að breyta heilu hverfunum í framandi menningarsvæði, bókstaflega. Þeim er að takast að lokka innflytjendur og afkomendur þeirra af fyrstu og annarri kynslóð inn á vinnumarkaðinn. Þeir sem þáðu bætur borga skatta. Þeir sem brutu lög vinna heiðarlegan vinnudag.
Öfga-hægrið í Evrópu, á tungutaki blaðamanna, eru danskir sósíaldemókratar.
Sósíaldemókratar unnu margt með þessu. Þeir útrýmdu vaxandi samkeppni við aðra flokka með því að stilla sig inn á breytingar í vali kjósenda. Þeir tryggja völd sín og áhrif. Þeir halda sínu. Það kæmi mér ekkert á óvart ef næsta ríkisstjórn Þýskalands gerði eitthvað svipað, svona í ljósi þess að allt Austur-Þýskaland og að meðaltali fimmtungur Þjóðverja er að kjósa svokallaða rasista og fasista.
Svona stefnubreytingu geta jafnaðarmenn gert með einfaldri breytingu í tungutaki. Velferðarkerfi? Já, auðvitað. Fyrir skattgreiðendur og vinnandi fólk fyrst og fremst? Að sjálfsögðu. Fyrir allskonar aðra? Nei, helst ekki.
Þetta tungutak er aðeins byrjað að sleikja íslensk stjórnmál, en varla samt. Íslendingar þurfa að endurtaka mistök annarra frekar en að læra af þeim. Þá það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:12 | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Geir.
Það eina sem vantar inní pistil þinn, því hann snérist ekki um vörn gegn þjóðarskiptum heldur aðlögun glóbalsins að þeim skiptum, er árafjöldinn sem þú telur að þurfi að skipta um þjóð.
Að þínum dómi snýst þetta aðeins um þörf atvinnulífsins fyrir nýtt vinnuafl.
Shit með menningarheima sem geta ekki aðlagast, shit með beina afleiðingu þess sem er Ríkið í ríkinu, hvort sem glæpaklíkur stjórna þessu Ríki eða múslímskir öfgamenn.
Vegna þess Geir minn að þú ert frjálshyggjumaður, trúir ekki á gildi þjóða eða gildi samfélaga, hvort sem þau eru nær eða fjær.
Pössum bara uppá vinnuna segir þú, aukaatriði er hvernig innflutningurinn breytir menningunni sem og þjóðinni.
Gott og vel, trúi reyndar ekki orði um að lausn Evrópu séu þjóðarskipti, ef þau eru hagkvæm, og ég hygg að allavega Þjóðverjar eru sammála mér.
Gleymum ekki Geir að skýring að þó lágmarksfylgi meintra hefðbundna flokka í Norður Evrópu, hvort sem það er stuðningur múslima við breska verkamannaflokkinn, þó stöðu sænskra krata, það að Frakkar hafa ekki ennþá náð að vinna kosningar þar í landi, er vegna þess að innflytjendur kjósa gegn þjóð og þjóðríki.
Það eru ekki Íslendingar sem skýra völd Samfylkingarinnar í Reykjavík eða í ríkisstjórninni.
Geir, þetta snýst ekkert um fjármuni, um hvernig meintir sérfræðingar geta flakkað á milli landa.
Þetta snýst um þjóð og það að vera þjóð.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.2.2025 kl. 16:14
Ómar,
Takk fyrir innlitið og athugasemdina.
Þú ert kannski að skrifa athugasemd við annan pistil. Ég er mikill stuðningsmaður menningar og flestra okkar hefða, og mjög meðvitaður um að samfélag okkar er með rætur í kristinni trú þar sem menn sjá um sig og sína og taki þátt í að hjálpa öðrum - til sjálfshjálpar helst.
Í Danmörku sting ég ekki í stúf. Ég tala tungumálið, borða rúgbrauð og drekk Tuborg. Ekkert af þessu er þvingað. Mér líkar ágætlega við samfélagið. Aðeins betur við það íslenska en er ekki að þröngva harðfisk og brennivíni upp á Danina.
Það tekur um það bil einn mannsaldur að skipta Íslendingum út á Íslandi miðað við núverandi þróun, og það er sorgleg þróun sem enginn ætlar að bremsa.
Geir Ágústsson, 25.2.2025 kl. 20:41
Nei Geir, ég lagði út af honum.
Þjóðarskipti eru ekkert skárri þó menn borgi skatta, læri að borða smörrebröd og drekki Tuborg.
Danska leiðin er ekki til útflutnings og innrásina í Evrópu þarf að stöðva.
Ekki vegna þess að þetta er vont fólk, þetta er bara fólk eins og við hin, en þjóðirnar sem eru fyrir eiga líka sinn tilverurétt.
Og hana nú.
Fannst reyndar pistill þinn fínn en það er önnur saga.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.2.2025 kl. 08:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.