Miðvikudagur, 12. febrúar 2025
Ráfað um án mælikvarða
Í sérhverri starfsemi er stuðst við mælikvarða. Fyrirtæki reyna að skila hagnaði, heimili reyna að eiga afgang þegar allir reikningar hafa verið greiddir. Verslanir reyna að fjölga viðskiptavinum og opinberar stofnanir reyna að vera röngu megin við núllið í lok fjárlagaársins til að missa ekki af fé við næstu úthlutun.
Mælikvarðar, mælingar, gagnasöfnun og eftirfylgni þegar tölurnar þróast í ranga átt.
Með því móti þarf ekki að treysta á stöðupróf frá útlöndum til að sjá að allt er komið í kalda kol.
Nema í grunnskólum Reykjavíkur auðvitað.
Þar þykir of dýrt og tilgangslaust að prenta út nokkur skrifleg próf til að meta stöðu menntunar. Fyrirtæki sem væri svona rekið væri komið á hausinn ansi fljótt eftir að hafa eytt um efni fram í yfirbyggingu og stjórnendastöður í stað viðskiptaþróunar og aðlögunar á úrvali vöru og þjónustu að síbreytilegum markaði.
Sonur minn er í gagnfræðiskóla í Kaupmannahöfn. Hann var í stöðuprófi í nokkrum fögum um daginn. Í kjölfarið fer fram mat á því hvar hann er sterkur og hvar þarf að bæta aðeins í. Í lok næsta vetrar, eftir nokkur stöðupróf í viðbót, er úr því skorið hvort hann sé tilbúinn í framhaldsskóla eða þurfi að endurtaka eitthvað á grunnskólastigi. Allt er þetta tekið mjög alvarlega og byggt á ítrekuðum mælingum. Í þessu er engin nýlunda því svona man ég líka eftir mínum grunnskólaárum í Árbæjarskóla þar sem voru tvö próftímabil á ári og meira að segja hægt að velja hægfærð, miðferð og hraðferð í helstu fögum eftir því hvað maður sjálfur taldi við hæfi. Þetta endaði svo á samræmdum prófum sem var mikil stemming í kringum og framhaldsskólar gátu svo nýtt sér einkunnir til að vega og meta hvaða nemendur voru taldir líklegir til að komast í gegnum námsefni þeirra (nema í tilviki þeirra sem gátu kallað þann framhaldsskóla hverfisskóla sinn, en þeir voru flestir dottnir út eftir fyrsta árið og var sennilega ekki gerður neinn greiði með þeim vonbrigðum og sóun á tíma).
Einfalt, gegnsætt, vel prófað, skilvirkt og - vil ég leyfa mér að fullyrða - hagkvæmt. Gott ef gervigreindin geti ekki séð um megnið af yfirferðinni í dag!
En í Reykjavík verður matsferillinn, nýtt samræmt námsmat, prufukeyrður í 26 skólum - einhvers konar hringrás með gátlistum sem ofkeyrðir kennarar eiga nú að bæta á sig ofan á allt annað, gegn því að fá óbreytt laun en kannski aðeins lengri vinnutíma.
Góður maður sagði mér einu sinni frá X-grafinu svokallaða sem sýndi annars vegar einkunnir á stígandi uppleið en námsárangur samkvæmt PISA-prófum á sígandi niðurleið. Það segir ýmislegt um þá blindu vegferð sem grunnskólakerfið hefur verið sett á: Eyðsla upp, laun niður. Einkunnir upp, námsárangur niður. Kennsla aukin, menntun minnkar. Námsskrá lengd, nám minnkað. Samræmd próf tekin út, samræmd rýrnun á grunnskólagöngunni innleidd.
![]() |
Dýr og flókin framkvæmd með „lítinn tilgang“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Geir, hvaða væl er í þér??
Þó þér sé illa við kerfið, þá í guðanna bænum hættu að tala svona niður krakkana okkar, maður getur orðið fúll að lesa þessa sjálfhverfu.
Í fyrsta lagi þá eru kennarar vel launaðir, ef svo væri ekki þá myndu þeir sinna starfi sínu í stað þess að vera sífellt fjarverandi vegna þess að eitt sumarfrí er löngu hætt að duga þeim fyrir allar utanlandsferðarnar sem þarf að fara yfir árið. Þó nútímakennarinn sé ekki alveg það skýr í höfðinu að fatta að laun og kjör speglast ekki lengur í útborguðum launum, að það sé ekki bæði hægt að krefjast meintra markaðslauna án þess að afsala sér ríkishlunnindum, þá átt þú sem launþegi á almenna vinnumarkaðnum að vita betur. Sem og að markaðurinn hefur lítið umburðarlyndi gagnvart fólki sem stendur sig ekki á einn eða annan hátt. Hættu því að tala um að laun kennara séu að lækka.
Í öðru lagi þá eru börnin okkar genetískt alveg eins og áar þeirra, þar sem dugnaður og kraftur er til staðar, þá munu börnin okkar spjara sig þegar í alvöruna er komið, hvort sem það er í framhaldsnámi eða atvinnulífinu.
Í þriðja lagi, hvað hefur þú fyrir þér að einkunnir upp mæli ekki almenna námsgetu??? Þá er ég ekki að tala um páfagaukalærdóm heldur almenna námsgetu. Er einhver þurrð á námsmönnum í æðra námi hér á Íslandi??, og fara ekki hundruð barna okkar í hverjum árgangi í háskólanám erlendis??? Heldur þú í eina mínútu að erlendu háskólarnir tækju við þessum krökkum ár eftir ár, ef um einhverja þriðja flokks nemendur væri að ræða??
Pisa könnunin segir fyrst og fremst um stöðu innflytjenda á Íslandi sem og vanhæfni hinna ofurmenntuðu masterlærðu kennara okkar að kenna kraftmiklum strákum að lesa. Það segir aðeins um kennarana, ekki strákana.
Svona hroki sem hrjáir þig mjög Geir, sem og skítur frá pakki sem þykist vera frjálshyggju eitthvað og kýs Viðreisn, hefur beinst mjög að minni litlu byggð, og litla skólanum mínum sem útskrifar krakka hér fyrir austan úr framhaldsnámi.
Kennararnir í grunnskólanum sakaðir um einkunnabólgu, litli framhaldsskólinn átti víst samkvæmt frjálshyggju Viðreisnar að vera sá lélegasti af lélegum litlum skólum landsbyggðarinnar.
Kannski þess vegna drifu menn hér fyrir austan í að kanna hvað varð um nemendur eftir útskrift, niðurstaðan var mjög einföld, krakkarnir stóðu sig vel á háskólastigi, líka hjá yfirburðarnýlenduþjóðinni sem þú mærir svo mjög.
Ég þekki til 2004 árgangsins, sem og minna til 2003 krakkanna. Einkunnir úr grunnskólanum endurspeglaði vel árangurinn í VA, þau sem höfðu góðar einkunnir út grunnskólanum stóðu sit vel í framhaldsnáminu, fengu þar góðar einkunnir, og mér vitanlega hafa staðið sig vel í sínu háskólanámi.
Þau sem voru ekki fyrir bókina, og það er bara mjög náttúrulegt og eðlilegt, fóru mörg hver í iðnnám, sum útskrifuð í sínu fagi, fá strax vinnu, og þú veist Geir að einkageirinn hefur ekki efni á slökum starfskrafti. Eða þannig.
Svo hlustar maður á svona væl og skæl.
Auðvita er margt að í skólakerfi okkar, það myndi enginn sérfræðingur halda vinnunni á almennum markaði með 50% falleinkunn eftir 10 ára kennslu, börn koma ólæs inn 6 ára og fara ólæs út 16 ára.
Ruglandinn síðustu 15-20 árin í lestrar og stærðfræðikennslu er slíkur að það má alveg velta því fyrir sér að þegar viðkomandi sem ábyrgðina bera, og bera titilinn sérfræðingar, að hvort að í sérfræðinámi þeirra, eða því námi sem gerðu viðkomandi að sérfræðingum, hafi viðkomandi verið setti í eitthvað tilraunatæki frá CIA sem fjarlægir heilafrumur úr heila viðkomandi, og aðeins 2-3 skildar eftir. Og það er eitthvað mikið að kennarastéttinni að kenna þetta rugl og vitleysu.
Með engum árangri, það er hjá þeim sem hentu viðkomandi framsæknu námsefni ekki beint á haugana.
En krakkarnir okkar eru jafngóð og klár, yndisleg og dásamleg, samt sem áður.
Öll gagnrýni á menntakerfið, sem áttar sig ekki á þeirri staðreynd, er svipuð og nýja kennsluaðferðin í lesrti sem byggðist á því að leyfa börnum að þreifa á hlutum svo þau gætu lesið orðin sem viðkomandi hlutur var kallaður, eða stærðfræðikennslan sem sagði að allir séu Evklíð eða Pýþagóras og því ættu börnin sjálf að uppgötva og þróa frumreglur stærðfræðinnar.
Þú hefur ekki kennaramenntunina þér til afsökunar Geir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.2.2025 kl. 17:31
Ómar,
Þú þarft ekki að vera bifvélvirki til að greina að bíllinn er beyglaður. En þú skilur eftir margt til að hugleiða. Ég hef nokkuð góða innsýn inn í líf kennarans á Íslandi, bæði þess í grunnskóla og menntaskóla, í gegnum ýmis samskipti, og ætla ekki hér og nú að samþykkja að öll vandamál megi skrifa á væl.
En ég geri þetta mál mögulega að frekara efni til skrifa, ýmist á þessum þræði eða nýjum.
Geir Ágústsson, 12.2.2025 kl. 22:06
Það eru öfl í menntakerfinu sem hafa ekki áhuga á að mennta nemendur heldur að innræta þeim þeirra skoðanir.
Það á að hleypa samtökunum 78 inn í grunnskóla til að innræta börnum hinsegin og trans hugmyndir. Feministar vilja koma sinni kynjafræði og kynjungabók að í innrætingu barna. Svo er auðvitað sjálfsagt að fjalla ítarlega um hamfarahlýnun.
Allt þetta á að tryggja að krakkakvikindin verði vók eftir útskrift, skítt með það þó þau kunni ekki að lesa.
Svo ég taki undir með Austfjarðagoðinu, kennarar eru ekki á lágum launum. Þeir eru á svipuðum launum og viðskiptafræðingar og lögfræðingar hjá ríkinu.
Viðskiptafræðingar og lögfræðingar hjá ríkinu sömdu um 3,25% launahækkun í síðustu samningum. Ekkert eymdarvæl þar og barlómur þar um hvað þetta væru vanmetnar stéttir. Engin að brynna músum í fjölmiðlum.
Svona að lokum, "kostnaður fer upp og launin lækka" er oxymoron. Rétt er "kostnaður fer upp, launin hækka en árangur nemenda verður sífelt lakari"
Bjarni (IP-tala skráð) 13.2.2025 kl. 00:24
Blessaður Geir.
Ég var nú bara að tala um væl í þér, og það er ekkert sem segir að menn þurfi að vera menntaðir bakarar til að vera skammaðir fyrir smiðina, hvort sem smiðirnir eru með fagpróf eður ei.
Kannski er ég svona þreyttur á að spóla yfir hluta af hverjum einasta fréttatíma Rúv sem er um þetta væl; æ ó aumingja ég. Eða kannski var ég bara pirraður á að fá tilvísun á feissíðu mína á grein eftir kennara sem fann það út að dómur félagsdóms hafði fallið gegn kennurum því þeir væru konur. Og hún léti ekki lengur segja sér að þegja eða eitthvað.
Ég meina; hvað hefur svona manneskja að gera við kauphækkun??, eða þeir samkennarar hennar sem deila skrifum hennar??
En svona fyrir utan að ég var að æfa puttana fyrir pistil um tré og konur sem taka til eftir stráka, og notaði því fleiri orð en færri, þá var ég að benda þér á þann kjarna að við eigum að geta gagnrýnt handónýtt kerfi án þess að tala niður börnin okkar.
Þau eru frábær og jafnvel slæmt kerfi getur ekki skemmt þau.
Og ég sé að Bjarni vinur minn minntist á vókið hér að ofan, þá láta þau ekki mata sig heldur, það er stærri hlutinn af þeim, veit frá mínum ranni að þau hrista hausinn yfir kjaftæðinu og eru farin að nýta atkvæðisrétt sinn til að kjósa það burt.
Að vera rebel liggur í eðli æskunnar, líkt og þú kaust gegn vitleysunni á sínum tíma Geir með því að leggja út á mið Friedmans og Hayeks, þá kjósa krakkar til hægri í dag, ekki að þau séu íhaldssöm, heldur þar liggur rebelinn, þau hafa fengið nóg af ruglandanum og vitleysunni sem gegnsýrir hina einu "réttu" opinbera umræðu.
Lífið er hringrás, það sögðu allavega heimamenn sem vitnað var í í þeirri stórmerku bók; Heygðu mitt hjarta við Undað hné.
Hlakka til að lesa komandi pælingar þínar Geir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 13.2.2025 kl. 08:07
Að hafa ofan í sig og á og með sátt á meðan lifir.
Líklega ekki mælikvarði nútímans á vestrænan hátt í dag.
Nema hægt og sígandi, þenkjandi, sér hinn mígandi merkjandi, môrkuð sú slóð.
Hvar hinn " vitræni "vesæli vestræni hnígandi vellur um sitt eigið blóð.
L (IP-tala skráð) 14.2.2025 kl. 01:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.