Ráfað um án mælikvarða

Í sérhverri starfsemi er stuðst við mælikvarða. Fyrirtæki reyna að skila hagnaði, heimili reyna að eiga afgang þegar allir reikningar hafa verið greiddir. Verslanir reyna að fjölga viðskiptavinum og opinberar stofnanir reyna að vera röngu megin við núllið í lok fjárlagaársins til að missa ekki af fé við næstu úthlutun.

Mælikvarðar, mælingar, gagnasöfnun og eftirfylgni þegar tölurnar þróast í ranga átt.

Með því móti þarf ekki að treysta á stöðupróf frá útlöndum til að sjá að allt er komið í kalda kol.

Nema í grunnskólum Reykjavíkur auðvitað.

Þar þykir of dýrt og tilgangslaust að prenta út nokkur skrifleg próf til að meta stöðu menntunar. Fyrirtæki sem væri svona rekið væri komið á hausinn ansi fljótt eftir að hafa eytt um efni fram í yfirbyggingu og stjórnendastöður í stað viðskiptaþróunar og aðlögunar á úrvali vöru og þjónustu að síbreytilegum markaði. 

Sonur minn er í gagnfræðiskóla í Kaupmannahöfn. Hann var í stöðuprófi í nokkrum fögum um daginn. Í kjölfarið fer fram mat á því hvar hann er sterkur og hvar þarf að bæta aðeins í. Í lok næsta vetrar, eftir nokkur stöðupróf í viðbót, er úr því skorið hvort hann sé tilbúinn í framhaldsskóla eða þurfi að endurtaka eitthvað á grunnskólastigi. Allt er þetta tekið mjög alvarlega og byggt á ítrekuðum mælingum. Í þessu er engin nýlunda því svona man ég líka eftir mínum grunnskólaárum í Árbæjarskóla þar sem voru tvö próftímabil á ári og meira að segja hægt að velja hægfærð, miðferð og hraðferð í helstu fögum eftir því hvað maður sjálfur taldi við hæfi. Þetta endaði svo á samræmdum prófum sem var mikil stemming í kringum og framhaldsskólar gátu svo nýtt sér einkunnir til að vega og meta hvaða nemendur voru taldir líklegir til að komast í gegnum námsefni þeirra (nema í tilviki þeirra sem gátu kallað þann framhaldsskóla hverfisskóla sinn, en þeir voru flestir dottnir út eftir fyrsta árið og var sennilega ekki gerður neinn greiði með þeim vonbrigðum og sóun á tíma). 

Einfalt, gegnsætt, vel prófað, skilvirkt og - vil ég leyfa mér að fullyrða - hagkvæmt. Gott ef gervigreindin geti ekki séð um megnið af yfirferðinni í dag!

En í Reykjavík verður mats­fer­ill­inn, nýtt sam­ræmt náms­mat, prufu­keyrður í 26 skól­um - einhvers konar hringrás með gátlistum sem ofkeyrðir kennarar eiga nú að bæta á sig ofan á allt annað, gegn því að fá óbreytt laun en kannski aðeins lengri vinnutíma.

Góður maður sagði mér einu sinni frá X-grafinu svokallaða sem sýndi annars vegar einkunnir á stígandi uppleið en námsárangur samkvæmt PISA-prófum á sígandi niðurleið. Það segir ýmislegt um þá blindu vegferð sem grunnskólakerfið hefur verið sett á: Eyðsla upp, laun niður. Einkunnir upp, námsárangur niður. Kennsla aukin, menntun minnkar. Námsskrá lengd, nám minnkað. Samræmd próf tekin út, samræmd rýrnun á grunnskólagöngunni innleidd.


mbl.is Dýr og flókin framkvæmd með „lítinn tilgang“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband