Mánudagur, 10. febrúar 2025
Nýja gaseldavélin
Alltaf þegar ég held að hið opinbera geti ekki lengur komið mér á óvart með botnlausri sóun á almannafé þá afsannar það þá hugsun.
Núna er okkur sagt frá því að endurbætur á íbúðarhúsi forseta Íslands kostuðu rúmar 120 milljónir. Í upphaflegri kostnaðaráætlun var gert ráð fyrir 86 milljónum.
Ekki kemur fram hvort krossinn hafi fengið að snúa aftur á kirkju Bessastaða, en látum það eiga sig í bili.
Hluti kostnaðarins fólst í því að breyta barnaherbergjum í herbergi fyrir uppkomin börn milljónamærings sem virðast ekki geta flutt að heiman. Látum það líka eiga sig.
Rúmar 12 milljónir fóru í lýsingar, gardínur og rafmagnsvinnu. Magnað.
Ný gaseldavél var keypt fyrir tæpa hálfa milljón króna og ísskápur og frystir kostuðu um 780 þúsund. Dýrasta gaseldavélin hjá Heimilistækjum kostar 350 þúsund krónur og dýrasti ísskápurinn kostar 600 þúsund krónur, svo menn hafa leitað lengra eftir tækjum sem voru nógu góð fyrir forsetann, forsetamakann og uppkomnu börnin. Með öðrum orðum: Bara allradýrustu tækin eru nógu góð fyrir forseta Íslands, sem hefur það að aðalstarfi að skrifa langar en innihaldsrýrar ræður og klippa á borða.
Ég veit að allir vita að hið opinbera fer alltaf vel fram úr öllum kostnaðaráætlunum svo nemur tugum prósenta. En að uppfæra heimili ætti nú að vera létt verk að áætla og jafnvel standa við þá áætlun, jafnvel þótt lagnavinna reynist erfið. Ef það er ekki hægt að skipta um lagnir og rafmagn og endurnýja nokkur heimilistæki, húsgögn og gardínur án þess að fara 40% yfir kostnaðaráætlun, sem var vægast sagt rífleg til að byrja með, þá hefur hið opinbera í eitt skipti fyrir öll sýnt og sannað að því er skítsama um nýtingu á launafé þínu.
Og þér jafnvel líka, en það kemur í ljós.
![]() |
Framkvæmdir á Bessastöðum kostuðu um 120 milljónir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning