Laugardagur, 8. febrúar 2025
Samfylkingin reynir að fela brunarústir sínar
Ekki vantar stjórnmálaskýrendur í íslenskri umræðu og eru sumir betri en aðrir. Ég gæti nefnt nokkra mjög góða en ætla þess í stað að ræða einn vondan: Pistlahöfund pistla sem birtast nafnlaust undir heitinu Orðið á götunni, á DV.
Þar heldur á penna stækur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og á meðan það er í sjálfu sér allt í lagi þá er verra hvernig viðkomandi reynir að skrifa eins og hann sé að fjalla um raunverulegt spjall manna á milli, sem er í raun bara hugrenningar eins manns.
Tökum dæmi þessa tilvitnun úr pistli sem fjallar um endalok meirihlutasamstarfs R-listaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur (í bili):
Orðið á götunni er að í raun sé verið að veiða Sjálfstæðisflokkinn í gildru og ef um hannaða atburðarás sé að ræða sé allsendis óvíst að sú hönnun komi úr ranni Framsóknar. Í Samfylkingunni brosi fólk yfir þeirri tilhugsun að Sjálfstæðismenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir stjórnartíð Samfylkingarinnar í kosningunum að ári.
Það kæmi mér mjög á óvart ef einhver innan Samfylkingarinnar hugsaði með sér að Samfylkingin hefði staðið sig svo illa í borgarstjórn að það væri gott að Sjálfstæðisflokkurinn tæki á sig allar sakir fyrir stjórnarglöp í borginni - flokkur sem hefur verið við stjórnvölinn í borginni í 2-3 ár af seinustu 30 árum.
Kannski er það rétt. Kannski skammast Samfylkingarfólk sín fyrir 30 ára hnignun borgarinnar, óendanlegar skuldirnar, yfirdráttinn sem vex í sífellu, skatta í hámarki, innviði í molum og borgarfyrirtæki sem hafa ekki efni á fjárfestingum vegna kostnaðar við öll gæluverkefnin.
Kannski Samfylkingarfólk andi í raun léttar.
En er ekki ólíklegt að nokkur Samfylkingarmaður myndi viðurkenna það fyrir öðrum eða jafnvel bara sjálfum sér? Og hvað þá við pistlahöfund sem finnur upp á orðrómum!
Ég útiloka nú samt ekki að menn viðurkenni það opinskátt innan Samfylkingarinnar að það er mikill léttir að þurfa ekki að svara fyrir neitt í næstu kosningum í Reykjavík - að geta bent á borgarstjórn sem hefur starfað í eitt ár af þrjátíu ára óstjórn og hreinsað ónýtt mannorðið með því.
Kjósendur í Reykjavík gætu jafnvel fallið fyrir slíku.
Ef svo fer þá er ekki annað hægt að segja við Samfylkinguna: Vel spilað!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning