Laugardagur, 8. febrúar 2025
Meirihluti um nákvæmlega hvað?
Meirihlutinn í Reykjavík hefur liðast í sundur og þótt fyrr hefði verið. Þeir sem telja 7 ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna í Stjórnarráðinu hafa varað of lengi og ekki verið um ekki neitt nema halda völdum hafa væntanlega mikla samúð með þeim sem finnst R-listaáratugirnir hafa verið orðnir alltof margir, og þá sérstaklega Dagsárin þar sem borgin keyrði sig viljandi ofan í skurð (þótt sú vegferð hafi hafist mun fyrr).
Endalok R-listans vara vonandi lengur í þetta sinn en þau stuttu hlé sem R-listinn fékk árin 2006-2007 og 2008-2010. Ekkert er samt öruggt í þeim efnum. Kjósendur borgarinnar láta ítrekað lokka sig með gylliboðum og telja sig vera að kjósa breytingar en það er sama hvernig innihaldslýsingunni er breytt, bragðið breytist ekkert. R-listaflokkarnir tala sig saman í valdastöður óháð því hvort þeir eru sammála um grunnatriðin eða ekki, eða eins og borgarstjóri lýsir því:
Einar segir í samtali við blaðið að á ýmsu hafi strandað í gamla meirihlutanum og nefnir til dæmis skipulagsmál, Reykjavíkurflugvöll, leikskóla- og daggæslumál og ákvarðanir varðandi rekstur.
Um hvað voru flokkarnir eiginlega sammála? Mér sýnist ekki vera neitt eftir. Samt sátu þessir flokkar saman (með einhverjum nafnabreytingum en óbreyttu innræti), fund eftir fund, ár eftir ár, áratug eftir áratug, og þóttust vera að stjórna á meðan skólpið flæddi í sjóinn, bílar sprengdu dekk í holum á götunum og myglan breiddi úr sér eins og farsótt.
Farið hefur fé betra en R-listinn, en vissara að stilla bjartsýninni í algjört hóf. Vonandi myndast ný borgarstjórn sem getur unnið saman að skipulags- og rekstrarmálum, er sammála um nauðsyn Reykjavíkurflugvallar og þorir að líta yfir grindverkið, til nágrannasveitarfélaga, eftir innblæstri í dagggæslu- og leikskólamálum.
![]() |
Lofaði kjósendum að knýja fram breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Menn rífast um flugvöll en virðast innilega sammála um Fossvogsbrú?
Kostnaður við nýjan millilandaflugvöll í Hvassahrauni fyrir allt að. 19 milljónir farþega á ári er áætlaður rúmlega 300 milljarðar kr.
Fossvogsbrú mun kosta 10 milljarða kr. og farþegar þar verða í mesta lagi nokkur hundruð þúsund á ári - ríflega áætlað
Forgangsröðunin hjá fyrverandi Borgarmeirihluta var einfaldlega rangur og úr því verður að bæta
Grímur Kjartansson, 8.2.2025 kl. 13:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.