Föstudagur, 7. febrúar 2025
Hvað á þróunaraðstoð að þróa?
Þróunaraðstoð: Framlag ríks lands til vanþróaðs ríkis t.d. með fjárhagsaðstoð eða sérfræðiþjónustu, þróunarhjálp, samkvæmt íslenskri orðabók. Einfalt, ekki satt?
Í hvað rennur þróunaraðstoð? Í lyf, flóttamannabúðir, bólusetningar, flugnanet, vegagerð, orkuver, klæðnað og mataraðstoð, meðal annars. Upphæðirnar eru ekkert grín. 224 milljarðar Bandaríkjadollara árið 2023, hvorki meira né minna. Það er hægt að kaupa margar vítamínpillur og kennslubækur og annað slíkt fyrir slíkar fjárhæðir!
En það er því miður ekki svo að öllu þessi þróunaraðstoð renni í aðstoð fyrir stríðsþjáða, flóttamenn, sjúka og ólæsa. Þetta er að koma sífellt betur í ljós núna eftir að bandarísk yfirvöld bremsuðu allar greiðslur til slíkrar aðstoðar í 90 daga. Jú, vissulega stöðvuðust við það einhverjar lyfjasendingar en nokkuð annað gerðist í miklu meiri mæli. Bankareikningar óháðra fjölmiðla í Bandaríkjunum, manneskjusmyglara í Mexíkó og rannsóknarstofa að stunda ólöglegar rannsóknir tæmdust eins og á einni nóttu. Tilviljun? Kannski. En líklegra er að stórar fjárhæðir eyrnamerktar þróunaraðstoð hafi verið að renna í gæluverkefni ráðandi afla - til samtaka sem sögðu og gerðu það sem var yfirvöldum að skapi en yfirvöld gátu ekki sagt eða framkvæmt beint.
Ég ætla ekki að leiða lesendur hérna ofan í kanínuholuna enda óþarfi. Svindlið og sukkið er að afhjúpa sig dag frá degi og verður að lokum gert upp. Eftir það verður þróunaraðstoð áfram veitt samkvæmt laganna bókstaf í Bandaríkjunum, en ekki lengur til smyglara og áróðursfjölmiðla eða í eflingu á hættulegum veirum.
Eitthvað svipað mætti kannski gera víðar, svo sem í tilviki evrópskrar eða íslenskar þróunaraðstoðar. Hvað ætli mörg svokölluð óháð grasrótar- eða hagsmunasamtök yrðu að segja upp starfsfólki sínu? Hvað yrði um mútugreiðslur íslenskra aktívista til hryðjuverkamanna á landamærum Palestínu og Egyptalands? Maður spyr sig þegar vafi leikur á um gegnsæið.
En er Trump ekki bara genginn af göflunum? Eða hægri hönd hans, Elon Musk? Menn gætu alveg haldið því fram en mega um leið hafa í huga að fyrirtæki endurskoða reglulega hverja krónu og hvert hún fer, og væntanlega þú líka þegar þú skoðar heimilisbókhaldið þitt. Er einhver áskrift stanslaust í gangi sem þú færð ekkert út úr? Lokum henni! Lekur stanslaust úr heitavatnskrananum? Lokum á það! Ertu að borga fyrir líkamsrækt sem þú stundar ekki? Byrjaðu að mæta, eða segðu upp áskriftinni!
Það er kominn tími til að taka heimilisbókhaldið á ríkiskassann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég hef tekið eftir að Íslenska ríkið er mjög æst í að styðja við hryðjuverkasamtök. Í gegnum UNWRA þá aðallega.
Heimska eða illska? Erfitt að segja, en USAID vissi alveg hvað þeir voru að styrkja.
Ásgrímur Hartmannsson, 7.2.2025 kl. 19:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning