Þriðjudagur, 4. febrúar 2025
Hvaða gata?
Ég ætti kannski að breyta nafninu á þessari síðu. Hún kallast í dag Sjálfkrýndi samfélagssérfræðingurinn, sem er svolítið skot á sjálfan mig fyrir að telja mig vita allt mögulegt um samfélagið. Ég veit sumt, en ekki allt. Ég get ekki kallast sérfræðingur, en kalla sjálfan mig það, og það er líka til gamans gert.
En hvað ef ég kallaði þessa síðu: Það sem fólk segir? Eða: Orðrómar við kaffivél valdsins? Væri það ekki mjög sannfærandi? Lesendur fengju það á tilfinninguna að ég væri ekki að rembast við að sinna launavinnu, börnum og öllu sem tengist því heldur væri viðstaddur kaffivélar yfirboðara okkar, eða á stanslausu flakki á milli kaffihúsa að hlusta á fólk af ýmsu tagi segja mér trúnaðarmál.
Kynnum þá til leiks pistlaflokk DV: Orðið á götunni!
Væntanlega pistlaflokkur þar sem orð fólks á götunni er skolað upp á yfirborðið! Orðin sem fólkið vill raunverulega segja en þorir ekki! Orðanna sem skilja á milli þess sem okkur er sagt frá og þeirra sem eru raunverulega sögð!
Eða bara fín fyrirsögn fyrir skoðanapistla manns með ákveðinn pólitískan boðskap sem hann mótaði heima hjá sér, eftir lestur á samfélagsmiðlum, án þess að fara nokkurn tímann á götuna.
Kannski. Hver veit. Það eru engin augljós merki um að mín túlkun sé röng, en kannski er hún það.
Að þessu sögðu hef ég ákveðið að breyta ekki heiti þessarar síðu í Sannar sögur úr Stjórnarráðinu eða Væflast á Kaffi Vest eða Úr bóli Brussel eða neitt slíkt. Ég krýndi mig sjálfur, þú þarft ekki að beygja þig fyrir því.
Eftir stendur að því er ekki svarað frá hvaða götu Orðið á götunni kemur frá. En sennilega frá heimaskrifstofu manns sem fer lítið út á götu, a.m.k. ekki til að labba.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:17 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning