Skattar og fleiri skattar

Á Íslandi er rekið mikið opinbert bákn sem heimtar mikla skatta.

Eða í nútímalegra orðalagi: Á Íslandi er veitt mikil opinber þjónusta sem er fjármögnuð með ýmsum gjöldum og framkvæmd af stofum og embættum.

Skattar eru nefnilega ekki alltaf skattar. Þeir geta líka kallast gjöld og fá þá á sig blæ frjálsra viðskipta þar sem gjald er greitt og í staðinn veittur aðgangur, svona eins og í leikhúsi.

Opinberar stofnanir geta líka kallast stofur og fá þá á sig blæ biðstofunnar þar sem fólk sest þægilega niður og fær afgreiðslu á erindi sínu. Stofa þar sem fólk ekki bara númer í kerfinu eða skjal í skúffunni heldur verðmætir skjólstæðingar.

Þessi leikur að orðum er auðvitað til þess gerður að slá vopnin úr höndum hins frjálsa framtaks. Hver neitar að borga gjöldin sín? Það er eitt að reyna forðast skattheimtuna með ýmsum aðferðum - íþrótt sem menn hafa stundað í árþúsundir - en að vilja ekki borga gjaldið? Það er bara dónaskapur!

Íslensk yfirvöld vilja núna leggja á „auðlindagjöld“ en á meðan þau eru útfærð að leggja á „komugjöld“. Allt eru þetta bara skattar. Skattar ofan á alla hina skattana - gistináttaskattinn, virðisaukaskatt af öllum vörukaupum og þjónustu, tekju- og launaskattar þeirra sem selja þá vörur og þjónustu, allskyns skattar á landeigendur, fjármagnstekjuskattur á þá sem tekst að nurla út smávegis hagnaði og svona mætti lengi telja. Auðlindagjöldin munu renna ofan í hítina eða fara í að fjármagna starfsemi þjóðgarða sem telja það vera hlutverk sitt að halda fólki frá þeim.

Það verður bráðum upplifun þeirra sem heimsækja Ísland að landið sé orðið að jarðsprengjusvæði þar sem hvert skref getur leyst úr læðingi einhverja gjaldtöku eða skattheimtu. Er þá hætt við að þeir sem vilja sjá fjöll og eyðifirði velji einhvern annan áfangastað. Eða er það markmiðið?


mbl.is Fáránlegt að setja fyrst á komugjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og þremur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband