Mánudagur, 3. febrúar 2025
Skattar og fleiri skattar
Á Íslandi er rekið mikið opinbert bákn sem heimtar mikla skatta.
Eða í nútímalegra orðalagi: Á Íslandi er veitt mikil opinber þjónusta sem er fjármögnuð með ýmsum gjöldum og framkvæmd af stofum og embættum.
Skattar eru nefnilega ekki alltaf skattar. Þeir geta líka kallast gjöld og fá þá á sig blæ frjálsra viðskipta þar sem gjald er greitt og í staðinn veittur aðgangur, svona eins og í leikhúsi.
Opinberar stofnanir geta líka kallast stofur og fá þá á sig blæ biðstofunnar þar sem fólk sest þægilega niður og fær afgreiðslu á erindi sínu. Stofa þar sem fólk ekki bara númer í kerfinu eða skjal í skúffunni heldur verðmætir skjólstæðingar.
Þessi leikur að orðum er auðvitað til þess gerður að slá vopnin úr höndum hins frjálsa framtaks. Hver neitar að borga gjöldin sín? Það er eitt að reyna forðast skattheimtuna með ýmsum aðferðum - íþrótt sem menn hafa stundað í árþúsundir - en að vilja ekki borga gjaldið? Það er bara dónaskapur!
Íslensk yfirvöld vilja núna leggja á auðlindagjöld en á meðan þau eru útfærð að leggja á komugjöld. Allt eru þetta bara skattar. Skattar ofan á alla hina skattana - gistináttaskattinn, virðisaukaskatt af öllum vörukaupum og þjónustu, tekju- og launaskattar þeirra sem selja þá vörur og þjónustu, allskyns skattar á landeigendur, fjármagnstekjuskattur á þá sem tekst að nurla út smávegis hagnaði og svona mætti lengi telja. Auðlindagjöldin munu renna ofan í hítina eða fara í að fjármagna starfsemi þjóðgarða sem telja það vera hlutverk sitt að halda fólki frá þeim.
Það verður bráðum upplifun þeirra sem heimsækja Ísland að landið sé orðið að jarðsprengjusvæði þar sem hvert skref getur leyst úr læðingi einhverja gjaldtöku eða skattheimtu. Er þá hætt við að þeir sem vilja sjá fjöll og eyðifirði velji einhvern annan áfangastað. Eða er það markmiðið?
![]() |
Fáránlegt að setja fyrst á komugjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Að borga skatt og “gjöld” til að halda samfélaginu gangandi er mér bara ljúft og skylt en seint mun ég átta mig á þessu drykkjupeningum (þjórfé)
En svo sér maður alltof marga með sjálfvirka aftöppun úr ríkissjóð í sín gæluverkefni og þessi fjárútlát eru aldrei endurskoðuð. Í fréttum í dag má sjá fregnir um fjárdrátt upp á 150 miljónir hjá óbreyttum starfsmanni án þess að neinar viðvörunarbjöllur hringi í 10 ár. Spurning hversu oft slík mál eru þögguð niður. Í veitingabransanum var oft talað um svarta starfsemi en í dag þá er allt borgað með kortum og hver færsla skráð svo þessi svik ættu að vera auðfundin?
Allaveg upplifir maður að Skatturinn og Tryggingarstofnun viti um hverja krónu sem maður hefur nokkurn tímann haft milli handanna.
Grímur Kjartansson, 3.2.2025 kl. 14:07
Grímur,
Enda kom í ljós í Bandaríkjunum þegar Trump skrúfaði fyrir kranann að ógrynni svokallaðra NGOs fóru að kvarta. Það er Non-governmental Organizations, sem fá skattfé til að borga fyrir og framkvæma það sem yfirvöld vilja gera en mega ekki.
Ætli eitthvað svipað gæti átt við á Íslandi?
Geir Ágústsson, 3.2.2025 kl. 15:42
Já það er tekinn skattur af öllu, og jafnvel oftar en einu sinni af sama hlutnum, það versta er að þeir sem fara svo með þennan skattpening, hvort sem það er ríki eða sveitarfélög hafa ekki hugmynd um það hvað næsti maður sem situr við hliðina á þeim er að gera, ekkert! Peningurinn hverfur í stjórnleysi út um gluggann. Og já ég vil alveg að ferðamönnum fækki sem hingað koma, við höfum ekki við þessum fjölda eins og er ( hefur reyndar fækkað) og lang flestir ferðamenn sem hingað koma skoða nákvæmlega sömu staðina, þetta eru "nokkrir" hringir á "nokkra" staði. Þau lönd sem ég hef ferðast til hafa rukkað fyrir allt sem ég skoða og meira að segja þurft að borga fyrir að fara á klósettið, sé nákvæmlega ekkert að því að rukka ferðamenn sem hingað koma.
Erla (IP-tala skráð) 3.2.2025 kl. 17:55
Hversu mikil skólun þarf að fara fram, til að fólk átti sig á að það fær tvöfalt meira fyrir monninginn ef það verslar sjálft þá þjónustu sem það þarf, en ef Sovétríkin sjá um hana?
Guðjón E. Hreinberg, 3.2.2025 kl. 18:02
... eða hversu mikla skólun þarf til að fólk átti sig ekki á hinu augljósa og láti ræna sig öllu sem það á, og blóðinu í bónusgjald?
Guðjón E. Hreinberg, 3.2.2025 kl. 18:02
Fyrst gerir skatturinn fólkið fátækt, svo landið.
Það verður kaldur dagur í helvíti þegar íslenska ríkið sér að sér.
Ásgrímur Hartmannsson, 3.2.2025 kl. 18:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.