Að eyða í ekkert

Við sjáum það aftur og aftur að það er hægt að eyða miklum peningum í nákvæmlega ekki neitt. Eyða og eyða og ekkert gerist. Eyða í biðlista og þeir styttast ekki. Eyða í heilbrigðisþjónustu og þjónustan minnkar. Eyða í fleiri starfsmenn og færri sinna vinnunni.

Í eitthvað fara peningarnir, vissulega. Þeir geta farið í millistjórnendur eða stjórnsýslu af öðru tagi. Þeir geta farið í að setja upp rosalega fallega snaga fyrir jakka á meðan húsnæðið er að mygla. Þeir geta farið í launuð frí, námskeiðadaga, starfsdaga, aukafrídaga, laun sem svara til fullrar vinnuviku sem er svo stytt vinnuvika, og listinn er eflaust lengri og jafnvel endalaus. 

Nú er okkur sagt að Íslendingar eyði hlutfallslega mest allra Evrópuþjóða í leikskóla, eða heil 1,8% af landsframleiðslu, og höfum í huga að landsframleiðsla á Íslandi er einhver sú mesta í Evrópu og þar með heimi miðað við höfðatölu. Til samanburðar eyða Danir 1,0% landsframleiðslu í leikskóla. Ég hef búið í Danmörku öll mín ár sem faðir leikskólabarna og get sagt að samanburðurinn við Ísland er sláandi. Ég hef aldrei lent á biðlista fyrir nálægasta leikskólann, starfsdagar eru einn á ári og það er aldrei lokað heilu vikurnar í einu, ekki einu sinni á sumrin. 

Allt þetta fyrir um helminginn af framlagi Íslendinga í nákvæmlega sama kerfi: Sömu starfsmenn, sama húsnæði, sömu leiktæki, sami matur, sömu uppeldisfræðin (geri ég ráð fyrir, fyrir utan ýmsan heilaþvott sem er ekki til staðar í Danmörku að mér vitandi).

Mér finnst blasa við nokkur atriði sem gætu skýrt þennan mun, fyrir utan styttu vinnuvikuna á Íslandi og ógnarfjölda starfsdaga, og það er notkun á ungu afleysingafólki sem kann í raun og veru vel við að umgangast börn. Stundum jafnvel of mikil notkun afleysingafólks á köflum - ég hef komið á leikskóla til að sækja barn þar sem var nánast enginn leikskólakennari í sjónmáli. En börnin voru í umsjón fullorðinna og voru að leika sér og allt þetta - nokkuð sem mér þætti kannski þurfa að vera í meiri forgangi en menntun starfsfólksins. 

Ég er ekki að gera lítið úr sérþjálfuðum leikskólakennurum. Auðvitað þarf slíka til að leggja línurnar, skipuleggja starfið, leggja mat á þroska og hæfni barnanna og allt þetta. En að þurfa loka leikskóla af því slíkir einstaklingur eru lasnir eða annað slíkt, og senda í raun allt heimili barnanna í algjöra ringulreið, er það úrræðið? Þetta skilst mér að sé algengt á Íslandi, en ég hef aldrei upplifað slíkt í Danmörku (í alls þremur mismunandi sveitarfélögum).

Svo í eitthvað er eytt þegar fé er ráðstafað til leikskólanna á Íslandi, en ekki er það rekstur á leik-skóla, sem þarf fyrst og fremst fullorðið fólk til að opna dótakassana, greiða úr einstaka árekstrum og skipta á einstaka bleiu, a.m.k. megnið af deginum flesta dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt segurðu. En það þýðir ekkert að eyða fleiri orðum um þetta. Það lagast víst ekkert við það.frown

jósef Ásmundsson (IP-tala skráð) 29.1.2025 kl. 22:06

2 identicon

Það er þessi fáránlega hugmynd háskólamenntaðra leikskólakennara að tala um leikskóla sem menntastofnun. Að blása upp eigið mikilvægi með því að þeir séu að mennta börn frá tveggja ára aldri þegar staðreynd málsins felst í heiti stofnunarinnar LEIKskóli.

Bjarni (IP-tala skráð) 30.1.2025 kl. 00:29

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Í Danmörku er mikið lagt upp úr því að börn séu "skólatilbúin" eftir leikskóla og oft mælt með því að barn sé áfram á leikskóla inn í 7. aldursár, ef svo er ekki. Ég á tvö desemberbörn og annað var talið tilbúið í skóla á 6. aldursári og ekki hitt, og ég ætla nú bara að taka undir þær leiðbeiningar sem dönsku leikskólakennararnir gáfu eftir að hafa tekið börnin í ýmis próf í færni og getu.

Svo ég ber virðingu fyrir sérmenntuðum leikskólakennurum.

Hvort nám þeirra eigi að vera "á háskólastigi" eða ekki er önnur saga - hljómar bara eins og seinkun á því að manneskja geti byrjað að starfa með börnum, og síður en svo ávísun á eitthvað sérstök laun.

Megnið af leikaskóladeginum er auðvitað, eins og þú bendir á, LEIKUR.

Geir Ágústsson, 30.1.2025 kl. 07:51

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Þessi færsla þín er þannig eðlis að þú ert bein auglýsing fyrir danska eðalframleiðslu, hvort sem það er Tuborginn eða Kallinn.

Ligeglad segir þú að það sé aðeins einn starfsdagur, ekki lokað á sumrin, sérðu ekki í alvörunni Geir að ef þú ert Bítill, þá ert þú staddur í þeirri súrarlísku mynd, líklegast þeirri leiðinlegust sem hefur verið gerð fyrir utan Bergman og alla þá upphrópuðu sem reyndu að vera leiðinlegri en hann, sem kennd er við Gula kafbátinn.  Myndin ömurleg, tónlistin góð, alveg eins og glöð börn, enginn starfsdagur með ofurmenntuðu umsjónarfólki, sem var talið í trú um að 5. árið og meistararitgerð þess tryggði því að það þyrfti aldrei að koma nálægt börnum allan sinn starfsferil.

Ég veit Geir að þú ert of ungur fyrir hugvíkkandi efni, ég eiginlega trúi lýsingu þinni á dönsku leikskólakerfinu, en þú hlýtur að hafa verið ligeglad þegar þú sást aðeins glaðvær börn, og sást enga menntun að passa þau.

Fyrir minna hafa menn verið gerðir klepptækir á Íslandi, ekki nema að þeir syngi við innlögn; "We all live in Gula kafbátnum", þá sendir í endurmenntun í enskri tungu, enda illa  hægt að lifa á Íslandi í dag með móðurmálið eingöngu í munni og hugsun.

Ég skal reyndar játa Geir að ég er að hæðast að íslenska kerfinu, en sú hæðni á sér rót þegar æskufélagi minn, reyndar stórgóður kennari, peistaði á grein kennara, sem var með það alveg á hreinu að kennarar væru það illa launaðir, að þeir gætu hreinlega ekki kennt börnum okkar að lesa og skrifa.

Hvorki hann eða greinarhöfundur höfðu heyrt um menntun þjóðarinnar fyrir öld síðan eða svo, þegar þeir eldri kenndu þeim yngri að lesa og skrifa.  Og enginn bjó að prófinu.

Þetta er svo súrt Geir, að það að lesa pistil þinn hér að ofan, fær mann til að halda, að hið súra sé eðlilegt, en heilbrigð hugsun sé eitthvað skrýtin, og á henni þurfi að finna skýringar.

Takk fyrir Geir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.1.2025 kl. 17:50

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Orwell sá þetta ekki fyrir sér, að hægt væri að eyða öllum peningunum svona í ekkert.

Hann hélt að það þyrfti eilífðar stríð.

Hvað myndi hann segja ef hann sæi til okkar?

Ásgrímur Hartmannsson, 30.1.2025 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband