Föstudagur, 24. janúar 2025
Innilokaðir hæfileikar
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár unnið hratt og vel að því að hlaða á sig starfsmönnum sem þurfa lítið að gera og borið við ýmsu eins og þróun stafrænna lausna sem segja nei við leikskólaplássum og tilkynna um myglu í húsnæði. Borgin hefur yfirboðið einkafyrirtæki og sogað til sín hæfileika. Það má líta á þá hæfileika sem vannýtta auðlind, eða sóun á auðlindum, og borgin orðin gjaldþrota.
Borgin þarf að taka til hjá sér. Hún er að fjármagna sig á vaxtakjörum sem yfirlýstur fjárhættuspilari með áfengisfíkn gæti verið stoltur af, en ekki aðrir. Opnunartímar þjónustu eru á niðurleið og ekki eru leikskólaplássin að láta sjá sig. Um leið er skattheimta í algjöru hámarki og hefur verið í áraraðir.
Niðurstaðan hlýtur að lokum að verða sú að stórir hópar borgarstarfsmanna - væntanlega yfirgnæfandi skrifstofufólk sem snertir hvorki sóp né hamar, og kemur ekki nálægt skólastofum eða leikskólum - fái reisupassann.
Þetta myndi losa um töluvert vinnuafl sem má í kjölfarið nýta í verðmætaskapandi vinnu. Einkafyrirtæki gætu haft minni áhyggjur af yfirboðum, útsvarsgreiðendur gætu andað léttar, og þeim sem var sagt upp hjá borginni og fundu sér verðmætaskapandi vinnu sleppa við vanlíðan, tilgangsleysi og leiða á vinnutíma, enda hefur vinnudagurinn allt í einu öðlast merkingu.
Mun þetta gerast í fyrirsjáanlegri framtíð? Undir stjórn núverandi borgarstjóra?
Auðvitað ekki.
Munu ýmsir flokkar bjóða upp á skarpari valkost við núverandi aðstæður í næstu kosningum? Valkost sem segir það sem þarf að segja þótt ofborgaðir ráðgjafar vari við því?
Sennilega ekki.
Er hægt að vona?
Alltaf.
Borgin yfirbauð einkafyrirtæki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:26 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning