Þriðjudagur, 21. janúar 2025
Þeir eru víða, nasistarnir
Árið er núna 2025. Það eru 80 ár síðan Þýskaland nasismans gafst upp og helstu böðlar ríkisins handteknir og jafnvel teknir af lífi. Ekkert nasistaríki hefur orðið til síðan þá. Að vísu lifir systurhugmyndafræði nasismans, kommúnisminn, enn víða góðu lífi en það er önnur saga.
Það er enginn í dag nasismi. Kannski eru tíu slíkir á Íslandi og í álíka hlutföllum í öðrum ríkjum og þeir eru áhrifalausir og enginn tekur mark á þeim. Að vísu eru hugmyndafræðileg systkini nasistanna, kommúnistar, mun víðar og jafnvel áhrifamiklir, en það er önnur saga.
Engu að síður er okkur sagt og kennt að nasistar séu á hverju götuhorni og láta mikið á sér bera. Þeir eru þar að senda allskyns nasistakveðjur, húðflúra sig með nasistamerkjum og nota jafnvel nasistakveðjur til að lýsa yfir ánægju sinni með eitthvað í daglegum samskiptum.
Nasistar notuðu mikið af táknum og merkjum og mörgum stálu þeir og breyttu merkingu þeirra. Hakakrossinn er til að mynda eldgamalt tákn sem upprunalega þýddi það sem stuðlaði að vellíðan og þýddi um ár og aldir eitthvað svipað í fjölmörgum menningarheimum. Nasistakveðjan er líklega mörg þúsund ára gömul og ósköp venjuleg kveðja, mögulega með rætur í gamla Rómarveldi.
En nei, detti einhverjum bjánanum sem er raunverulega kynþáttahatari og Gyðingahatari í hug að teikna eitthvað tákn, gefa eitthvað merki eða fá sér eitthvað húðflúr þá skulum við hin þefa uppi aðra sem hafa teiknað eitthvað svipað, gefið svipað merki eða fengið sér nánast sama húðflúr og stimpla þá sem nasista, af öllu, og láta þá rata í langar greinar hjá alvarlegum miðlum.
Sá sem skreytir sig með hamar og sigð Sovétríkjanna sleppur svo af einhverjum ástæðum við gagnrýni þótt kommúnistar hafi drepið margfalt fleiri en nasistarnir gerðu, enda hafa þeir fengið að murka lífið úr saklausu fólki í áratugi og fá enn.
Var hann að gefa nasistakveðjuna?
Var hann að senda skilaboð til nasista?
Var hann að merkja sig sem nasista?
Svona spurningum má í 99,9% tilfella svara með einu stóru nei-i, og við getum eytt okkar takmörkuðu andlegu orku í að hugsa um aðra hluti. Það eru engir nasistar og þeir eru ekki að flagga skoðunum sínum á almannafæri. Punktur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning