20. janúar 2025

Ég vil byrja á að deila myndbandi með fyrirsögninni „Ó kæra/kæri, þetta myndband eltist ekki vel“, þar sem farið er yfir djarfar yfirlýsingar fyrrverandi Bandaríkjaforseta, þáttastjórnenda, Hollywood-stjarna, álitsgjafa og annarra í aðdraganda forsetakjörs Donald Trumps fyrir kosningarnar 2016:

En það er eitthvað miklu meira að gerast en að gamlir spádómar þeirra vitrustu og hæfileikaríkustu séu að hrynja eins og spilaborgir (enn og aftur). 

Það er eins og að heil spilaborg hafi hrunið og að margir geti dregið andann á ný (nema flugfreyjur). Trump er auðvitað eins og hann er, eða var, eða er. Ég spái ekki svo mikið í hans persónu eða skapgerð. En tilvist hans ein og sér virðist vera nothæf sem tækifæri til að sparka niður allskyns þvælu og rugli sem hefur plagað okkur eins og heilavírus í fjölda ára. Ekki lengur eru kynin óendanlega mörg, loftslagið að tortímast af því þú átt bensínbíl og ólöglegir innflytjendur með glæpahneigð einhvers konar blessun. Ég er ósammála Trump í mjög mörgu, og er ekki viss um að ég vilji heyra hann tala um konur og rassa og slíkt í minni nærveru. En kjör hans eitt og sér virðist hafa opnað glugga í kæfandi herbergi og leyft fólki að draga andann á ný.

Svo sem að fyrirtæki telja aftur óhætt að ráða starfsfólk á grundvelli hæfileika, getu, þekkingar og reynslu frekar en á grundvelli húðlitar og tegund kynfæra. 

Svo sem að átök eru að færast í vopnahlé.

Svo sem að Evrópa telji sig þurfa að taka ábyrgð á sjálfri sér frekar en að treysta á bandaríska skattgreiðendur.

Trump var kannski rafstuðið sem heimurinn þurfti á að halda. Ég segi rafstuð því það er bæði óþægilegt og getur annað hvort drepið þig eða læknað.

Við sjáum nú hvað setur. Mér finnst Trump vera búinn að raða í kringum sig hæfileikafólki - sumt hvert pólitískir andstæðingar hans fyrir ekki svo löngu síðan - og hann getur látið duga að hrópa á heimsleiðtoga eins og hann hrópaði á verktaka undanfarna áratugi og eitthvað fer að gerast.

Höldum okkur fast. Næstu fjögur ár verða rússíbani.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er margt í máli Trumps sem hægt er að taka undir, ólöglegir innflytjendur og þrúgandi vók-ismi.

Svo er annað sem er tóm djöfulsins þvæla. Evrópa skuldar NATO og USA ekki krónu. Það er enginn NATO-her til sem USA hefur fjármagnað. Þetta er þeirra eigin varnir, þeirra eigin herstöðvar, sem þeir hafa kosið að staðsetja í Evrópu, með leyfi frá Evrópu, í þeirri von að ef til átaka kæmi yrði vígvöllurinn Evrópa en ekki Ameríka.

Það er þeirra að verja eigin landamæri en ekki Mexiko að byggja landamæravegg fyrir þá.

Það hefur verið hans ær og kýr að vaða með dónaskap, lygum og ruddamennsku yfir alla þá sem ekki falla fram og tilbyðja hann.

Nú hefur viðbjóðurinn jafnvel haft á orði að ráðast á NATO-ríki til að vinna landsvæði. Sjálfsagt of heimskur til að átta sig á því að BNA eru skuldbundin til að koma Danmerku til varnar gegn árásum.  Ekki gleyma því að það er ekki á valdi forsetans heldur þingsins að hefja stríð. Nú eða þá að segja sig úr NATO.

Nú er ég enginn stuðnðngsmaður demma og hef engann áhuga á að styðja þeirra vók-þvælu. Ég er heldur enginn stuðningsmaður Trumps og hans narrsisisma. En það er illa komið fyrir stærsta herveldi heims þegar hófsamir og friðsamir eru heimilislausir.

Bjarni (IP-tala skráð) 21.1.2025 kl. 00:22

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Þótt USA sé voldugt þá þarf það bandamenn og USA og Bretland eiga sér sögu um gott samstarf sem ekkert var orðið undir stjórn Bidens sem meðal annars fjarlægði brjóstmynd af Winston Churchill úr vinnustofu Hvíta hússins

Sagt er að Trump muni leita til Breta og sýna góðan vilja í þeirra garð með því að lyfta Churchill aftur á stall svo er að sjá hvað breska ríkisstjórnin gerir

Grímur Kjartansson, 21.1.2025 kl. 05:05

3 identicon

Dáðadrengurinn og draumaprinsinn gerði það eitt af sínum fyrstu verkum að breyta Mexikoflóa í Ameríkuflóa. Fylgjendur Dóna Prumps halda vart vatni yfir stjórnviskunni. Þessu ótengdu þá er það hafsvæði sem aðskilur Ísland og Grænland kallað Grænlandssund á Ìslandi, en Strait of Denmark á flestum heimskortum.

Hvað er það sem heillar svo marga við þetta smásálarlega, illa innrætta viðrini?

Bjarni (IP-tala skráð) 21.1.2025 kl. 13:00

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Bjarni,

Þú getur kannski þakkað sjálfum þér aðeins fyrir gríðarlegar vinsældir Trump og nú vaxandi áhrif hans á alþjóðavísu með því að stökkva strax í fúkyrðin frekar en að taka á því sem hann segir í raun.

Ameríkuflói: Kjánalegt og bara til þess að afvegaleiða okkur frá raunverulegum vandamálum.

Lýsa yfir neyðarástandi við landamærin: Eitthvað sem margir Bandaríkjamenn skilja mætavel og fagna.

Að ætla sér að taka Panamaskurðinn / innlima Kanada / kaupa Grænland: Kjánaskapur sem er bara að skapa óþarfa pirring og taugatitring.

Afnema bann við leit og vinnslu á olíu og gasi: Eitthvað sem margir Bandaríkjamenn sjá verðmæti í og fagna.

Geir Ágústsson, 21.1.2025 kl. 16:24

5 identicon

"Ég er ósammála Trump í mjög mörgu en hann er auðvitað eins og hann er, ég spái ekki svo í persónu hans eða skapgerð".

Ekki ætla ég að líkja Donald Trump við Adolf Hitler en mér verður hugsað til 30.janúar 1933. Einmitt þannig ímynda ég mér að margir Þjóðverjar hafi hugsað þann dag.

Nú er Trump aftur kominn til valda, maður sem lætur hendur standa fram úr ermum. Nú hefur hann nýjan ráðgjafa og aðstoðarmann sér við hlið, Elon Musk ríkasta mann í heimi. Ekki verður það til þess að draga úr hugarórum mínum.  

Hördur Thormar (IP-tala skráð) 21.1.2025 kl. 17:54

6 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Mér fannst fyrsti dagurinn hans í embætti með eindæmum góður og til fyrirmyndar fyrir okkur og alla.

Mér lýst vel á þetta.  Lofar góðu.

Verst er að okkar yfirvöld eru ekki á þessari sömu línu, eða línu líkri henni.

Ásgrímur Hartmannsson, 21.1.2025 kl. 18:14

7 identicon

Maður má nú vera aðeins grumpy annað slagið. En eins og ég sagði þá er ég sammála Trump um hert landamæraeftirlit, en það verður alla tíð að vera á herðum BNA að gæta sinna eigin landamæra. Þeirri skyldu verður ekki varpað á aðrar þjóðir.

Verndartollar á t.d. stál! Gagnast sennilega bandarískum stálframleiðendum en hækkar hráefnaverð til innlendra framleiðenda sem nýta stál í sínar vörur sem aftur gerir þeirra vörur minna samkeppnisfærar á alþjóðamarkaði.

Það er svo margt sem frá Trump kemur sem er ætlað að efla samstöðu innanlands en á ekki eftir skila neinu.

Við eru þó sammála um að vók-vitleysan hafi fengið verðskuldað klofspark.

Bjarni (IP-tala skráð) 21.1.2025 kl. 18:33

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Hördur,

Hitlar hóf stríð. Trump er ekki með neitt slík á sinni sakaskrá eftir sín fyrstu fjögur ár sem forseti. Obama, Biden, Bush og Bush, Clinton - allir með slíkt á sinni sakaskrá. 

Bjarni,

Ég held að við deilum að mörgu leyti viðhorfi til Trump þótt ég sé kannski aðeins jákvæðari fyrir hönd bandarísks almennings. Eitt af því sem Trump gerði og hefur verið nefnt sem hans stærsta framlag, og sennilega rekið áfram af viðskiptamanninum Trump frekar en stjórnmálamanninum, var að skera í reglugerðarfrumskóginn. Það kostar ekkert (nema einhver opinber störf, sem er um leið ábati), hefur engar neikvæðar afleiðingar og skilar sér hratt og vel í hagkerfið, en það sem er best: Það er í raun lítil pólitísk viðspyrna gegn slíku og hægt að ganga mjög langt. Vonandi að samráðsgáttin á Íslandi taki svoleiðis ábendingar til sín (sjá t.d. umsögn 3274 við sparnðarsamráðinu). 

Geir Ágústsson, 21.1.2025 kl. 19:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband