Sorpflokkun gerð bærileg

Undanfarin ár hafa kröfur til flokkunar á heimilissorpi sífellt farið vaxandi. Ekki flokkun í skilvirkum móttökustöðvum. Ekki flokkun með notkun vélmenna og skynjara. Ekki flokkun af sérþjálfuðu starfsfólki. Nei, krafan er sú að við sem nú þegar borgum sífellt meira fyrir sífellt lélegri sorphirðu flokkum okkar eigið sorp og ferðumst með það ýmist í hina og þessa gáma í hverfinu, gefið að þar sé eitthvað pláss, eða hreinlega fyllum bílinn af sorpi og keyrum með það bæinn á enda og jafnvel á marga mismunandi staði - dósir á einn stað og pappír á annan.

En ekki nóg með það. Matarafgangana þarf að setja í sérstaka óvatnsþétta bréfpoka sem þarf að sækja á sérstöðum stöðvum á örfáum stöðum - hrikaleg breyting frá því í upphafi þegar þessa poka var hægt að sækja hvar sem er.

Þetta er a.m.k. lýsingin sem ég fæ frá íbúum höfuðborgarsvæðisins.

IMG_20250119_130039345_HDREr þá kannski óhætt að segja að umstangið í kringum það að losna við rusl verði varla gert meira en hér þarf þó að fara varlega og vanmeta ekki ímyndaraflið hjá sorphirðunni.

Ég bý í Kaupmannahöfn og þarf að flokka í a.m.k. jafnmarga flokka og Reykvíkingar en ég vil í því samhengi hrósa mínum yfirvöldum. Þau virðast vilja lágmarka þjáningar mínar af flokkunaráráttunni, ekki hámarka. Myndin við þessa færslu er dæmi um það. Hún sýnir tvo skammtara fyrir vatnsþétta en niðurbrjótanlega poka sem eiga að nýtast undir lífræna ruslið, og einnig er þarna hægt að sækja sér sérstakar fötur fyrir þá poka. Á heimasíðu sveitarfélagsins er hægt að panta allskyns flokkunardót sem er sent að kostnaðarlausu heim, þar á meðal pokana. Í skúrnum sem þarna sést, og er í bakgarði byggingarinnar sem ég bý í, er hægt að losna við allar tegundir af rusli, frá pappír og pappa og plastsins til rafhlaðna, glers, málma, eiturefna og raftækja. Stærra rusl má líka draga þangað inn, svo sem ónýt húsgögn (kannski samt ekki gamla sófasettið - ég hef ekki látið reyna á svo stóra hluti).

Allt í örstuttu göngufæri, alltaf nóg pláss (líka eftir aðfangadag), ekki neitt mál.

Almennur úrgangur er svo keyrður, af fagmönnum, í næstu sorpbrennslu ekki langt frá héðan og er þar breytt í hita og rafmagn og hvítan og lyktarlausan reyk (með tilheyrandi losun á koltvísýringi í andrúmsloftið svo gróðurinn fái líka sín hráefni í grænkun). Á þaki þeirrar sorpbrennslu er skíðabrekka og kaffihús þar sem er hægt að fá sér kaffi eða bjór og eitthvað að borða og njóta útsýnisins yfir borgina og hafið. Í lyftunni á leið upp er hægt að sjá innvolsið í sorpbrennslunni sem mörgum þykir vafalaust áhrifamikið.

Boðskapur minn hérna er að það er alveg hægt að þröngva fólki til að flokka, þrífa ruslið sitt, geyma í tunnum og pokum og að lokum losa sig við það án þess að ráðast mjög harkalega á lífsgæðin. Það er alveg hægt að búa til skilvirk og notendavæn kerfi sem hjálpa fólki að fylgja nýjustu reglugerðinni, hvort sem hún er skynsamleg eða ekki.

Annar boðskapur er sá að það er hægt að nýta sorpið sem verðmætt hráefni, hvort heldur til framleiðslu á rafmagni og hita eða umhverfisvæns eldsneytis, svo eitthvað sé nefnt, sem valkost við skipaflutninga á sorpi, en eitthvað virðist vera erfitt að koma slíku í gagnið á Íslandi, öfugt við Grænland.

Ég endurtek að ég vil ekki vanmeta ímyndunarafl íslenskra sorphirðusérfræðinga til að gera hluti enn flóknari, óþægilegri og dýrari en nú er raunin þótt ég sjái sjálfur ekki hvernig það væri hægt. En kannski á almenningur betra skilið í skiptum fyrir sístækkandi sorphirðureikninga. Þá meina ég: Eigi skilið að sorpið sé hirt en sé ekki þessi byrði á fólki. Sorp-hirða frekar en sorp-byrða.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Þú virðist hafa fengið misvísandi upplýsingar um flokkun sorps á Íslandi.

Heimilisúrgangur er flokkaður í fimm hluta: pappír, plast, lífrænt, almennt sorp. Það eru sorptunnur við hvert heimili sérstaklega fyrir hverja tegund. Engin þörf á að keyra bæinn á enda til að skila því á réttan stað.

Fimmti hlutinn eru síðan drykkjarumbúðir með skilagjaldi. Fólk er ekki að fá greitt fyrir að skila þeim á ákveðna söfnunarstaði, heldur að fá endurgreitt það sem það hafði áður greitt. Það er eini flokkurinn þar sem þú þarft að fara útfyrir lóðamörk heimilisin til að losa þig við afganga heimilisrekstursins.

Bjarni (IP-tala skráð) 19.1.2025 kl. 16:01

2 identicon

Ég tek undir með Geir. Og verð nú að segja að upplifun mín af sorphirðu er ekki eins og þín Bjarni, ég bý í fjölbýlishúsi þar sem sex íbúðir eru, það er ein tunna fyrir plast, ein fyrir lífrænt, tvær fyrir pabba og tvær fyrir almennt sorp, þessar tunnur eru alltaf fullar, ég keyri vikulega með minn pappa og mitt plast á næstu sorpu og stundum blandað sorp líka, og auðvitað skila ég dósum í endurvinnslu en það er á öðrum stað. Ég borga fullt sorphirðugjald eins og allir aðrir fyrir þessa þjónustu sem ég get ekki nýtt, er það bara allt í lagi? Ég er allt annað en sátt við þetta fyrirkomulag svo vægt sé til orða tekið. 

Erla Hrönn Júlíusdóttir (IP-tala skráð) 19.1.2025 kl. 16:33

3 identicon

Erla, þetta þykja mér tíðindi. Bý í 8 íbúða stigagangi og þar eru fjórar tunnur fyrir hvern flokk, almennt, plast, pappír og lífrænt.

Legg til að þið hafið samband við viðeygandi deild í stjórn ykkar sveitafélags. Ein tunna fyrir hvern flokk nær engri átt.

Bjarni (IP-tala skráð) 19.1.2025 kl. 17:02

4 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér Bjarni. Það eru grenndarstöðvar sem eiga að vera innan við kílómetur frá heimilum. Þar er hægt að henda áli, gleri, textíl og drykkjarumbúðum. Fæstir nenna að labba því fyrir suma er þetta frekar út úr leið þeirra, hvort sem er verið að ganga eða keyra.

Það er rétt hjá Geir að það er bara hægt að fá ókeypis undir lífrænt á sorpustöðvum og fyrir flesta þýðir það akstur.

Sorphirðan er síðan af misjöfnum gæðum eftir sveitafélögum.

Er sammála Geir að þetta óþarflega flókið og vel hægt að gera aðgengilegra fyrir almenning.

Rúnar Már Bragason, 19.1.2025 kl. 17:18

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bjarni.

Það er fleira en drykkjarumbúðir sem þarf að fara út fyrir heimilið til að skila. Á mínu heimili er ég til dæmis með notaðar rafhlöður og úr sér genginn fatnað (vefnaðarvöru) sem bíða þess að verða tekin með í næstu ferð í Sorpu, því það er ekki ílát fyrir þessa sorpflokka í sorpgeymslu fjölbýlishússins. Þar eru vissulega ílát fyrir pappír, plast, lífrænt og blandaðan úrgang til urðunar. Þar er meira að segja ílát fyrir drykkjarumbúðir, reyndar ekki gegn skilagjaldi heldur fer það til skátanna að ég held. Það er engin grenndarstöð nálægt mér svo ég hef gjarnan brugðið á það ráð að setja gler og málm með blönduðum úrgangi enda fer hann til urðunar og hvorugt er skaðlegt umhverfinu. En samviskunnar vegna vil ég síður setja rafhlöðurnar þar og ekki heldur vefnaðarvöru því hún getur innihaldið allskyns gerviefni.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.1.2025 kl. 17:34

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Ég þekki mann sem vinnur í móttökustöð Sorpu. Hann flokkar ekki ruslið sitt - allt í eina tunnu - því hann sér hvað er gert við ruslið við móttöku: Það er flokkað með seglum og öðrum græjum. Sennilega endar þitt hálf-óflokkaða sorp með að vera það best flokkaða þegar allt kemur til alls. 

Ekki er okkur sagt frá þessu fyrir utan að fólki er þröngvað til að nota minni og minni tunnur og gáma svo það væri ekki pláss fyrir sorpið óflokkað.

Geir Ágústsson, 19.1.2025 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og sex?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband