Eru fjölmiðlar að ná að forðast eigin dauðdaga?

Hefur fjölmiðlalandslagið á Íslandi breyst til batnaðar? Hafa blaðamenn rifjað upp hvað er ætlast til af þeim af okkur sem neytum frétta? Eru fjölmiðlar að reyna endurheimta orðspor sitt sem einhvers konar fjórða vald sem veitir yfirvöldum aðhald og borar í spillingu og sóun?

Sennilega er svarið við öllum þessum spurningum eitt stórt nei. Ekkert er að gerast í uppgjöri við veirutíma, fjármögnun á vopnuðum átökum á kostnað skattgreiðenda og gengdarlausa sjálftöku opinberra starfsmanna og kjörinna fulltrúa, en stundum eru undantekningar.

Sem dæmi má nefna þessa frétt DV um gegndarlausa sóun í ferðalög borgarfulltrúa í Reykjavík. Upphæðirnar sem þessir borgarfulltrúar hafa sogað til sín í skemmtiferðir og tilgangslausar vettvangsferðir eru sláandi, og þá sérstaklega þegar fjárhagsstaða hinnar gjaldþrota höfuðborgar er höfð í huga. 

Á seinasta ári byrjuðu viðtalsþættirnir Spursamál á Morgunblaðinu. Þar er engum hlíft að því marki að þingmenn hafa verið hraktir úr stólum sínum. Svo sannarlega ómissandi þættir fyrir þá sem vilja fylgjast með. Svipaða sögu má segja um Harmageddum-þættina á Brotkast - stækkunarglerið á kýlin sem almenningur þarf svo sannarlega á að halda, og svarti húmorinn sem frábært krydd. Fréttin og Nútíminn bjóða líka oft upp á hressandi valkost við það sem er talið verðugt til að fjalla um, svo sem umfjöllun um gengi ofbeldisfullra raðnauðgara af pakistönskum uppruna og múslímatrú í Englandi sem hafa fengið að misþyrma þúsundum ungra stúlkna nánast afleiðingalaust í fjölda ára. 

Svo það er kannski von, en bara ef við neytendur frétta viljum von og sýnum það í verki. Svartsýni mín fyrir hönd hefðbundinna fjölmiðla hefur dalað aðeins. Kannski skjátlast mér. Kannski endist þessi upprifjun blaðamanna á hlutverki sínu í samfélaginu bara á meðan Trump er Bandaríkjaforseti. Hver veit. En njótum þess sem hægt er að njóta, á meðan það endist.  


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og nítján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband