Laugardagur, 11. janúar 2025
Má núna ræða nauðgaragengi og ritskoðun?
Það er einhver ferskur andblær í loftinu. Það er erfitt að lýsa honum öðruvísi en sem andstæðu veirutíma - tíma ritskoðunar, þöggunar, lyga og kúgunar yfirvalda á þegnum sínum.
Andstæða útilokunarmenningarinnar þar sem fólki var hreinlega sagt upp vegna nafnlausra ásakana.
Allt í einu er verið að ræða opinskátt um ýmislegt sem taldist áður til samsæriskenninga og ímyndunar, svo sem kerfisbundna ritskoðun fjésbókarinnar sem að hluta var knúin áfram af þrýstingi yfirvalda (nokkuð sem hefur verið vitað í nokkurn tíma). Það virðist líka mega ræða kerfisbundna nauðgun manna með rætur til Pakistan á ungum, hvítum stelpum í Norður-Englandi, nokkuð sem bresk yfirvöld hafa lengi reynt að bæla niður umræðu og rannsókn á af ótta við að vera kölluð fordómafull. Það virðist sem allt þetta tal um manngerða loftslagshlýnun sem kallar á óáreiðanlega og dýra orku og jafnvel orkuskort sé hætt að hitta í mark í hvert skipti. Boðskapurinn um ágæti þess að leyfa ungum og ókynþroska börnum að taka hormónabælandi lyf til að breyta líkama sínum og jafnvel gera ófrjóan er nú í auknum mæli vegið á móti með rannsóknum á hræðilegum afleiðingum slíkrar meðhöndlunar (hvað fullorðið fólk gerir við líkama sinn er öllum alveg sama um). Stríðsbrölt Vesturlanda í Miðausturlöndum og undanfarin misseri Austur-Evrópu mætir nú aukinni andspyrnu almennings sem lýsir sér til dæmis í kosningaúrslitum. Lyfjafyrirtækin, sem voru nánast dýrkuð eins og bjargvættir á veirutímum, þola núna sífellt meira umtal um sviksamlega hegðun sína sem þau hafa komist upp með í skjóli yfirvalda sem í raun hafa hagsmuni þeirra frekar en okkar að leiðarljósi. Og svona mætti lengi telja.
Ég fagna auðvitað þessum ferska andblæ skoðanafrelsis og gagnrýni á boðskap hinnar pólitísku rétttrúnaðarkirkju. Á tímabili var ég farinn að óttast að almenningur hefði verið endanlega heilaþveginn til að gefa frá sér seinustu eigurnar, afganginn af orkunni, heilsuna og skoðanirnar - jafnvel atkvæðisréttinn í raun (allar ákvarðanir teknar af ókjörnum embættismönnum og yfirþjóðlegum stofnunum). En allt í einu fóru að myndast stórar sprungur í glerhjúpnum.
Hvað olli því að umræðan er ekki lengur þrúgandi og kæfandi einsleitni og kúgun er mér ekki alveg ljóst. Yfirgangur kanadískra yfirvalda á friðsömum mótmælum vörubílastjóra höfðu engin áhrif. Umframdauðsföllin og hræðilegar aukaverkanir veirusprautnanna ekki heldur. Kannski fólk hafi loks fengið nóg af rafmagnsreikningnum? Eða glæpum innflytjenda? Ég er ekki viss. En það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að núna má ræða mál frá ýmsum hliðum og líkurnar á að vera útilokaður, sviptur aðgangi eða settur í felur orðnar aðeins minni en áður.
Svo sem skipulagðar nauðganir pakistanskra karlmanna á breskum stúlkum, svo árum og áratugum skiptir, afleiðingalaust.
Gott mál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning