Viltu launahækkun? Færðu lögheimilið!

Allir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna, þ.e. Suðurkjördæmis, Norðausturkjördæmis og Norðvesturkjördæmis, fá greiddar 185.500 krónur á mánuði í húsnæðis- og dvalarkostnað skv. reglum Alþingis um þingfararkostnað.

Þetta er óháð því hvort viðkomandi sé eingöngu búsettur á höfuðborgarsvæðinu og reki heimili í göngufæri frá Alþingishúsinu eða geti kallað kjördæmi sitt heimili. Það eina sem leysir úr læðingi næstum því 200 þús. krónur er skráning á lögheimili í þjóðskrá. Raunveruleikinn skiptir hér engu máli. 

Það eru ekki margir sem fá launahækkun út á það eitt að skrá sig til heimilis í einhverjum eyðifirði. Það furðulega er kannski að landsbyggðaþingmaður þurfi ekki þingfararkostnað því hann á ekkert erindi í kjördæmið sitt - er ekki með heimili þar og þekkir kannski ekki sálu á svæðinu. 

Hann gæti kannski, sem sárabót, lagt fram eitt og eitt þingmál er snýr að hugðarefnum kjördæmisins sem hann á að vera fulltrúi fyrir á Alþingi. Er það ekki ástæðan fyrir kjördæmaskiptingunni? Að kjördæmin séu með einhverja á þingi sem tala fyrir hagsmunum þeirra? Maður hefði haldið.

Eftir stendur að hérna er gat sem þingið ætti að stoppa í. Það er sjálfsagt að koma til móts við kjördæmaþingmenn sem eru í raun frá kjördæmum sínum. Hinir, sem búa í göngufæri frá Alþingishúsinu, og hafa engin tengsl við kjördæmið sem þeir eru fulltrúar fyrir, ættu að láta svimandi há þingmannalaunin duga. Geta kannski troðið sér í einhverjar nefndir ef það er ekki nóg.


mbl.is Allir landsbyggðarþingmenn fá styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Þetta er misskilningur hjá þér, en kannski ekki furða þar sem Morgunblaðið hefur að því virðist verið með vísvitandi með villandi fréttaflutning af launum landsbyggðaþingmanna og þá sérstaklega þingmönnum Flokks fólksins.

Sigurjón Þórðarson, 9.1.2025 kl. 10:48

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sigurjón,

Það er það yndislega við frjálsa og opna umræðu þar sem menn mætast með rökum og mótrökum þar til sannleikurinn kemur í ljós.

Ákvað nú samt að skoða aðeins lögin sem eru skýrari en fréttirnar af þessu þingfararkaupi:

6. gr.

     Greiða skal alþingismanni fyrir kjördæmi utan Reykjavíkur og Reykjaness mánaðarlega húsnæðis- og dvalarkostnað til þess að hafa dvalarstað í Reykjavík eða grennd, eigi hann heimili utan Reykjavíkur eða nágrennis, eða til þess að hafa starfs- eða dvalaraðstöðu í kjördæmi sínu eigi hann heimili utan kjördæmisins.

Lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. | Þingtíðindi | Alþingi

Geir Ágústsson, 9.1.2025 kl. 10:52

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Þetta er misskilningur hjá þér þar sem allir þingmenn landsbyggðakjördæmanna þriggja fá þessa greiðslu burt séð frá því hvar þeir eru skráðir með lögheimili. Ef viðkomandi þingmaður heldur 2 heimili þá getur hann sótt um viðbótargreiðslu, en ég veit ekki til þess að nokkur þingmaður Ff hafi gert það. Mér sýnist sem ég sé tilneyddur í að skrifa grein um málið, en Morgunblaðið er greinilega ekki að segja fréttir heldur í einhverjum öðrum leik a.m.k. þegar komið er að okkur þingmönnum Ff.

Sigurjón Þórðarson, 9.1.2025 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og þrettán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband