Sunnudagur, 29. desember 2024
Það besta er að fresta
Á árinu sem senn er liðið tilkynnti lýðræðissinninn, forsvarsmaður mannréttinda, skoðana- trúfrelsis og Evrópusinninn í forsetastól Úkraínu því yfir að engar kosningar yrðu haldnar um hans dvöl í embætti á meðan honum fyndist það ekki við hæfi.
Á sama ári lagði kanslari Þýskalands fram vantrauststillögu á sjálfan sig fyrir þýska þingið.
Þetta lýðræði getur verið allskonar. Sumir nýta það til að fá umboð, aðrir nota það eins og verkfæri til að ná fram eigin markmiðum eða verja eigin stól.
Stundum snýst það um að verja völd þeirra kjörnu gegn atkvæðum þeirra ókjörnu. Stundum er fólkinu leyft að ráða aðeins. En bara aðeins.
Hér verður því ekki haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé ólýðræðisleg stofnun. Raunar er hann hið gagnstæða. Hann hefur yfirleitt haldið fast í prófkjörin svo dæmi sé tekið, þar sem flokksmönnum gefst tækifæri til að hreinsa út alla með sterka hugmyndafræði (miðað við reynsluna seinustu ár), og þar með grafið undan vinsældum flokksins hægt og bítandi og á síðari tímum hratt og örugglega.
En lýðræðið snýst jú um að leyfa þeim óbreyttu að ráða, og það er gott og vel.
Ég furða mig samt á tali Sjálfstæðismanna um að fresta landsfundi. Ein af ástæðunum sem er nefnd er sú að landsfundur eigi að liggja nálægt kosningum því þá kemur nafn flokksins svo oft fram í fyrirsögnum og laðar að sér kjósendur. Ég hef aldrei keypt slík áhrif landsfunda. Eins og greining Metils gefur til kynna þá hafa fyrirsagnir frá degi til dags kannski minni áhrif en menn telja - úrslitin eru mögulega miklu frekar háð því hvað forystumenn flokkanna boða í raun og hvernig þeir hafa staðið sig mánuðina á undan.
Um leið blasir við að forystu Sjálfstæðisflokksins þarf annað hvort að endurnýja eða að hún þurfi að endurnýja umboð sitt. Það er ennþá nóg af hæfileikafólki innan flokksins sem vill mögulega gefa kost á sér og leyfa flokksmönnum að taka afstöðu. Persónulega sé ég ekki hvaða erindi núverandi ritari og núverandi varaformaður eiga í forystu flokksins - ritarinn er svo gott sem ósýnilegur í umræðunni og varaformaðurinn með það afrek helst á bakinu að hafa lokað sendiráði, að því er virðist án þess að ráðfæra sig við nokkurn mann.
Í ljómandi góðri grein Björns Jóns Bragasonar er rifjað upp fyrra þurrkartímabil flokksins:
Nú þegar stefnir í að sjálfstæðismenn verði utan stjórnar er fróðlegt að rifja upp að aðeins hefur það tvisvar áður hent að flokkurinn hafi hvort tveggja í senn verið utan ríkisstjórnar og meirihluta borgarstjórnar, en það var árin 19781982 og 20102013. Í kjölfar ófara flokksins 1978 voru skipaðar nokkrar nefndir og ráðist í umfangsmikla sjálfsskoðun. Eftir á að hyggja má telja að flokkurinn hafi hugmyndafræðilega gengið í endurnýjun lífdaga í kjölfarið og víst er að hann náði vopnum sínum. Sannast þar hið fornkveðna að hinn spaki minnkar ekki / þótt hann verði var við sína villu líkt og Sófókles lætur Hemon komast að orði í Antígónu. Hið sama þarf að gerast nú og gert var 1978: Sjálfstæðismenn verða að hverfa til upprunans, hyggja að grunnstefnu flokksins og hlýða á rödd hins almenna flokksmanns.
En fyrst þarf að biðja flokksmenn um afstöðu sína til forystunnar hefði ég haldið.
Skiptir mestu að koma málefnalega sterk af landsfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sjálfstæðisflokkurinn eru vinstrimenn í dulargervi hægri.
Kristinn Bjarnason, 29.12.2024 kl. 13:39
Kristinn,
Ég held að þar innanborðs sé bland í poka. Að vísu engin herská ungliðahreyfing sem mætti kalla "samvisku flokksins" þótt þar hafi kannski undanfarið fæðst svolítil glæða en duglegir þingmenn sem vilja í raun leggja sitt af mörkum fyrir fjölskyldur landsins.
Ætli það megi ekki segja svipað um fleiri flokka.
Eitt er víst að naflaskoðunar er þörf.
Geir Ágústsson, 29.12.2024 kl. 18:08
Geir,Það er rétt hjá þér að það er mikil dómharka að fullyrða að sjálfstæðismenn séu vinstri en þetta er einn utan undir. Sjálfstæðismenn eru búnir að vera á miklum villigötum og það þarf ekki bara naflaskoðun heldur skipta um í brúnni til að eiga einhvern möguleika á endurkomu.
Kristinn Bjarnason, 29.12.2024 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning