Gleðilega jólahátíð

Seinustu þrjá daga hef ég eytt alveg ógrynni af tíma við að teikna og lita myndir, föndra, horfa á teiknimyndir, lesa barnabækur, leika eltinga- og boltaleiki í stofu minni og eldhúsi og spila á hljóðfæri, svo eitthvað sé nefnt. Það er jólafrí með 7 ára barn á heimilinu og það er æðislegt. Vinnupósturinn er alveg þagnaður sem er sjaldgæft. Allir skápar fullir af mat og snarli og því lítið um búðarferðir enda tekur dóttir mín varla í mál að fara út - vinkona hennar var hérna hálfan gærdaginn og nóg að gera hérna inni og engin ástæða til að þola kulda og rigningu og hvað þá skipta úr kósýgallanum og yfir í eitthvað hagnýtara. 

Þetta fyrir mér eru jólin. Í raun eini tími ársins þar sem vinnan hleðst ekki upp á meðan ég er í fríi. Sá tími sem meira að segja indverskir samstarfsmenn mínir virða sem frí þótt engin af þeirra mörgu trúarbrögðum hafi eitthvað sérstakt að segja um lok desember. 

Auðvitað eru margir pakkar undir tré og skraut og annað slíkt en stærsta gjöfin er tíminn saman. Kósýgallinn. Náttbuxurnar.. 

Forsenda tímans er svo auðvitað að hafa efni á honum. Þá meina ég ekki gjafirnar (þær má alltaf aðlaga að hvaða þeim fjármunum sem menn vilja setja í slíkt og börnin gleðjast sama hvað) heldur því að vera í fríi og geta notið einhvers huggulegs, hvort sem það er í formi athafna eða matar og drykkjar. Að geta lýst aðeins upp skammdegið með hærri rafmagnsreikningi. Auðvitað eru alltaf heimili sem eiga erfitt um jólin og geta þá keppt við innflytjendur um aðstoðina sem í boði er, en yfir það heila hefur samfélag okkar efni á að halda góð jól þar sem við leyfum okkur aðeins meira en venjulega án þess að það valdi sérstökum áhyggjum. 

Við getum það af því við búum í nokkurn veginn frjálsu markaðshagkerfi sem framleiðir raunveruleg verðmæti. Við getum leyft okkur að eyða tíma í að föndra og eyða fé í að skreyta og kaupa glaðninga, litla sem smáa. 

Gleðilega jólahátíð til lesenda hér og megi hún nýtast vel til að velta fyrir sér því góða, því nauðsynlega, því ónauðsynlega, því sem hvetur okkur áfram og því sem dregur úr okkur.


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Gleðileg jól og njóttu tímans með litlu pabbastelpunni. Þær stundir eru ómetanlegar. 

Ragnhildur Kolka, 25.12.2024 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband